24.1.08

allt svo gott

Mér er að batna, seyðið og fyrirmyndarhegðun (hvíld) greinilega að hafa áhrif.

Hér kemur "uppskriftin" að seyðinu, en eins og allar góðar uppskriftir er hún afar sveigjanleg eftir þörfum og skapi hvers og eins:

Ég afhýði þrjú hvítlauksrif og sker í tvennt, ríf niður ferskan eða frystan engifer, ca 1 cm, eiginlega bara þangað til ég er búin að fá nóg af því að rífa og skelli einni teskeið af þurrkuðum muldum cayenne-pipar saman við. Allt fer þetta í pott ásamt rúmum lítra af vatni og er svo soðið undir loki í tja, fimm til tíu mínútur.
Svo fæ ég mér strax í bolla (helli í gegnum síu) og kreisti græna eða gula sítrónu út í og jafnvel teskeið af hunangi með. Afgangurinn bara látinn standa í pottinum og skerpt undir þegar tími þykir kominn á drykk. Sítróna og hunang er ekki skylda, bara bragðbetra. Einnig má drekka þetta kalt.
Aðalhreinsunin og lækningin felst í þessum undraefnum náttúrunnar (taka smá Sollu á þetta!), cayennepipar er t.d. stútfullur af c-vítamíni, ef ég man rétt. Ég hef aldrei fengið almennilega úr því skorið hvort maður verður andfúll af þessu, eins og allir vita er hvítlaukslykt út úr fólki náttúrulegt ástand í Frakklandi.

Einnig gerði ég stóran pott af einhvers konar Dahl, linsubaunasúpu, úr kórallitum linsubaunum sem runnu út í júlí í fyrra. Reif gulrót, hvítlauk, lauk og rauða papriku í smátt og glæraði í olíu í potti með karrí, salti, cayennepipar og auka kúmíni og curcuma. Svo helli ég linsubaununum í pottinn (skola fyrst) og tvisvar sinnum meira af vatni og setti einn lífrænan grænmetistening út í. Þetta er svo bara látið sjóða nógu andskoti lengi til að baunirnar maukist, ca hálftími líklega, undir loki (til að spara orku).
Þetta var svo borðað sem máltíð fyrsta kvöldið, svo blandaði ég léttsteiktum kartöflum og brauðteningum við í hádegismat daginn eftir og í dag fór Arnaud með þetta í vinnuna blönduðu saman við hrísgrjón að auki. Börnin borða þetta með góðri lyst. Aukaverkanir: Dálítið vindasamt á heimilinu undanfarna daga.

Lifið í friði.