18.1.08

eldhúsmellan sem hugsar ekki um annað...

Ég strengdi ekkert áramótaheit frekar en fyrri daginn en einhverra hluta vegna hef ég verið ótrúlega dugleg að búa til mat á þessu nýja ári. Hef fundið upp hjá mér að gera aftur alls konar rétti og sósur sem ég hafði ekki gert lengi, búin að skera niður töluvert magn af grænmeti, sjóða baunir og quinoa, grilla, steikja og baka og bara hef getað boðið fólki að gjöra svo vel með bros á vör og gleði í hjarta aftur og aftur. Kannski er þetta ein af ástæðunum fyrir að svo margt annað situr á hakanum eða er gert í flýti og hálfkáki? Kannski móðurinn renni af mér nú þegar ég fer að monta mig af honum?

Bætt við: Ég gleymdi alveg að segja ykkur framhaldið frá því áðan. Börnin voru fullkomin, veltu sér upp úr skítugu gólfinu og létu eins og fæðingarhálfvitar (hvað sem það nú þýðir). Maðurinn sagði mér að þetta væri mjög eðlilegt (sko pakkinn, ekki börnin) að ég þyrfti "bara" að hafa samband við Microsoft og láta þá endurvekja lykilinn minn. Yeah, right. Ég reyndi að grátbiðja hann um að sýna mér nákvæmlega í tölvu hvar sú þjónusta væri, en ekkert gat haggað þessum akfeita tölvunerði. Ekki einu sinni bavíanarnir börnin mín. Ég gekk klökk út úr búðinni og heim og flakkaði um undirheima Microsoft.com, lengi lengi. MJÖG krípí að þegar ég sló á einhvern ákveðinn tengil, einhvers konar assistance, kom alltaf ÍSLENSK síða Microsoft upp. Hvað á það að fyrirstilla, VEIT Microsoft að ég er íslensk, bara af minni glænýju IP tölu? Ég meina, ég var alltaf inni á microsoft france og var svo bara send sisona til Íslands?! Endaði náttúrulega bara með því að hringja í íslenska símanúmerið og fékk þessa líka fallegu karlmannsrödd sem sagði á mínu ylhýra að skrifstofan hefði lokað fyrir hálftíma, en þakkaði mér samt kærlega fyrir að hringja.

Á endanum fann ég eitthvað netfang og er búin að senda bréf með upplýsingum um mig, þig og ömmu þína líka.

Fylgist spennt með.

Lifið í friði.