18.1.08

vesalings börnin

Í morgun fór ég með börnin í skólann eins og vanalega. Þau eru fimm sem ég þarf að koma þangað, stundum mikið fjör. Í morgun var sérlega mikið fjör því Basil var hálflasinn og illa sofinn og ákvað að detta í stiganum og vekja alla bygginguna, kannski hverfið, með öskrum sínum. Hann var óhuggandi þar til ég lét hann bara liggja og bannaði öllum að koma nálægt honum eða tala við hann. Þá tók hann sér tak, reis á fætur og bað um snudduna. Henni var stungið upp í hann og allir komust út í bíl. Að festa fimm börn og einn bílstjóra í fimm manna bíl er ekki mikið grín. Ég er vitanlega kolólögleg og gæti fengið sekt eða lögsókn fyrir morðtilraun eða eitthvað annað skemmtilegt. En leiðin er ekki löng og afskaplega fáfarin og að megninu til á 30 km vegum svo ég læt mig hafa það, þetta er mun öruggara en að ganga með allt stóðið sömu leið, þurfa að fara yfir nokkrar götur og vera stöðugt að passa að allir haldi sig á gangstéttunum þess á milli.
Í skólanum kom svo í ljós að tveir kennarar eru veikir, báðir kennarar minna barna. Þar sem þau vita að ég vinn óreglulega og er svo BARA námsmaður, var horft á mig hundsaugum því vitanlega var enginn forfallakennari, mér skilst að hálf sveitin liggi í pest. Ég samþykkti að vera með þau í dag, þó ég EIGI RÉTT á því að skilja börnin eftir og þau geta bara reddað þessu. Sem ég hefði vitanlega gert ef ég hefði t.d. átt stefnumót við hóp. Maður þarf að kunna að nýta réttinn sinn rétt.
Ég flýtti mér heim, henti börnunum inn til pabbans og rauk beint yfir til nágrannanna og náði að hlusta á tímann frá miðvikudeginum áður en ég kom heim og tók yfir vaktina.
Svo nú er ég heima með börnin mín sem keppast við að klaga hvort annað (nema rétt í þessu var verið að glenna framan í mig nasir til að sýna mér að nú sé ekkert hor, en það hafi verið svona stórt hor sem hafi farið í ruslatunnuna). Ég þarf að skila verkefni sem mér gengur ekkert allt of vel með. Ég þarf að gera lista yfir tilboð frá veitingahúsum. Ég þarf að koma út auglýsingapósti sem ég hef hummað fram af mér alla vikuna. Ég þarf að ganga frá stórri hótelpöntun. Þetta mun ég reyna að komast yfir milli kvartana, skeininga og matmálstíma.

EN strax eftir matinn verður haldið í tölvubúðina með OFFICE pakkann. Á leiðinni verður útskýrt vandlega fyrir börnunum hvernig þau eiga að standa hokin, eymdarleg og óhamingjusöm við hliðina á móður sinni meðan hún barmar sér við afgreiðslumanninn. Það gæti hjálpað. Hver veit?

Lifið í friði.