14.7.08

þjóðhátíðardagurinn

Góður dagur í dag. Gott veður, góð börn, gott skap. Ekki samt hátíðarskap, bara létt lund.

Engin hersýning en flugeldasýning í gærkvöld og líklega aftur í kvöld. Flott að vera með útsýni yfir nokkur bæjarfélög, svei mér ef mér fannst ég ekki bara stödd á Íslandi á gamlárskvöld um tíma í gær.
Bastilludagurinn, ekki þekki ég einn einasta Frakka sem heldur upp á hann á einhvern þjóðlegan hátt, fæstir vilja gangast við því að hafa farið og séð hersýninguna á Champs Elysées. Hins vegar nota margar fjölskyldur tækifærið og hittast. En við vorum samt ansi mörg bara að dúlla með börnunum úti í almenningsgarði. Kannski langflest okkar innflytjendur og nógu illa aðlöguð eða (nógu vel aðlöguð?) til að standa á sama um daginn.
Reyndar spáði ég alvarlega í að skella mér á hersýninguna með krakkana. Ég hef einu sinni farið og er alveg á því að það sé þess virði að sjá þennan hrylling einu sinni, hvílík tæki og vélar, skriðdrekar eru stærri í alvörunni en í bíó. Og marsérandi hermenn er líka sjón að sjá. Takturinn kona. Svipleysið maður.
En þau eru kannski enn aðeins of ung til að skilja stríð og möguleikann á friði. Þó þau séu nógu stór til að baka pizzur.

Mér skilst að krúttleg bloggynja eigi afmæli. Skyldi það vera stórafmæli með tilheyrandi krísum? Hún fær alla vega faðm og knús frá Copavogure, Frans.

Lifið í friði.