25.1.08

martraðir

Undanfarnar nætur hafa martraðir mínar helst gengið út á taugalæknisófarir, en ég á að mæta hjá henni eftir þrjú korter. Og mér líður eins og verið sé að leiða mig til slátrunar. Hvaðan skyldi þessi ógurlega hræðsla við lækna koma? Hún er í fyrsta lagi undarleg í ljósi þess að móðir mín er hjúkrunarfræðingur og í gegnum hennar vinnustað kynntist ég nokkrum yndislegum læknum og í öðru lagi undarleg að þrátt fyrir þessa andúð mína á læknum, sjúkrahúsum og apótekum sóttist ég eitthvað í að starfa innan heilbrigðisgeirans, skúraði og var í býtibúri um tíma á Borgó og var gangastúlka (hét reyndar starfsmaður á launaseðli) á Kleppi í tvö sumur. Hefði áreiðanlega verið það áfram ef ég hefði ekki hætt að koma heim frá París á sumrin.

En í nótt bar svo við að martröðin snerist um kvennakvöldið. Ég fæ alltaf slíkar martraðir þegar það fer að nálgast. Í gær prófaði ég staðinn sem verður fyrir valinu og leiddi það af sér að í nótt gerðust alls konar skandalar og skipulagsmistök á afar mislukkuðu kvennakvöldi í París. Á einhverjum tímapunkti vorum við á Laugaveginum í bakhúsi, en það tengist samræðum við borðfélaga minn í gær.

Ég á víst að telja mig heppna að geta notað draumfarir til að tappa af áhyggjum, þetta er víst ægilega hollt og stresslosandi. Mér líður samt núna eins og ég hafi sofið í tíu mínútur. Vona að ég verði ekki lögð inn á taugadeildina í snarhasti.

Lifið í friði.