frönsk kvikmyndahátíð og lítil bók
Ég verð náttúrulega að mæla með frönsku kvikmyndahátíðinni:Þessa heimildamynd eftir Barbet Schroeder, Lögfræðingur hryðjuverkanna, sá ég í bíó í haust og var himinlifandi. Ég mæli með henni fyrir alla þá sem stefna að byltingu á einn eða annan hátt, alla þá sem hafa snefilsáhuga á réttlæti og réttarkerfi í nútímaþjóðfélögum og svo eiginlega bara fyrir alla hina líka. Í alvöru, mér leiddist ekki í sekúndubrot og held örugglega að það hafi ekki verið að þakka vitneskju minni um efnið, sem er í algeru lágmarki enda mest fjallað um atburði sem áttu sér stað áður en ég kom til Frakklands, já, alveg satt, það gerðist ýmislegt hérna fyrir 1989!
Ég neyðist svo til að játa að ég hef ekki séð eina einustu af hinum myndanna, við förum allt of sjaldan í bíó og þessar eru flestar of nýlegar til að hafa verið sýndar í sjónvarpi. Sem er náttúrulega skemmtilegur kostur. Hins vegar sakna ég t.d. helvíti góðrar glæpómyndar sem ég sá í haust, af listanum. Kom mjög skemmtilega á óvart, Ne le dis à personne eða Segðu engum frá. Alveg svona líka ágætis plott og fínasta afþreying, eins og þarf einmitt á svona hátíðir.
Ég hefði alveg verið til í að sjá Molière, Fabrice Lucchini er í henni og það er yfirleitt nóg fyrir mig, og dauðskammast mín fyrir að hafa ekki drifið mig á Persepolis, man ekki hvort ég hef einhverja afsökun, og skammast mín svolítið fyrir að hafa ekki einu sinni vitað af Kusturica, Promets-moi, hann hefði ég nú alveg viljað sjá, langt síðan ég sá verk eftir hann í bíó, svei mér ef Arizona Dream var ekki það síðasta sem ég sá eftir hann á alvöru tjaldi.
Hinar myndirnar sem eru í boði... ég myndi örugglega skella mér í bíó ef ég væri þyrst og illa haldin alein í myrkri og snjó á Íslandi, en frekar velja að fara og hitta vini á kaffihúsi ef ég væri í París.
Annars barst mér póstsending í morgun sem mér líst stórvel á. Lítil og handhæg bók, fín í metró. Ég fíla svoleiðis bækur. Eitthvað annað en doðrantarnir sem ég þarf að lesa fyrir skólann, ekki séns að fara með þá í bæjarferðir, en ferlega er þetta nú samt eiguleg ritröð, Íslensk tunga. En litla handhæga bókin lofar mér leik með íslenska tungu og eitthvað hef ég haft veður af almennum hortugheitum og siðblindu, sem eru skemmtileg systkin.
Lifið í friði.
<< Home