1.1.08

tilvitnun við hæfi dýrin ykkar

Léon Bloy (Danemark, 1899) :“Nous lisons Marie d’Agreda. Impressions sublimes. Autour de nous l’ignoble allégresse des protestants qui célèbrent par des pétards et des hurlements cette fin d’année et ce commencement d’une autre année, échéances, d’ailleurs absolument insignifiantes pour ces animaux qui ne peuvent avoir en vue que de manger, de boire, et de saillir leurs trop fécondes femelles”.

Ég veit ekki hvort ég á að reyna við þýðingu svona fyrir hádegi á nýársdag. Jú jú, ég er sjálf alltaf svo svekkt þegar Sverrir eða aðrir setja tilvitnanir á þýsku svo hér kemur hrá þýðing beint úr kaffibollanum:

Léon Bloy, Danmörku 1899: "Við erum að lesa Marie d'Agreda. Dásamleg upplifun. Allt í kringum okkur hinn viðbjóðslegi léttleiki mótmælendanna sem fagna með flugeldum og öskrum þessum árslokum og upphafi nýs árs, skuldadagar, reyndar gersamlega merkingarlausir fyrir þessi dýr sem hugsa ekki um annað en að borða, drekka og sá í ofurfrjóan jarðveg kvendýra sinna".

Mér sýnist annars á öllu að ég eigi að horfa á skaupið. Ef það er þá hægt, höfundarréttur og bla bla bla. Tékka á því.

Annars rifjuðust önnur óþolandi áramót upp fyrir mér í morgun, en það var hér í París fyrir mörgum árum og mér var boðið í mat og við vorum öll fátækir námsmenn og vinir sem líka var boðið komu með dónalegar og leiðinlegar boðflennur með sér og við neyddumst til að deila of litlum mat með þessum svínum og ég fékk mígrenikast.
Í gærkvöld var ekkert slíkt á ferð, bara góð gleðistemning, börnin alsæl með stjörnuljósin (fyrir utan Kára sem sofnaði standandi klukkan tíu) en samt fékk ég mígrenikast.
Ég stóðst freistinguna að opna flösku meðan ég klæddi mig upp.
Ég var frekar dugleg við að drekka vatn milli vínglasa.
Ég var bara að drekka eðalvín.
Samt byrjaði höfuðverkurinn að gerjast upp úr miðnætti og klukkan tvö sofnaði ég meðan maðurinn minn rústaði hinum í Trivial Pursuit og klukkan fjögur hljóp ég heim með æluna í hálsinum og rétt tókst að koma lyfjunum niður og sofna án þess að byrja að kasta upp.
Og ég er fín í dag. Svolítið stíf af lyfjunum en allt í lagi með mig annars.
Ég er alvarlega að spá í hvort ég eigi að láta rannsaka höfuð mitt á flotta höfuðspítalanum sem er til í París. Þeir vilja fá tilfelli til rannsóknar, hafa áhuga á kellingum eins og mér, en ég hef aldrei nennt að láta lækna skoða þetta mígrenidæmi mitt og aldrei fundið alvöru lausnir til að halda því frá nema þá óléttu og brjóstagjöf en meðan á þeim pakka stóð fékk ég aldrei kast.
En ég ætlaði nú ekki að rausa um þetta hér núna, langaði bara að deila Monsieur Bloy með ykkur. Hann var alvöru kaþólikki og hafði ekki miklar mætur á mótmælendatrúuðum og saurlifnaði þeirra.

Lifið í friði.