14.1.08

Flóamarkaðir - fyrir siggu því hún er kvikmyndagúrú

Hér er vefsíða stærsta markaðarins: Les Puces de Paris Saint Ouen.
Hann inniheldur marga smærri markaði sem bera sín nöfn, Vernaison, Paul Bert, Dauphine... Þegar komið er upp úr metró á Porte de Clignancourt (lína 4) þarf fyrst að ganga í gegnum markaðstjaldasvæði þar sem aðallega eru nýjar vörur. Þar er hægt að finna ódýrt hippadót, afrískar styttur og minjagripi á góðu verði. Hins vegar ekki spennandi fyrir þau sem eru að koma til að skoða alvöru antík. Til að finna það þarf að fara undir hraðbrautina (hringveginn Périphérique sem er upphækkaður þarna) og inn í pínulitlu göturnar og húsasundin þar fyrir aftan.

Meðfram hraðbrautinni er slatti af fötum, bæði nýjum og notuðum.

Uppáhaldið mitt í antíkhlutanum er Vernaison, sem er reyndar elsti hlutinn. Þar er m.a. hinn stórskemmtilegi veitingastaður Chez Louisette, sem er algerlega þess virði að skreppa á í vínglas eða alvöru matmálstíma í hádeginu. Brjálað að gera kl. 1, mæta aðeins fyrr eða þá síðar um daginn. Fullt heimilisfang er á vefsíðunni minni um París.
Þar kennir einnig margra grasa, dúkkur og dúkkuföt, ýmis leikföng, varahlutir í ljósakrónur (kristalsperlur, kúplar o.fl.) og allt upp í arinhillur sem smíðaðar eru fyrir 5 m lofthæð í kastala, ásamt himnasængum í sömu stærðarhlutföllum og gífurlega stórum borðstofuborðum. Fær konu í 70 m2 til að láta sig dreyma...

Paul Bert er einnig mjög skemmtilegur og í Dauphine, sem er í stórri bjartri skemmu, er mjög mikið af stíflökkuðum húsgögnum frá miðri 20. öldinni, stundum eins og að ganga inn í James Bond bíómynd. Þess virði að skoða þar líka.

Þessi markaður er eiginlega fáránlega dýr, ég kaupi afar sjaldan húsgögn þarna, en dett stundum niður á smáhluti og ekki má gleyma því að þarna má prútta af hörku. Verðið sem sett er upp í byrjun er stundum helmingi hærra en það sem manni tekst að kría út. Prúttlistin er þó Íslendingum síður en svo í blóð borin, við fæðumst og lifum í þjóðfélagi þar sem uppsett verð er lokaverð og yfirleitt frekar hátt í þokkabót. Að reyna að keppa við stóra svertingjakerlingu sem fæddist meðan mamma hennar prúttaði við ljósmóðurina um verðið á lakinu er ekki alltaf auðvelt. En það getur verið ansi gaman og gott að nýta sér tungumálakunnáttuleysið og almennt áhugaleysi, vera "bara túristi".


Aðrir markaðir í jaðri Parísar eru:
Porte de Montreuil. Mun minni, bara í tjöldum, oft hægt að gera betri kaup en uppi á Saint Ouen.
Porte de Vanves. Langminnstur, mikið happaglappa, en stemningin auðvitað mun meira kósí.

Svo eru antíksalar um alla borg, ekki vera feimin að kíkja inn þegar þið gangið framhjá slíkum búllum, þær eru oft úttroðnar og sölumennskan ekki í fyrirrúmi, en oft er hægt að rekast á spennandi hluti að kaupa eða bara dáðst að.

Vona að þetta gagnist Siggu, og kannski fleirum?

Lifið í friði.