pizzubakstur
Ég er alltaf að rembast við að vera góð mamma. Ég held að við sem eignumst börnin okkar svona seint séum mun meira að rembast við það en þær sem voru svo sniðugar að drífa í þessu áður en þær urðu fullorðnar. Alla vega finnst mér við vinkonurnar einhvern veginn allar taka þessari rullu alveg ógurlega alvarlega og getum rætt út í það óendanlega um börnin okkar, svefnvenjur, leikvenjur og þroska þeirra.Kannski voru vinkonur mínar sem eru nú svo heppnar að vera komnar með stálpaða krakka líka svona, en ég var þá bara upptekin af því að vera námsmaður í París að ég missti af þeim í þessu ástandi. Eitthvað man ég eftir því að hafa gert stólpagrín að þeirri sem dreif í fyrsta barni tveimur árum áður en ég lauk stúdentsprófinu, vegna þess að erfrivörin á henni skalf alltaf þegar hún talaði um afkvæmið.
En ég er sem sagt núna tvisvar á skömmum tíma búin að prófa að baka pizzu með krökkunum. Hún var helmingi betri í dag en um daginn, en það er samt einhver herslumunur sem vantar upp á að botninn sé nógu góður. Því auglýsi ég hér með eftir fullkominni uppskrift að pizzubotni. Helst auðveldri, fljótlegri og barnvænni. Með fyrirfram þökkum.
Lifið í friði.
<< Home