Þá eru fjórir klukkutímar eftir af janúar. Tæpum tveimur af þeim verður eytt með Jack Bauer og félögum hans í CTU. Það er sérdeilis ágæt leið til að drepa tímann. En ég sá seint og um síðir að dópistalesendur vilja nöfn á dópinu mínu: Við ákváðum að þar sem köstin eru ekki "nema" 2-3 í mánuði og ná yfirleitt ekki að taka mig frá vinnu, ætti ég ekki að hefja reglulega fyrirbyggjandi meðferð heldur frekar prófa að stjórna köstunum með réttum lyfjum.
Í fyrsta lagi fékk ég stíla sem stoppa ógleði: Vogalene 5mg (metopimazine)
Svo fékk ég lyf sem ég tók oft í menntó, sterkt bólgueyðandi: Naproxene sodique. Ég hætti að taka það þegar mér var tjáð að það væri mjög vanabindandi. Einu sinni hafði ég einmitt látið bíl snúa við í Hvalfjarðarbotni til að ná í lyfin í bæinn svo ég trúði þeirri sögu. Taugalæknirinn minn vildi ekki vera sammála þessu, sagði mér að hafa engar áhyggjur. Lyfið sem hún skrifaði upp á var einhvers konar útúrsnúningur, proxena eða eitthvað álíka, en í apótekinu var mér gefið samheitalyf sem ber sitt rétta nafn. Ég tengi mígrenið að miklu leyti við vöðvabólgu, en veit ekki hvort vöðvabólgan kemur út af köstum eða öfugt.
Að lokum er það alvöru mígrenilyfið: Það heitir Relpax 40mg Hydrobromure d'élétriptan. Þegar ég prófa það í fyrsta sinn veit ég hvort um alvöru mígreni er að ræða á ný (ég efast ekkert, en læknirinn gerir það líklega) því lyfið virkar eingöngu á mígreniköst.
Þetta var nú aldeilis gaman börnin góð. Alltaf svo rosalega gaman að tala um sjúkdómana sína og lyfin sín, eða hitt þó heldur. Líklega það sem mér leiðist mest í heiminum. Að minnsta kosti hátt á listanum.
Ekki mun ég vera sú sem græt þennan blessaða janúarmánuð. Yfirleitt hef ég ekki tekið of mikið undir klisjuna um að janúar sé verri eða leiðinlegri en aðrir mánuðir. En þessi er búinn að vera frekar erfiður og ég ætla ekki að reyna að lýsa því hvað ég var glöð þegar ég fór í leikfimina á þriðjudaginn og það var ennþá næstum bjart. Það er farið að birta og þó að birtan þýði að maðurinn minn kemur seinna heim úr vinnunni er ég samt glöð yfir því. Farðu ljóti leiðinlegi janúar og megi febrúar verða betri, styttri, bjartari og aðallega að heilsan verði skárri.
Ég gæti ælt þegar ég les yfir síðustu daga hérna. Ég er greinilega andlaus með meiru. Mig langar að kenna utanaðkomandi aðstæðum um. Í fyrsta lagi hefur heilsan verið tæp, kraumar í mér einhver kverkasktíspest með tilheyrandi kinnholueymslum og hitasveiflum. Þannig svaf ég í lopapeysunni minni í nótt, skjálfandi og titrandi, en vakna svo frekar hress eftir að vera búin að losa góðan slatta af grænu slími úr andlitinu. Svo er það námið, mér líður eins og versta heimskingja, þetta er ekkert smá tæknilegt og snúið fyrir minn viðkvæma heila. En ég ÆTLA að svína mér í gegnum þykka þokuna til skilnings. Ég hef aldrei gefist upp á námi sem ég hef skráð mig í og fer ekki að byrja á því á gamals aldri. Þá er það blessuð vinnan. Brauðstrit mætti varla kalla þetta tutl mitt, en það getur tekið á þegar í mörg horn er að líta. Að lokum er það risaverkefni sem er ennþá algert leyndarmál. Það er unnið í hjáverkum hér og þar þegar tími og kraftur finnast í sama andartaki. Aukalega er svo kvennakvöldið sem er í fullum undirbúningi ásamt þessu indæla hversdagslífi sem inniheldur þvottavél, þvottasnúrur, kúst, viskustykki, potta og pönnur, hráefni sem þarf að sækja og vinna úr, muna tónlistarskólann, muna afmælið, bjóða í brunch, halda eitt stykki 12 barna afmæli... ég er ekki alveg viss um að þið munið heyra mikið frá mér á næstunni. En ég er líka nokkuð viss um að það sé í stakasta lagi, ég stórefast um að þetta bull hérna geri meira en að stela tíma af fólki.
Það er alveg ólýsanlega miklu betra að hlusta á tímana í sinni eigin tölvu í öryggi eigin heimilis. Hvað t.d. ef tölva vina minna crashar (er til íslenskt orð, hrynur?) meðan ég er að hlusta? Öll þeirra skjöl hverfa? Er ég þá sek? EN áðan var ég búin að hlusta á fyrsta hálftímann af tíma frá föstudeginum og þá stoppaði allt og enginn vegur að gera annað en að byrja upp á nýtt. Það gerði ég æðrulaus og allt stoppaði eftir ca tíu mínútur. Þannig að nú er ég að hlusta á fyrsta korterið í þriðja sinn, sem er kannski að einhverju leyti ágætt, límheilabarnið sem ég var er ekki lengur til staðar, nú þarf ég að stauta mig fram úr lestrarefninu upphátt til að eitthvað nái að síast inn, en samt... ég þurfti líka að hlusta á fyrsta hálftímann frá tímanum á miðvikudaginn tvisvar. Frekar frústrerandi. Og í raun erfitt að vera að lesa eða gera annað á meðan því ég get ekki fengið neins konar tilkynningu þegar upptakan er komin að þeim stað sem ég þarf að byrja að hlusta. Jú, ég get hlaupið og sett í vél, gengið frá kampavínsglösunum inn í skáp og bloggað smá. En ég er áfram í fýlu. Notaði samt hástafi núna, þó ástandið sé lágstaflegt.
hann er horfinn. bara eintóm tilkynning um tóm. mér finnst það nú ekkert alveg allt í lagi. þú lætur vita af þér, er það ekki?
ég er eitthvað undarlega blúsuð, meðal annars út af nokkrum síðum sem ég hef lent inn á hér á netvafri mínu í kvöld, almáttugur en sú mæða að eiga svona samlanda. út af blúsástandinu hef ég ákveðið að hafa enga hástafi í þessari færslu. æ, nei, þetta er lágfærsla.
lifið í friði.
p.s. þetta með ömurðina á ekki við neinn á blogglistanum og alls ekki alla ókunnuga sem ég hef kíkt til í kvöld, bara suma.
Það eru margar hættur á vegi manns meðan maður er ung stúlka. Í hvert skipti, sem maður vogar sér út fyrir dyr að kvöldi til, getur maður gengið að því sem vísu, að maður að minnsta kosti lendi í einhverju uppþoti, stundum er kannski aðeins um umsátur að ræða, en þegar verst gengur - eða best - getur maður átt það á hættu, að verða innikróuð, með litla möguleika á útgöngu. Nú er það náttúrulega fátt, sem manni kemur ver, en að vera skoðuð sem óvarin borg á stríðskortinu. Maður vill svo sem gjarnan láta taka sig til fanga, og ekki síður að verða gjörsigruð, - en maður er ákveðin í að gefast ekki upp, nema fyrir sérstakri herstjórnarkænsku. Og því er nú sannarlega ekki alltaf fyrir að fara - hverslags fólk eru eiginlega þessir generálar okkar? Flestir þeirra þekkja ekki galdurinn, sem í því felst að heyja orustu með glæsibrag, - vald orða, sem aldrei eru töluð, galdurinn að vekja aðdáun. Þá er fyst til að taka Leo generáll. Hann hefur mikla leikni og ímyndar sér að hann viti allt það um kvenþjóðina, sem hann þarf að vita - að minnsta kosti veit hann of mikið til að hafa virkilega ánægju af eltingarleiknum. Hann á enga glóð nema í vindlingnum sínum, og hann finnur aldrei til í hjarta sínu. Hann lætur nokkur fáguð skrúðyrði falla um yndisþokka hennar (með augu eins og döggvaðar fjólur, glaðlynd eins og fíolín, hefur hlátur, sem minnir á læk í vorleysingum), allt þetta segir hann meðan hann hagræðir sér í bólstruðum stól. Hann skýrir það fyrir henni að hann hafi ávallt farið á þá réttu staði, þar sem hið rétta fólk var - og hann eigi ómögulegt með að skilja hvar maður hafi getað falið sig fram á þennan dag...... Viðvaningunum þýðir lítið að ætla að keppa við Leo generál. Kusi generáll er fullkomin andstæða hans, því hann er alltaf að reyna að koma öðrum á óvart. Hann er þéttur á velli, gengur öruggur að hverju verki, og hefur fullkomið vald yfir sjálfum sér - það sópar alltaf að honum. Orð hans eru ekki eins yfirveguð, en það er nú algengt. Hann gæti borið mann á öðrum handlegg ef honum sýndist - og ef m-a-n-n-i sýndist. Vinir hans skipta hundruðum, og þeir kalla hann Kusa eða gamla sinn eða Ístrubelg - og hjá hlátri hans yrði niðurinn í Niagara eins og seytl í vatnskrana. Hann er fjandi glæsilegur - jafnvel fullorðnar frúr verða ungar stúlkur í návist hans. Það er óhætt að segja að Kusa generáli verður vel til fanga. Vígstaðan er ekki góð, loftið er fullt af útslitinni fjöldafyndni. Hin andríku ástarhót og glæsileg ástleitni hljóta að hafa dáið út með Ludvik 16. Og þó - og þó! Meðan maður situr í fýlu á silkifóðruðum legubekk kemur til manns ósköp alúðlegur maður segir fáein orð og brosir. Maður fær ákafan hjartslátt og kastar neti sínu út til að fá hann til að setjast Hann borðar epli, hlær og fitjar upp á einhverju ómerkilegu umræðuefni með hrifningu í augum, en fer burt þegar einhver kallar til hans. Og maður situr eftir með sárt ennið, af því hann hafi aðeins komið, og hafi ekki haft nein herbrögð í huga, og langi ekki neitt til að hrósa sigri yfir jafn þýðingarmiklu herfangi og maður sjálfsagt er.
Þetta er kafli úr bókinni Svona eru karlmenn eftir Lis BYrdal sem kom út hjá Víkurútgáfunni 1949. Þýðandi er ekki nefndur.
Þá er ég komin með alls konar dóp að prófa næst þegar ég fæ kast. Ég vildi bara láta lækninn TAKA köstin, en það er víst ekki hægt... ennþá.
Hér er sól og blíða, reyndar kalt. Mér finnst afskaplega óraunverulegt að lesa veðurlýsingar frá Íslandi. Reyndar finnst mér svo til allt sem ég les og heyri um Ísland þessa dagana mjög óraunverulegt, hvort sem um er að ræða pólitík eða einkamál.
Það er þó eitt virkilega raunverulegt. Ég er aftur byrjuð á fullu í skólanum. Sem betur fer tók ég bara þessa tvo 2,5 eininga kúrsa, mér líður eins og ég sé hálfviti og skil ekki neitt. En í andvökunni í nótt las ég rólega og næstum því upphátt um nokkra hluti og held að nú séu þeir örlítið ljósari. Reyni að halda áfram að stauta mig í gegnum hið óskiljanlega í dag, kannski rennur upp fyrir mér ljós. Mig langar mun meira að ganga út í sólina, fara kannski eitthvert niður í bæ, en sjálfsaga mínum eru engin takmörk sett.
Undanfarnar nætur hafa martraðir mínar helst gengið út á taugalæknisófarir, en ég á að mæta hjá henni eftir þrjú korter. Og mér líður eins og verið sé að leiða mig til slátrunar. Hvaðan skyldi þessi ógurlega hræðsla við lækna koma? Hún er í fyrsta lagi undarleg í ljósi þess að móðir mín er hjúkrunarfræðingur og í gegnum hennar vinnustað kynntist ég nokkrum yndislegum læknum og í öðru lagi undarleg að þrátt fyrir þessa andúð mína á læknum, sjúkrahúsum og apótekum sóttist ég eitthvað í að starfa innan heilbrigðisgeirans, skúraði og var í býtibúri um tíma á Borgó og var gangastúlka (hét reyndar starfsmaður á launaseðli) á Kleppi í tvö sumur. Hefði áreiðanlega verið það áfram ef ég hefði ekki hætt að koma heim frá París á sumrin.
En í nótt bar svo við að martröðin snerist um kvennakvöldið. Ég fæ alltaf slíkar martraðir þegar það fer að nálgast. Í gær prófaði ég staðinn sem verður fyrir valinu og leiddi það af sér að í nótt gerðust alls konar skandalar og skipulagsmistök á afar mislukkuðu kvennakvöldi í París. Á einhverjum tímapunkti vorum við á Laugaveginum í bakhúsi, en það tengist samræðum við borðfélaga minn í gær.
Ég á víst að telja mig heppna að geta notað draumfarir til að tappa af áhyggjum, þetta er víst ægilega hollt og stresslosandi. Mér líður samt núna eins og ég hafi sofið í tíu mínútur. Vona að ég verði ekki lögð inn á taugadeildina í snarhasti.
þegar maður er fjögurra ára og langar að fá drekkutímann. Kári byrjaði að þjást tuttugu mínútum fyrir fjögur. Nú vantar hana átta mínútur í og hann er að spila út.
Verst að ég á ekkert fyrir drekkutímann. Eftir skinkudruslu og maísbaunir í hádegismat hefði nú verið ágætt að snara fram einhverju girnilegu. En nei. Það verður þurrt rúgbrauð með smjöri og sultu. Æ, er það ekki bara ágætt? Fullt af kókómalti með gerir útslagið.
Mér er að batna, seyðið og fyrirmyndarhegðun (hvíld) greinilega að hafa áhrif.
Hér kemur "uppskriftin" að seyðinu, en eins og allar góðar uppskriftir er hún afar sveigjanleg eftir þörfum og skapi hvers og eins:
Ég afhýði þrjú hvítlauksrif og sker í tvennt, ríf niður ferskan eða frystan engifer, ca 1 cm, eiginlega bara þangað til ég er búin að fá nóg af því að rífa og skelli einni teskeið af þurrkuðum muldum cayenne-pipar saman við. Allt fer þetta í pott ásamt rúmum lítra af vatni og er svo soðið undir loki í tja, fimm til tíu mínútur. Svo fæ ég mér strax í bolla (helli í gegnum síu) og kreisti græna eða gula sítrónu út í og jafnvel teskeið af hunangi með. Afgangurinn bara látinn standa í pottinum og skerpt undir þegar tími þykir kominn á drykk. Sítróna og hunang er ekki skylda, bara bragðbetra. Einnig má drekka þetta kalt. Aðalhreinsunin og lækningin felst í þessum undraefnum náttúrunnar (taka smá Sollu á þetta!), cayennepipar er t.d. stútfullur af c-vítamíni, ef ég man rétt. Ég hef aldrei fengið almennilega úr því skorið hvort maður verður andfúll af þessu, eins og allir vita er hvítlaukslykt út úr fólki náttúrulegt ástand í Frakklandi.
Einnig gerði ég stóran pott af einhvers konar Dahl, linsubaunasúpu, úr kórallitum linsubaunum sem runnu út í júlí í fyrra. Reif gulrót, hvítlauk, lauk og rauða papriku í smátt og glæraði í olíu í potti með karrí, salti, cayennepipar og auka kúmíni og curcuma. Svo helli ég linsubaununum í pottinn (skola fyrst) og tvisvar sinnum meira af vatni og setti einn lífrænan grænmetistening út í. Þetta er svo bara látið sjóða nógu andskoti lengi til að baunirnar maukist, ca hálftími líklega, undir loki (til að spara orku). Þetta var svo borðað sem máltíð fyrsta kvöldið, svo blandaði ég léttsteiktum kartöflum og brauðteningum við í hádegismat daginn eftir og í dag fór Arnaud með þetta í vinnuna blönduðu saman við hrísgrjón að auki. Börnin borða þetta með góðri lyst. Aukaverkanir: Dálítið vindasamt á heimilinu undanfarna daga.
Ég get hlustað á tímann frá því í morgun í tölvunni minni! Tæknilega get ég það, en mun þó ekki gera það með börnin yfir mér, því vitanlega get ekki sett á pásu eða fært fram og aftur eins og í PC, má ekki missa af einu einasta gullkorni sem hrýtur af vörum kennarans, er það nokkuð?
Þar sem ég sat hér í sjálfsvorkunnarkasti yfir því að ég var að bíða eftir símtali frá Microsoft, handviss um að þeir myndu aldrei hringja í mig, hringdi síminn og á hinum enda línunnar var Microsoft sjálfur í líki ungs manns sem var bæði kurteis og þolinmóður. Og ég er komin með Office. Liggaliggalá.
Hins vegar hefur þjónustufulltrúinn í bankanum mínum ekki hringt, en á föstudagsmorgni fyrir einni og hálfri viku síðan sagði símaþjónustufulltrúinn að þjónustufulltrúinn myndi hringja klukkan hálffjögur. Ég tók því þannig að símaþjónustufulltrúinn væri að tala um sama daginn en ég bíð enn. Og nenni varla að tala við hana ef hún lætur einhvern tímann svo lítið að hringja. Skitnar fokking 40 evrur sem rifist er um, hef hvorki tíma né þrek í að pæla í þessu. Það versta er að ég er dálítið mikið í prinsippunum þegar kemur að bankastofnunum og það ALversta er að þó ég lesi næstum aldrei djúpt og vel yfir bankayfirlitin, man ég vel eftir að hafa hnyklað brýrnar þegar ég sá þessar fjörtíu evru færslur í júlí í fyrra. Skildi ekki alveg dæmið, þær fóru út af reikningnum og inn á hann aftur og svo út aftur. En fyrirtækið sem var að láta millifæra segist ekki hafa fengið þær. Svo spurningin er hvert í ósköpunum fóru þær? En ég nenni varla að pæla í því, veit ekki, alla vega ekki í dag. Ég er komin með Office!
Kallinn þurfti að fara að vinna, sólin skín úti en ég efast um að ég muni hafa burði til að fara með börnin út í garð. Og þó, kannski það gerði mér bara gott? Sé til. Í dag er miðvikudagur, enginn skóli. Á morgun er fimmtudagur og verkfall. Svo fara þau á föstudaginn í skólann og þá er vikan búin. Mér finnst ég ansi mikið að í því að "passa börnin mín" þessa dagana og vikurnar. Ferlega væri ég til í svona húshjálp sem byggi til kvöldmatinn. Og tyggði hann fyrir okkur líka. Og sæi um að brydda upp á skemmtilegum umræðuefnum.
Það er eins og það sé flugvél í hægagangi í húsinu mínu. Líklega er það bara harði diskurinn að taka upp úr sjónvarpinu og hljóðið magnast svona upp því mér er svo illt. Mér er viðbjóðslega illt í höfðinu, aðallega andlitinu og gómnum. Skánaði heilmikið í eftirmiðdaginn, var næstum farin út í sólina augnablik en fann samt slappleikann og ákvað að vera þæg. Um leið og fór að dimma helltist aftur yfir mig þessi sársauki.
Ég horfði á Meet the parents á frönsku í kvöld. Alveg óvart, ætlaði bara aðeins að kíkja á hana í þeirri trú að ég myndi gefast strax upp, hef aldrei almennilega lært að sætta mig við talsetningu mynda, en svo bara var hún eitthvað svo fyndin, ég hló svo innilega þegar hann braut öskukrukkuna að ég ákvað að liggja bara yfir þessu, gæti ekki annað en gert mér gott í veikindunum. Eiginlega er öskukrukkusenan best, en þessi mynd er samt alveg þokkalega fín. Ég sá svo aldrei Meet the Fuckers.
Hæsið hefur þróast út í flensupest með tilheyrandi beinverkjum og almennri vanlíðan. Eitt gramm af parasetamól sló ekki einu sinni á verkina í andlitinu og gómnum.
Mér finnst það óþægilegt hvað ég verð alltaf fjári veik þegar ég verð veik, mér líður þannig að mig langar að liggja í fósturstellingunni og væla. Er ekki alltaf sagt að karlar láti svona þegar þeir verða veikir? Enn ein klisjan sem lítið er að marka, eða enn eitt merkið um að ég er karl í kvenlíkama?
af tæknilegum ástæðum, verður maður bara að gráta hljóðum tárum í staðinn.
Svo er hægt að ylja sér við falleg skrif, annarra eða eigin. Ég fór aftur niður á núllpunktinn minn, renndi í gegnum fyrstu skrefin mín hérna. My oh my, af hverju koma 50 manns í heimsókn til mín á dag, hvílíkt leiðinlegt sumt sem ég skrifa.
En þennan hér er ég ánægð með, þyrfti eiginlega að skella honum inn á Parísardömusvæðið sjálft, hann er örlítið klipptur og lagaður núna:
MORGUNKAFFI PARÍS - REYKJAVÍK Ég man afmælisdaginn minn fyrir nokkrum árum. Þá var ég á Íslandi, það var sunnudagsmorgunn, ég vaknaði snemma og hress og ákvað að bjóða mér í kakó með rjóma niðri í bæ í tilefni dagsins. Ég gekk upp og niður fjandans Laugaveginn útbíaðan eftir eina af þessum heimsfrægu frábæru íslensku laugardagsnóttum og það var ekki ein einasta búlla opin. Hvílík einsemdartilfinning sem helltist yfir mig. Svo opnaði Súfistinn í Máli og Menningu loksins og ég fékk dásamlegan kakóbolla og fullt af erlendum tímaritum að lesa til að gleyma íslenskum raunveruleika. En þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég get ekki búið á Íslandi. Ég get ekki búið á landi sem býður ekki upp á kaffihús að morgni til. Einu sinni hitti ég ameríska fína frú sem var í sömu aðstæðum og ég, nema það var alls ekki sunnudagur heldur virkur dagur. Klukkan var ekki orðin átta, rétt um sjö, og því ekki hægt að fá kaffi neins staðar. Hún hafði tekið leigubíl ofan af hótel Esju til að njóta morgunasa borgarinnar. Sú fékk að kenna á því. Ég var eina fótgangandi manneskjan á öllum Laugaveginum, og engin kaffihús opin. Best að taka það fram að það var sól og gott veður. Við gengum saman smá spöl og ræddum þetta, ég vonast til að það spjall við innfædda hafi bætt örlítið upp skort á mannlífi og menningu. Eri hægt að búa á landi sem býður ekki upp á kaffihús að morgni til? Í París, er til dæmis hægt að fara að einni af stóru brautarstöðvunum upp úr sex að morgni, setjast inn á kaffihús og fylgjast með öllum fjöldanum sem kemur og fer. Sumir eru fínt klæddir með fínar skjalatöskur og hella í sig einum espressó á barnum. Sumir í bláum skítugum vinnugalla og sötra hægt og rólega púrtvín eða pernaud. Sumir bara að hanga svona ljóðrænir eins og maður sjálfur, staddir inni í miðri ösinni án nokkurs ákveðins takmarks annars en að horfa á lífið sjálft. Vegna þess að það er einmitt við svona aðstæður sem maður sér lífið sjálft. Raunveruleikinn verður einhvern veginn áþreifanlegur á annatímum í stórborg. Þegar maður nær að finna að maður er ekki hluti af önninni, straumnum, þá svífur maður utan við hann og er ósýnilegur og það er þægileg tilfinning. Sérstök stórborgartilfinning. Aðra morgna hef ég verið ein af þeim sem skvetti í mig einum bolla við barinn og þá er maður hluti af straumnum og það er líka skemmtilegt. Sérstaklega þar sem maður er það ekki daglega. Næstum eins og maður sé orðinn leikari í raunveruleikanum. Raunveruleiknum.
En Reykjavík er ekki stórborg og ekki hægt að vera ósýnilegur þar. Kannski ekki sé hægt að bjóða upp á kaffi að morgni til í borg þar sem allir eru sýnilegir?
Ég hitti konu í boði fyrir jólin og fékk hjá henni símanúmer og við ákváðum að tala saman eftir jólafríið um skipulagningu á heimsókn hóps á vinnustað hennar í vor. Í síðustu viku hringdi ég svo í hana og eftir að hafa skipst á venjulegum kurteisisformúlum heyrði ég að rödd hennar var mjög undarleg svo ég spurði hvort ég hitti illa á, hvort ég hefði vakið hana af blundi. Þá brast hún í grát og sagðist hafa verið að missa pabba sinn sviplega. Ég stamaði einhverjar samúðarkveðjur og henni tókst að segja mér að hún yrði í fríi út vikuna og bað mig að hafa aftur samband á mánudaginn. Og nú sit ég hér raddlaus.
Vinkona mín hún Sólveig Simha er að hefa frönskunámskeið fyrir börn. Sólveig er yndisleg manneskja, ljúf og skemmtileg. Hún er leikkona með próf úr hinum virta leiklistaskóla Rue Blanche. Námskeiðið er jafnt fyrir byrjendur sem tvítyngd börn. Ég mæli hiklaust með því að senda börnin ykkar til hennar, svo geta þau kennt ykkur það sem þau læra og svo koma allir saman til Parísar með Kristínu, eða hvað? Því miður vantar verðið í tilkynninguna, einhver mistök hjá þeim sennilega, ég set það inn um leið og ég fæ svar frá þeim um það.
En hér er auglýsingin frá Alliance Française:
LÆRÐU FRÖNSKU
Frönskunámskeið fyrir börn hjá Alliance Française La petite école de l'Alliance Française býður upp á frönskunámskeið fyrir börn á aldrinum fimm til átta ára. Sólveig Simha leikkona les fyrir börnin alþekkt frönsk ævintýri og sögur og byggir kennsluna á þeim. Með því að leika sér með söguefnið bjóðast margir möguleikar til kennslu í frönsku og franskri menningu, til dæmis með því að nemendur leika söguþráðinn, með spuna, með því að teikna myndir, endursegja söguna og svo framvegis. Námskeiðið gæti svo endað á því að nemendur settu upp lítinn sjónleik á frönsku þar sem hver og einn segði sína setningu. Það er ætlað öllum fimm til átta ára krökkum hvort heldur þau eru frönskumælandi eða ekki. Sólveig Simha er bæði frönsku- og islenskumælandi og nýtir sér reynslu sína sem sviðsleikkona við kennsluna. Námskeiðið er haldið á miðvikudögum frá fjögur til hálf sex.
Alliance Française Tryggvagata 8, 101 Reykjavik (+354)552-3870 - Fax:(+354)562-3820 alliance(hjá)af.is
Í dag fór ég í gönguferð með ferðalanga. Það var gaman, veðrið er með ólíkindum, það var 14 stiga hiti í nótt og örugglega rúmlega það í dag. Mýrin var troðfull af fólki, allar terrössur þéttsetnar - bæði veðrið og reykingabann innandyra spila þar inn í, ég er reyndar hálfhissa á að það megi reykja úti á terrasse, finnst það nú alveg hluti af kaffihúsinu, en þetta er kannski ágæt lausn í bili í reykingalandinu mikla, þá getur reyklausa fólkið bara verið inni í fýlu með smarta reykliðið spókar sig úti með sígó í kjaftinum. En þetta var útúrdúr. Í svona göngutúrum tala ég stanlaust, segi sögur, útskýri hluti og bara leik mitt hlutverk sem sögumaður í París. Með því að þenja raddböndin eins og ég vildi öskra, gat ég náð að kreista upp aðeins meira en hvísl Þetta var erfitt. Atvinnutækið er sem sagt farið í frí.
Maðurinn minn dirfðist að gefa mér Bergman í jólagjöf og horfðum við á 1. þáttinn í seríunni Scener ur ett äktenskap í fyrradag og skemmtm okkur konunglega.
Ég hef ekki getað hætt að hugsa um kjólinn sem Liv er í þegar hún tekur á móti indælu vinahjónunum í mat. Grænn, fljótandi, samt aðsniðinn, fallegt hálsmál, af hverju í ósköpunum er ekki hægt að fá svona kjóla neins staðar í dag? Ég veit að þetta er velmegunarvandamál, en ætli það sé allt morandi í svona kjólum á flóamörkuðum í Svíþjóð?
Ég strengdi ekkert áramótaheit frekar en fyrri daginn en einhverra hluta vegna hef ég verið ótrúlega dugleg að búa til mat á þessu nýja ári. Hef fundið upp hjá mér að gera aftur alls konar rétti og sósur sem ég hafði ekki gert lengi, búin að skera niður töluvert magn af grænmeti, sjóða baunir og quinoa, grilla, steikja og baka og bara hef getað boðið fólki að gjöra svo vel með bros á vör og gleði í hjarta aftur og aftur. Kannski er þetta ein af ástæðunum fyrir að svo margt annað situr á hakanum eða er gert í flýti og hálfkáki? Kannski móðurinn renni af mér nú þegar ég fer að monta mig af honum?
Bætt við: Ég gleymdi alveg að segja ykkur framhaldið frá því áðan. Börnin voru fullkomin, veltu sér upp úr skítugu gólfinu og létu eins og fæðingarhálfvitar (hvað sem það nú þýðir). Maðurinn sagði mér að þetta væri mjög eðlilegt (sko pakkinn, ekki börnin) að ég þyrfti "bara" að hafa samband við Microsoft og láta þá endurvekja lykilinn minn. Yeah, right. Ég reyndi að grátbiðja hann um að sýna mér nákvæmlega í tölvu hvar sú þjónusta væri, en ekkert gat haggað þessum akfeita tölvunerði. Ekki einu sinni bavíanarnir börnin mín. Ég gekk klökk út úr búðinni og heim og flakkaði um undirheima Microsoft.com, lengi lengi. MJÖG krípí að þegar ég sló á einhvern ákveðinn tengil, einhvers konar assistance, kom alltaf ÍSLENSK síða Microsoft upp. Hvað á það að fyrirstilla, VEIT Microsoft að ég er íslensk, bara af minni glænýju IP tölu? Ég meina, ég var alltaf inni á microsoft france og var svo bara send sisona til Íslands?! Endaði náttúrulega bara með því að hringja í íslenska símanúmerið og fékk þessa líka fallegu karlmannsrödd sem sagði á mínu ylhýra að skrifstofan hefði lokað fyrir hálftíma, en þakkaði mér samt kærlega fyrir að hringja.
Á endanum fann ég eitthvað netfang og er búin að senda bréf með upplýsingum um mig, þig og ömmu þína líka.
Í morgun fór ég með börnin í skólann eins og vanalega. Þau eru fimm sem ég þarf að koma þangað, stundum mikið fjör. Í morgun var sérlega mikið fjör því Basil var hálflasinn og illa sofinn og ákvað að detta í stiganum og vekja alla bygginguna, kannski hverfið, með öskrum sínum. Hann var óhuggandi þar til ég lét hann bara liggja og bannaði öllum að koma nálægt honum eða tala við hann. Þá tók hann sér tak, reis á fætur og bað um snudduna. Henni var stungið upp í hann og allir komust út í bíl. Að festa fimm börn og einn bílstjóra í fimm manna bíl er ekki mikið grín. Ég er vitanlega kolólögleg og gæti fengið sekt eða lögsókn fyrir morðtilraun eða eitthvað annað skemmtilegt. En leiðin er ekki löng og afskaplega fáfarin og að megninu til á 30 km vegum svo ég læt mig hafa það, þetta er mun öruggara en að ganga með allt stóðið sömu leið, þurfa að fara yfir nokkrar götur og vera stöðugt að passa að allir haldi sig á gangstéttunum þess á milli. Í skólanum kom svo í ljós að tveir kennarar eru veikir, báðir kennarar minna barna. Þar sem þau vita að ég vinn óreglulega og er svo BARA námsmaður, var horft á mig hundsaugum því vitanlega var enginn forfallakennari, mér skilst að hálf sveitin liggi í pest. Ég samþykkti að vera með þau í dag, þó ég EIGI RÉTT á því að skilja börnin eftir og þau geta bara reddað þessu. Sem ég hefði vitanlega gert ef ég hefði t.d. átt stefnumót við hóp. Maður þarf að kunna að nýta réttinn sinn rétt. Ég flýtti mér heim, henti börnunum inn til pabbans og rauk beint yfir til nágrannanna og náði að hlusta á tímann frá miðvikudeginum áður en ég kom heim og tók yfir vaktina. Svo nú er ég heima með börnin mín sem keppast við að klaga hvort annað (nema rétt í þessu var verið að glenna framan í mig nasir til að sýna mér að nú sé ekkert hor, en það hafi verið svona stórt hor sem hafi farið í ruslatunnuna). Ég þarf að skila verkefni sem mér gengur ekkert allt of vel með. Ég þarf að gera lista yfir tilboð frá veitingahúsum. Ég þarf að koma út auglýsingapósti sem ég hef hummað fram af mér alla vikuna. Ég þarf að ganga frá stórri hótelpöntun. Þetta mun ég reyna að komast yfir milli kvartana, skeininga og matmálstíma.
EN strax eftir matinn verður haldið í tölvubúðina með OFFICE pakkann. Á leiðinni verður útskýrt vandlega fyrir börnunum hvernig þau eiga að standa hokin, eymdarleg og óhamingjusöm við hliðina á móður sinni meðan hún barmar sér við afgreiðslumanninn. Það gæti hjálpað. Hver veit?
Tæknivandræði á tæknivandræði ofan. Mér sýnist sem svo að ég muni þurfa að
a) hlusta á fyrirlestrana í tölvu Cyril og Christelle b) vinna verkefnin í tölvu mannsins míns
Fína nýja tölvan mín verður þá bara sett í plusskassa og tekin fram á kvöldin og um helgar svona til að lesa blogg og hlusta á útvarpið.
Þegar við keyptum tölvu mannsins míns keyptum við Office 2004 Mac pakka með. Á honum stendur skýrum stöfum að ég eigi að varðveita umbúðirnar því á þeim séu lyklarnir sem þarf í hvert af þeim þremur skiptum sem ég set kerfið upp. Reyndar er tekið fram að lyklarnir séu þrír en á pakkanum okkar er svo bara einn límmiði með einum lykli. Sem ég hefði kannski átt að taka eftir þegar ég setti pakkann upp í fyrsta skiptið. Þannig að ég get ekki sett upp Office hjá mér og tilraunaáskriftin rennur út um helgina. Ég er búin að hringja til hægri og vinstri og eitthvað upp og niður líka, vera bljúg, vera örvæntingarfull, vera sexý og vera bálöskuill en ekkert hefur dugað. Mér er sagt að ég sé að ljúga. Það sé alltaf bara ein uppsetning í hverjum pakka. Ég á eftir að fara í búðina. Þar verður mér sagt að ég sé að ljúga og svo verður einhver helvítis útskýring á því að þetta sé villa á pakkanum.
Ég er búin að eyða hvílíkum tíma í mislukkaðar tilraunir bæði með Office og Windows Media Player og fá slík viðbrögð hjá Microsoft fólki í síma að ég er miður mín og mig langar mest að henda öllu sem tilheyrir því skítafyrirtæki út úr tölvunni minni og halda henni HREINNI. Mér er skítsama þó ég þurfi þá að segja mig úr samfélagi manna. Hvaða aulagangur er þetta að allir skuli bara gangast undir þetta kúgandi afl? M.a.s. HÍ?
Og nú er ég að gera þetta blessaða verkefni sem ég á að skila á morgun og mér líður eins og fábjána. Ég veit ekki neitt og kann ekki neitt.
Og næstu daga þarf ég svo líka að takast á við það á ný, alveg eins og ég eyddi örugglega heilum, ef ekki tveimur dögum í á síðustu önn, að koma hljóðritun inn í tölvuna mína. Ég fór eftir slóðum sem kennari gaf, gerði allt eins og átti að gera og er með þetta Doulos inni í Wordinu á tölvu mannsins míns. En ekki hljóðritunarletrið samt.
En er ég pirruð? Nehei, það er nefninlega svo drullugaman að vera til og ægilega mikið um að vera og veðrið svo fallegt (helber lygi, það er rigning og rok). Ég er glöð á góðum degi sem þessum. Já já sei sei, best að fá sér meiri rjóma.
Ég held að RÚV ætti að fá þá félaga Eirík Örn Norðdahl og Ingólf Gíslason til að semja áramótaskaupið 2008. Það yrði kannski til þess að fólk risi úr sóffunum, rifi flatskjána úr innfelldum innstungum og hlypi með þá út á næstu brennu. Upp frá því vaknar þjóðin úr dvala og gerir sér grein fyrir því að hafa verið höfð að fífli (fíflum?) of lengi... eða þá að fólk myndi fussa og sveija og heimta endurgreiðslu.
Annars er ég búin að komast að því hvers vegna ég vissi ekki um Kusturica, hann verður frumsýndur núna í lok janúar hér í París. Svo þið eruð á undan okkur. Það hlýtur að gleðja.
Svo er bara yfrið nóg að gera. Kvennakvöldið framundan, stór hópur með spennandi dagskrá, skólinn byrjaður á fullu, börnin, kallinn, þvotturinn, vinirnir, gítarinn, skíðaferðin, allt að gerast.
Fór í leikfimina í gær, en það var stormur svo við gerðum bara innileikfimi, svona eins og ég hefði viljað í upphafi. Og, undarlegt en satt, ég fékk ekki nærri því eins mikið út úr því og þegar við hlaupum úti. Öðruvísi mér áður brá.
Farin að fá mér hafragraut. Hef ekki einu sinni tíma í blogghringinn minn í dag (né í gær, vá).
Ég verð náttúrulega að mæla með frönsku kvikmyndahátíðinni:
Þessa heimildamynd eftir Barbet Schroeder, Lögfræðingur hryðjuverkanna, sá ég í bíó í haust og var himinlifandi. Ég mæli með henni fyrir alla þá sem stefna að byltingu á einn eða annan hátt, alla þá sem hafa snefilsáhuga á réttlæti og réttarkerfi í nútímaþjóðfélögum og svo eiginlega bara fyrir alla hina líka. Í alvöru, mér leiddist ekki í sekúndubrot og held örugglega að það hafi ekki verið að þakka vitneskju minni um efnið, sem er í algeru lágmarki enda mest fjallað um atburði sem áttu sér stað áður en ég kom til Frakklands, já, alveg satt, það gerðist ýmislegt hérna fyrir 1989!
Ég neyðist svo til að játa að ég hef ekki séð eina einustu af hinum myndanna, við förum allt of sjaldan í bíó og þessar eru flestar of nýlegar til að hafa verið sýndar í sjónvarpi. Sem er náttúrulega skemmtilegur kostur. Hins vegar sakna ég t.d. helvíti góðrar glæpómyndar sem ég sá í haust, af listanum. Kom mjög skemmtilega á óvart, Ne le dis à personne eða Segðu engum frá. Alveg svona líka ágætis plott og fínasta afþreying, eins og þarf einmitt á svona hátíðir.
Ég hefði alveg verið til í að sjá Molière, Fabrice Lucchini er í henni og það er yfirleitt nóg fyrir mig, og dauðskammast mín fyrir að hafa ekki drifið mig á Persepolis, man ekki hvort ég hef einhverja afsökun, og skammast mín svolítið fyrir að hafa ekki einu sinni vitað af Kusturica, Promets-moi, hann hefði ég nú alveg viljað sjá, langt síðan ég sá verk eftir hann í bíó, svei mér ef Arizona Dream var ekki það síðasta sem ég sá eftir hann á alvöru tjaldi.
Hinar myndirnar sem eru í boði... ég myndi örugglega skella mér í bíó ef ég væri þyrst og illa haldin alein í myrkri og snjó á Íslandi, en frekar velja að fara og hitta vini á kaffihúsi ef ég væri í París.
Annars barst mér póstsending í morgun sem mér líst stórvel á. Lítil og handhæg bók, fín í metró. Ég fíla svoleiðis bækur. Eitthvað annað en doðrantarnir sem ég þarf að lesa fyrir skólann, ekki séns að fara með þá í bæjarferðir, en ferlega er þetta nú samt eiguleg ritröð, Íslensk tunga. En litla handhæga bókin lofar mér leik með íslenska tungu og eitthvað hef ég haft veður af almennum hortugheitum og siðblindu, sem eru skemmtileg systkin.
Flóamarkaðir - fyrir siggu því hún er kvikmyndagúrú
Hér er vefsíða stærsta markaðarins: Les Puces de Paris Saint Ouen. Hann inniheldur marga smærri markaði sem bera sín nöfn, Vernaison, Paul Bert, Dauphine... Þegar komið er upp úr metró á Porte de Clignancourt (lína 4) þarf fyrst að ganga í gegnum markaðstjaldasvæði þar sem aðallega eru nýjar vörur. Þar er hægt að finna ódýrt hippadót, afrískar styttur og minjagripi á góðu verði. Hins vegar ekki spennandi fyrir þau sem eru að koma til að skoða alvöru antík. Til að finna það þarf að fara undir hraðbrautina (hringveginn Périphérique sem er upphækkaður þarna) og inn í pínulitlu göturnar og húsasundin þar fyrir aftan.
Meðfram hraðbrautinni er slatti af fötum, bæði nýjum og notuðum.
Uppáhaldið mitt í antíkhlutanum er Vernaison, sem er reyndar elsti hlutinn. Þar er m.a. hinn stórskemmtilegi veitingastaður Chez Louisette, sem er algerlega þess virði að skreppa á í vínglas eða alvöru matmálstíma í hádeginu. Brjálað að gera kl. 1, mæta aðeins fyrr eða þá síðar um daginn. Fullt heimilisfang er á vefsíðunni minni um París. Þar kennir einnig margra grasa, dúkkur og dúkkuföt, ýmis leikföng, varahlutir í ljósakrónur (kristalsperlur, kúplar o.fl.) og allt upp í arinhillur sem smíðaðar eru fyrir 5 m lofthæð í kastala, ásamt himnasængum í sömu stærðarhlutföllum og gífurlega stórum borðstofuborðum. Fær konu í 70 m2 til að láta sig dreyma...
Paul Bert er einnig mjög skemmtilegur og í Dauphine, sem er í stórri bjartri skemmu, er mjög mikið af stíflökkuðum húsgögnum frá miðri 20. öldinni, stundum eins og að ganga inn í James Bond bíómynd. Þess virði að skoða þar líka.
Þessi markaður er eiginlega fáránlega dýr, ég kaupi afar sjaldan húsgögn þarna, en dett stundum niður á smáhluti og ekki má gleyma því að þarna má prútta af hörku. Verðið sem sett er upp í byrjun er stundum helmingi hærra en það sem manni tekst að kría út. Prúttlistin er þó Íslendingum síður en svo í blóð borin, við fæðumst og lifum í þjóðfélagi þar sem uppsett verð er lokaverð og yfirleitt frekar hátt í þokkabót. Að reyna að keppa við stóra svertingjakerlingu sem fæddist meðan mamma hennar prúttaði við ljósmóðurina um verðið á lakinu er ekki alltaf auðvelt. En það getur verið ansi gaman og gott að nýta sér tungumálakunnáttuleysið og almennt áhugaleysi, vera "bara túristi".
Aðrir markaðir í jaðri Parísar eru: Porte de Montreuil. Mun minni, bara í tjöldum, oft hægt að gera betri kaup en uppi á Saint Ouen. Porte de Vanves. Langminnstur, mikið happaglappa, en stemningin auðvitað mun meira kósí.
Svo eru antíksalar um alla borg, ekki vera feimin að kíkja inn þegar þið gangið framhjá slíkum búllum, þær eru oft úttroðnar og sölumennskan ekki í fyrirrúmi, en oft er hægt að rekast á spennandi hluti að kaupa eða bara dáðst að.
Stundum verður mikið úr engu, eins og sannast hér í svarhala við færslunni EKKERT frá föstudeginum. Þegar ég skrifaði þetta var ég í alvöru talað ferlega pirruð og langaði að blaðra eitthvað en ekkert kom og það pirraði mig ennþá meir og mér fannst allt vera í volli og lífið tóm þvæla o.s.frv. Svarhalinn fylltist af kveðskap, m.a.s. tókst mér sjálfri að klambra einhverju bulli saman þarna. Það var sérdeilis skemmtilegt. Við þetta klastur uppgötvaði ég almennilega Rímorðaleitarvél Elíasar og hún er nú komin hér í tengil til hliðar undir LIST að sjálfsögðu.
En það var ekki eingöngu verið að klastra á eigin síðum heldur bjó ég til litla vísu handa Gísla Málbeini fyrst ég var komin í stuð. Og út frá því er nú verið að keppast við að búa til júllukvæði handa mér. Það þykir mér óendanlega gaman og mæli með að fleiri fari og oti sínum tota þarna hjá Málbeini.
Annars er sunnudagur og ber hann nafn með rentu, 10 stiga hiti og sól. Ekki hægt að kvarta. Þrátt fyrir þetta dýrindis veður vorum við lengi ein úti í garði í morgun.
Ég er í rusli yfir því að hafa ekki fengið 29. desember moggann fyrr en í gær. Þar var (og er enn í mínu blaði) greinin 14 skref til fegurðar eða, eins og það var yrt á forsíðu: Léttstíg skref til klassískrar áramótafegurðar fyrir konur á öllum aldri. Ég komst við. Hver þarf ljóð þegar svona er prentað á Moggann?
Sem betur fer stendur kvennakvöldið fyrir dyrum, ég get þá notað þessar leiðbeiningar, vonandi. Verst að það virðist heilmikill stofnkostnaður í þessum skrefum, kökufarði, hyljari, fínmalað púður, vatnsheldur kremaugnskuggi... ég á ekkert af þessu.
Svo er ég líka í rusli, en töluvert minna rusli þó, yfir því að geta ekki horft á Útsvar frá því í gær. Mér finnst nefninlega svolítið gaman að horfa á svona spurningaþætti og ákvað að horfa í morgun þar sem Gurrí var nú í þættinum í gær og svona. En, þátturinn hleðst ekki inn hjá mér. Fréttirnar, Kastljós og Fréttir á táknmáli opnast eðlilega en ekki Útsvar.
Mig vantar smá aðstoð, mig langar að kaupa gítar handa stelpunni minni í afmælisgjöf en er alveg græn þegar kemur að þessum málum. Er eitthvað varið í þennan?
Ég hef leyft þeim að vera í tónlistarskólanum hérna í einhvers konar hóptímum, en mér skilst að hún megi byrja í einkatímum á næsta ári. Mig langar að kaupa eitthvað betra en leikfang, en það má því miður ekki kosta mjög mikið.
Mér þykir mjög leitt að brjóta upp stemninguna sem myndaðist við síðustu færslu, en svona er þetta, öll góð partý þurfa að taka enda. Að sjálfsögðu má bæta kveðskap við þar og halda áfram hér ef andinn er yfir ykkur. Minn er farinn og praktísk veraldleg mál búin að taka völdin.
Ég vona að ég hafi orðið fyrir vonbrigðum ársins. Ætla a.m.k. ekki að reyna að lýsa þeim sem ég varð fyrir þegar ég áttaði mig á því að auðvitað er ég búin að lesa Sumarljósin. Ég lánaði bókina og hef ekki fengið til baka. Og fannst því að ég ætti hana ekki, var nefninlega búin að taka góða syrpu í Jóni Kalman eftir að ég rakst á Sumarið bak við sveitina í gula húsinu sem ég fékk einu sinni lánað á Bergstaðastræti. Þegar ég sá að hann hafði fengið verðlaunin 2005 en ekki 2006 læddist að mér illur grunur. Ég reif hana þó úr plastinu og áttaði mig á fyrstu síðu. Þessi bók er slíkur konfektmoli að ég gæti lesið hana aftur ef ég myndi ekki aðeins of vel eftir endinum og teldi mig ekki alveg tilbúna í hann á ný.
Þannig að ég sit uppi með Samúel. Hvílík endemis vitleysa.
En ég er búin að fá vilyrði fyrir því að fá Óreiðu á striga lánaða brátt.
Og svo er náttúrulega ekki stutt í að skólinn hefjist, líklega tími á morgun.
Ég er líka svona "svikari", ófaglærð að segja fólki sögur í París. Ég fel mig oft á bakvið pönkið, segist vera pönkari með "just do it" attitude. Og kann ekki einu sinni að skammast mín. Jú, tók reyndar orðið leiðsögn út af síðunni minni eftir beiðni frá Íslandi. Ég vil ekki troða góðu fólki um tær, það er óþarfi.
Persónulega lýst mér vel á þessa konu og get ekki betur séð en að hún hafi heilmikla reynslu í ferðabransanum þó prófin hennar séu úr annarri (og alls ekki ótengdri) deild en ekki úr þessum nýlegu ferðamálafræðum. Orðrétt segir: "Hún hefur reynslu á sviði ferðaþjónustu úr landvörslu og fararstjórn, og var einnig forstöðumaður Kviku, fræðagarðs við Mývatn".
Og þetta, mínir kæru vinir, er dæmi um það hvernig hægt er að hafa skoðun á máli sem maður veit nánast ekkert um.
Ekki skóli þessa viku, frekar svekkjandi. Ekki það að ég finni mér ekkert að gera í staðinn, alltaf af nógu að taka en ég hlakkaði svo til og persónulega hefði ég frekar viljað vera búin fyrr. Vorið stefnir í að verða skrautlegt og spennandi púsluspil.
Búin að fá hina einkunnina. Mikill léttir þó ekki byggist ég við að hafa fallið. Meðaleinkunn haustannar: 8,5.
Annars er ég upptekin við undarlegan prófarkarlestur. Ég er að lesa yfir doktorsritgerð á frönsku. Sumir myndu segja að ég væri varla hæf í starfið og ég yrði fyrst til að viðurkenna það. Þessi tiltekni yfirlestur er samt í rauninni þannig að ég (og fleiri yfirlesarar sem skipta þessu með mér) kem ritgerðinni upp á aðeins hærra plan áður en síðasta yfirferð verður gerð af vel skrifandi Frakka. Þetta verkefni er samt heljarinnar heilabrot og fátt annað sem kemst að í kolli mínum. Því get ég ekki ráðist í miklar samræður um frelsi, frjálshyggju, ábyrgð og tillitssemi. Vil bara að nokkur atriði séu á hreinu, svona til öryggis:
Þegar ég skrifa um ljóshærðu blondínuna og singstar má ekki misskilja mig þannig að mér finnist eitthvað að því að hún haldi partý. Þvert á móti finnst mér ágætt að hrista upp í þessari rólegheitablokk svona við og við og partýin hafa aldrei staðið ískyggilega langt fram eftir nóttu. Og að ég skuli kalla hana blondínuna endurspeglar á engan hátt einhverja fyrirlitningu gagnvart henni. Mér finnst hún einmitt bara nokkuð skemmtileg týpa, hún er brosmild og hugsar greinilega vel um strákana sína og blessað hundskvikindið og ég á eftir að sakna hennar, hún er búin að setja íbúðina á sölu.
Frelsi mannsins felst kannski að einhverju leyti líka í því að geta lifað lífi sínu í blokk án þess að þurfa endalaust að óttast viðbrögð nágrannanna. Þannig á að vera í lagi að halda stundum partý og það er líka allt í lagi að ég fari með börnin mín út á bílastæði fyrir aftan hús og leyfi þeim að hjóla, en ég hef einmitt fengið athugasemdir fyrir að ekki er "ætlast til" að bílastæðin séu leikvöllur. Hávaði barna fer mikið í taugarnar á mörgum og í raun er bannað að leika sér hérna fyrir utan. Þeir sem vilja gera athugasemdir við það hafa því miður húsreglurnar á bak við sig og geta rekið okkur í burtu. Það hefur ekki komið til þess þar sem við vörum okkur á að misbjóða fólkinu ekki um of. Við nýtum bílaplanið og grasflatirnar hér sem sagt í hófi. Sama gildir um partýhald.
Persónulega finnst mér það óþolandi að landslögin skuli vera þannig skrifuð að fólk geti bannað börnum að leika sér fyrir utan heimili sín, t.d. var vinkona mín að skoða íbúð í lítilli fjögurra íbúða sameign. Þar er stórt húsasund hvar trónaði skilti sem bannaði algerlega börn að leik þar! Ég skelf enn af reiði út í helvítis karlfíflið sem tókst að banna börnum húsvarðar okkar að leika sér í stórum húsagarði sem ég bjó einu sinni við inni í París. Það voru ekki mikil læti í þeim, húsvörðurinn var kurteis og ljúf kona og börnin hennar líka. En þau máttu ekki leika sér úti eftir að þessi nágranni kom í húsið, sveiflandi helvítis reglunum.
Frelsi er vandmeðfarið og brothætt. Það er nauðsynlegt að hlúa að því og skylda okkar allra að standa vörð um það OG kannski stundum að krefjast meira frelsis. Einnig þurfum við að vita hvenær rétt er að bakka, hvenær er siðferðislega réttara að afþakka frelsið samfélaginu til góða. Flókið? Hver segir að lífið sé einfalt? Og hver segir að það væri betra ef það væri einfalt?
Ekki ég. Og ekki, í guðslifandibænum, ekki taka mig fyrir einhvern últralíberalista. Það er ég alls ekki. Mig langar ekki að búa í Villta Vestrinu en mér finnst spennandi tilhugsun að einn góðan veðurdag verði mannskepnan svo þroskuð að ekki þurfi neinar reglur, engin lög, að allt verði í ljúfri löð án þarfar á refsilöggjöf. Væri ekki gaman að lifa þá?
Aumingja jólatréð stendur hér nakið og umkomulaust í stofunni. Ég hef ekki hugmynd um það hvort Copavogure hefur einhverjar lausnir varðandi þessa líklosun jólanna, þarf að athuga þetta á morgun. Mér finnst bara ekkert gaman að taka jólin niður og ætla að leyfa jólaljósunum að hanga eitthvað áfram uppi og aðventukransinum að loga hér á kvöldin.
Annars hvet ég ykkur til að lesa ræðu Miriam Rose um grunngildin. Til dæmis hjá Sigga Pönk í íslenskri þýðingu Eiríks Arnar Norðdahl. Reyndar er síðan hans Sigga hrikaleg fyrir langa lesningu, dökkur bakgrunnur og hvítt letur. En lesið þetta, alveg frábær hugvekja. Mín bara táraðist.
Tvær tilvitnanir:
"Í þessu sambandi vil ég lesa úr ritgerð eftir rithöfundinn og Booker-verðlaunahafann Arundhati Roy:
Eina leiðin til þess að raungera lýðræðið er að hefja ferli stöðugrar spurnar, viðvarandi ögrunar, og látlausrar opinberrar umræðu milli borgaranna og ríkisins. Slíkt samtal er gríðarlega ólíkt þeirri samræðu sem á sér stað á milli stjórnmálaflokka. (Fjölmiðlar telja að það að kynna skoðanir ólíkra stjórnmálaflokka sé ?réttlát? umfjöllun).
Það er mikilvægt að muna að frelsi okkar, líkt og það er, var okkur ekki fengið af neinni ríkisstjórn, heldur náðum við því frá þeim með erfiðismunum. Ef við notum það ekki, ef við reynum það ekki af og til, visnar það upp. Ef við stöndum ekki vörð um það statt og stöðugt, verðum við svipt því. Ef við krefjumst ekki sífellt meira, stöndum við uppi með sífellt minna. (Roy, 2005)"
"Það þarf bara eina áhyggjurödd til þess að svipta grímunni af valdinu, sem leiðir til þess að kerfinu er hafnað og persónuleg gildi eru endurreist. Það er engin furða að ríkisstjórnir geri sitt allra besta til þess að kæfa mótmæli við umdeildar áætlanir sínar."
En ég hvet ykkur, bið ykkur að lesa alla greinina.
Það hefur ekki margt vatn runnið til sjávar síðan ungi maðurinn gekk bakdyramegin inn í bankaútibúið í Völvufelli og aftur út með einhverja summu án þess að starfsfólkið hefði græna glóru um einhvers konar viðbrögð. Er ég nokkuð undarleg að finnast þessi frétt fyndin?
Aðalhlátursrokan kom við lestur þessarar setningar: "Sparisjóðurinn komst á snoðir um athæfið og hafði samband við lögreglu" Starfsfólkið hlýtur að eiga skilinn bónus fyrir árvekni og hugrekki.
Verst að þetta var ekki EÖE að safna fyrir Oxfam, en lífið getur ekki verið eintómur Hrói Höttur.
Mér finnst áhugavert að enginn gerði athugasemd við að þegar ég sagðist ætla að fá mér sígó gaf ég í skyn að það væri v.þ.a. börnin væru ekki heima, eða í lagi v.þ.a. börnin væru ekki heima. Ég fæ mér alveg sígó þó þau séu hérna, þetta var skrifað til að tékka á viðbrögðunum. Sem urðu engin. Sem þýðir einhvers konar samþykki, eða hvað? Ég reyki vitanlega ekki framan í þau, reyni að forðast að reykja framan í nokkurn óreykjandi mann.
Ég er búin að vera svo dugleg í dag, að ég ætla að fá mér hvítvín aftur. Og sígó (börnin ekki heima).
Mig langar svo mikið að vera á Íslandi í kvöld að mig verkjar um allan líkamann. Ef ég væri á Íslandi, væri ég nefninlega á leið í eightís singstar partý. Þegar ég skrifa þetta sé ég að kannski er bara gott að ég verð ekki þar, hljóðhimnur myndu springa, maður minn. En það eru svo sem ekki græjurnar sem valda verkjum, eiginlega finnst mér það sem ég þekki af singstar (blondínan hér í blokkinni er mjög dugleg við að halda singstar partý) mjög hallærislegt. Það er miklu frekar félagsskapurinn, allar þessar frænkur, öll þessi dýrmæti sem valda því að ég þjáist af löngun til að vera með. OOOOOOHHH, af hverju á ég ekki einkaflugvél?
Og hvar í andskotanum er Mugison, ég er í alvöru farin að halda að þetta ræfilslega (en nota bene mjög smarta) hulstur, hafi verið tekið fyrir rusl. Sem minnir mig á að ég á alveg eftir að lesa grein um sorphirðunýjungar hér í Copavogure. Þegar ég sá greinina var það fyrsta sem ég hugsaði: Farin að blogga! (já ég er búin að horfa og mér fannst bara fínt, svona flest). En ég var þá á leið upp stigana með tvö örþreytt börn og mat í pokum svo ekkert varð úr nánari lestri né útlistunum á því hér. En þannig er mál með vexti að hér á að fara að taka upp einhvers konar sogæðakerfi neðanjarðar og verður allt rusl sogað upp í þjöppunarstöð þar sem bílar sækja svo mun umfangsminna rusl en þeir gera hér í hverri götu nokkrum sinnum í viku í núverandi sorphirðumynd. Hljómar þetta vel? Vilhjálmur? Ha, æ, nei, ég meina Dagur? Viltu fá mig á fund í fyrramálið? Ég get mætt frá og með í kvöld, ef þú borgar.
5 pokar á stærð við IKEA-bréfpokana, 1 svartur ruslapoki. Allir troðfullir.
Og þetta eru bara barnafötin sem ég þarf að koma úr húsi.
Fullorðinsfötin eru þrír góðir pokar.
Samt geymi ég ýmislegt, sumt sem er frá því að við foreldrarnir vorum lítil, allt sem var handgert handa börnunum og sumt sem var bara einfaldlega of fallegt til að láta það.
Stór hrúga fór svo bara í ruslið, hvað var ég að hamast við að geyma blettótt föt?
Stór hrúga fer svo til fyrri eiganda, býst nú ekki við að hún vilji þetta, en þori ekki að láta án samþykkis.
Ég er með ónýtt skápapláss, fara út að kaupa eitthvað í það? Ó, nei, líklega fær maðurinn minn það undir bækur, það virðist allt aukapláss fara í slíkt núorðið, enda er hann orðinn stöndugur bissnesskall á netinu, vann sér m.a.s. inn slatta af pening í síðasta mánuði með bóksölunni þó líklega sé upphæðin klink í hugum stöndugra íslenskra bissnesskalla.
Og nú fer ég í prófarkarlestur. Og svo geri ég auglýsingapóst. Og svo... það er alltaf nóg að gera, þó maður sé verkefnalaus frílansari.
Mér finnst rétt að það komi fram að það sem af er nýju ári hef ég tvisvar sinnum stigið í hundaskít. Skyldi hafa komið áramótabögg í innbyggða radarinn minn?
það fylgja blendnar tilfinningar því að fara í gegnum barnafatahrúguna sem safnast hefur upp ofan á fataskápinn minn síðastliðin sex ár. Minningar um þau í þessum pínulitlu flíkum, ógeð á því hvað þetta er mikið, erfiðleikar við að ákveða hvað á að geyma. Ég er búin að borða heilan pakka af toblerone (frekar litlu stykki, ekki það minnsta en ekki svona risastórt, þið vitið) og drekka slatta af sykurlausu kóki. Nú langar mig í vín, en ég ætla að vera dugleg alveg þangað til að börnin koma heim aftur (og já, ég drekk vín fyrir framan börnin mín, skjóttu mig bara ef þú vilt). Hrúgan sem á að fara í gjöf til þeirra sem minna mega sín er MUN stærri en hrúgan sem ég ætla að geyma. Það er afrek hjá safnaranum.
Á meðan hef ég verið að hlusta á útvarpið en það gengur eitthvað brösuglega, einhvers konar Groundhog Day syndróm í gangi.
Í gærkvöldi, hvar ég lá í rúminu milli svefns og vöku, kom einhver mynd í huga mér, eitthvað sem mér fannst stórkostlegt, einhver samlíking eða metafóra, eitthvað var það. Ég man að ég hugsaði um það hvort ég ætti að hlaupa upp og skella þessu inn á bloggið strax en ákvað svo að þetta væri svo stórkostlegt að ég myndi ekki gleyma þessu. Hvað skyldi þetta nú hafa verið?
Og þetta er svo hin myndin sem ég reyndi að setja beint inn í gegnum blogger en kom ekki. Þetta er nýtt svæði í Villette-garðinum, sem mér finnst ansi flott, takið eftir grindinni í kringum tréð, sem Kári stendur á.
Ég hlakka ósegjanlega mikið til að skóli barnanna byrji aftur.
Ég hlakka ósegjanlega mikið til að byrja sjálf í skólanum aftur.
Þó ég sé freelance-gella hef ég verið í fríi öll jólin. Það var ágætt, maðurinn minn var ekki í fríi og hefði verið erfitt að fá pössun. HIns vegar er ég komin með meira en nóg af því akkúrat núna. Því miður fæ ég engin laun fyrir að byrja aftur í skólanum, en það er nú einu sinni svo að þegar eitt verkefni hefst, kallar það á ný verkefni. Ég hef engar skýringar á þessu, kannski sama lögmálið og að peningar kalla á meiri peninga.
Léon Bloy (Danemark, 1899) :“Nous lisons Marie d’Agreda. Impressions sublimes. Autour de nous l’ignoble allégresse des protestants qui célèbrent par des pétards et des hurlements cette fin d’année et ce commencement d’une autre année, échéances, d’ailleurs absolument insignifiantes pour ces animaux qui ne peuvent avoir en vue que de manger, de boire, et de saillir leurs trop fécondes femelles”.
Ég veit ekki hvort ég á að reyna við þýðingu svona fyrir hádegi á nýársdag. Jú jú, ég er sjálf alltaf svo svekkt þegar Sverrir eða aðrir setja tilvitnanir á þýsku svo hér kemur hrá þýðing beint úr kaffibollanum:
Léon Bloy, Danmörku 1899: "Við erum að lesa Marie d'Agreda. Dásamleg upplifun. Allt í kringum okkur hinn viðbjóðslegi léttleiki mótmælendanna sem fagna með flugeldum og öskrum þessum árslokum og upphafi nýs árs, skuldadagar, reyndar gersamlega merkingarlausir fyrir þessi dýr sem hugsa ekki um annað en að borða, drekka og sá í ofurfrjóan jarðveg kvendýra sinna".
Mér sýnist annars á öllu að ég eigi að horfa á skaupið. Ef það er þá hægt, höfundarréttur og bla bla bla. Tékka á því.
Annars rifjuðust önnur óþolandi áramót upp fyrir mér í morgun, en það var hér í París fyrir mörgum árum og mér var boðið í mat og við vorum öll fátækir námsmenn og vinir sem líka var boðið komu með dónalegar og leiðinlegar boðflennur með sér og við neyddumst til að deila of litlum mat með þessum svínum og ég fékk mígrenikast. Í gærkvöld var ekkert slíkt á ferð, bara góð gleðistemning, börnin alsæl með stjörnuljósin (fyrir utan Kára sem sofnaði standandi klukkan tíu) en samt fékk ég mígrenikast. Ég stóðst freistinguna að opna flösku meðan ég klæddi mig upp. Ég var frekar dugleg við að drekka vatn milli vínglasa. Ég var bara að drekka eðalvín. Samt byrjaði höfuðverkurinn að gerjast upp úr miðnætti og klukkan tvö sofnaði ég meðan maðurinn minn rústaði hinum í Trivial Pursuit og klukkan fjögur hljóp ég heim með æluna í hálsinum og rétt tókst að koma lyfjunum niður og sofna án þess að byrja að kasta upp. Og ég er fín í dag. Svolítið stíf af lyfjunum en allt í lagi með mig annars. Ég er alvarlega að spá í hvort ég eigi að láta rannsaka höfuð mitt á flotta höfuðspítalanum sem er til í París. Þeir vilja fá tilfelli til rannsóknar, hafa áhuga á kellingum eins og mér, en ég hef aldrei nennt að láta lækna skoða þetta mígrenidæmi mitt og aldrei fundið alvöru lausnir til að halda því frá nema þá óléttu og brjóstagjöf en meðan á þeim pakka stóð fékk ég aldrei kast. En ég ætlaði nú ekki að rausa um þetta hér núna, langaði bara að deila Monsieur Bloy með ykkur. Hann var alvöru kaþólikki og hafði ekki miklar mætur á mótmælendatrúuðum og saurlifnaði þeirra.