7.1.08

hin komin

Búin að fá hina einkunnina. Mikill léttir þó ekki byggist ég við að hafa fallið. Meðaleinkunn haustannar: 8,5.

Annars er ég upptekin við undarlegan prófarkarlestur. Ég er að lesa yfir doktorsritgerð á frönsku. Sumir myndu segja að ég væri varla hæf í starfið og ég yrði fyrst til að viðurkenna það. Þessi tiltekni yfirlestur er samt í rauninni þannig að ég (og fleiri yfirlesarar sem skipta þessu með mér) kem ritgerðinni upp á aðeins hærra plan áður en síðasta yfirferð verður gerð af vel skrifandi Frakka.
Þetta verkefni er samt heljarinnar heilabrot og fátt annað sem kemst að í kolli mínum. Því get ég ekki ráðist í miklar samræður um frelsi, frjálshyggju, ábyrgð og tillitssemi. Vil bara að nokkur atriði séu á hreinu, svona til öryggis:

Þegar ég skrifa um ljóshærðu blondínuna og singstar má ekki misskilja mig þannig að mér finnist eitthvað að því að hún haldi partý. Þvert á móti finnst mér ágætt að hrista upp í þessari rólegheitablokk svona við og við og partýin hafa aldrei staðið ískyggilega langt fram eftir nóttu.
Og að ég skuli kalla hana blondínuna endurspeglar á engan hátt einhverja fyrirlitningu gagnvart henni. Mér finnst hún einmitt bara nokkuð skemmtileg týpa, hún er brosmild og hugsar greinilega vel um strákana sína og blessað hundskvikindið og ég á eftir að sakna hennar, hún er búin að setja íbúðina á sölu.

Frelsi mannsins felst kannski að einhverju leyti líka í því að geta lifað lífi sínu í blokk án þess að þurfa endalaust að óttast viðbrögð nágrannanna. Þannig á að vera í lagi að halda stundum partý og það er líka allt í lagi að ég fari með börnin mín út á bílastæði fyrir aftan hús og leyfi þeim að hjóla, en ég hef einmitt fengið athugasemdir fyrir að ekki er "ætlast til" að bílastæðin séu leikvöllur.
Hávaði barna fer mikið í taugarnar á mörgum og í raun er bannað að leika sér hérna fyrir utan. Þeir sem vilja gera athugasemdir við það hafa því miður húsreglurnar á bak við sig og geta rekið okkur í burtu. Það hefur ekki komið til þess þar sem við vörum okkur á að misbjóða fólkinu ekki um of. Við nýtum bílaplanið og grasflatirnar hér sem sagt í hófi. Sama gildir um partýhald.

Persónulega finnst mér það óþolandi að landslögin skuli vera þannig skrifuð að fólk geti bannað börnum að leika sér fyrir utan heimili sín, t.d. var vinkona mín að skoða íbúð í lítilli fjögurra íbúða sameign. Þar er stórt húsasund hvar trónaði skilti sem bannaði algerlega börn að leik þar!
Ég skelf enn af reiði út í helvítis karlfíflið sem tókst að banna börnum húsvarðar okkar að leika sér í stórum húsagarði sem ég bjó einu sinni við inni í París. Það voru ekki mikil læti í þeim, húsvörðurinn var kurteis og ljúf kona og börnin hennar líka. En þau máttu ekki leika sér úti eftir að þessi nágranni kom í húsið, sveiflandi helvítis reglunum.

Frelsi er vandmeðfarið og brothætt. Það er nauðsynlegt að hlúa að því og skylda okkar allra að standa vörð um það OG kannski stundum að krefjast meira frelsis. Einnig þurfum við að vita hvenær rétt er að bakka, hvenær er siðferðislega réttara að afþakka frelsið samfélaginu til góða. Flókið? Hver segir að lífið sé einfalt? Og hver segir að það væri betra ef það væri einfalt?

Ekki ég. Og ekki, í guðslifandibænum, ekki taka mig fyrir einhvern últralíberalista. Það er ég alls ekki. Mig langar ekki að búa í Villta Vestrinu en mér finnst spennandi tilhugsun að einn góðan veðurdag verði mannskepnan svo þroskuð að ekki þurfi neinar reglur, engin lög, að allt verði í ljúfri löð án þarfar á refsilöggjöf. Væri ekki gaman að lifa þá?

Lifið í friði.