17.1.08

tæknin og ég

Tæknivandræði á tæknivandræði ofan. Mér sýnist sem svo að ég muni þurfa að

a) hlusta á fyrirlestrana í tölvu Cyril og Christelle
b) vinna verkefnin í tölvu mannsins míns

Fína nýja tölvan mín verður þá bara sett í plusskassa og tekin fram á kvöldin og um helgar svona til að lesa blogg og hlusta á útvarpið.

Þegar við keyptum tölvu mannsins míns keyptum við Office 2004 Mac pakka með. Á honum stendur skýrum stöfum að ég eigi að varðveita umbúðirnar því á þeim séu lyklarnir sem þarf í hvert af þeim þremur skiptum sem ég set kerfið upp. Reyndar er tekið fram að lyklarnir séu þrír en á pakkanum okkar er svo bara einn límmiði með einum lykli. Sem ég hefði kannski átt að taka eftir þegar ég setti pakkann upp í fyrsta skiptið.
Þannig að ég get ekki sett upp Office hjá mér og tilraunaáskriftin rennur út um helgina. Ég er búin að hringja til hægri og vinstri og eitthvað upp og niður líka, vera bljúg, vera örvæntingarfull, vera sexý og vera bálöskuill en ekkert hefur dugað. Mér er sagt að ég sé að ljúga. Það sé alltaf bara ein uppsetning í hverjum pakka. Ég á eftir að fara í búðina. Þar verður mér sagt að ég sé að ljúga og svo verður einhver helvítis útskýring á því að þetta sé villa á pakkanum.

Ég er búin að eyða hvílíkum tíma í mislukkaðar tilraunir bæði með Office og Windows Media Player og fá slík viðbrögð hjá Microsoft fólki í síma að ég er miður mín og mig langar mest að henda öllu sem tilheyrir því skítafyrirtæki út úr tölvunni minni og halda henni HREINNI. Mér er skítsama þó ég þurfi þá að segja mig úr samfélagi manna. Hvaða aulagangur er þetta að allir skuli bara gangast undir þetta kúgandi afl? M.a.s. HÍ?

Og nú er ég að gera þetta blessaða verkefni sem ég á að skila á morgun og mér líður eins og fábjána. Ég veit ekki neitt og kann ekki neitt.

Og næstu daga þarf ég svo líka að takast á við það á ný, alveg eins og ég eyddi örugglega heilum, ef ekki tveimur dögum í á síðustu önn, að koma hljóðritun inn í tölvuna mína. Ég fór eftir slóðum sem kennari gaf, gerði allt eins og átti að gera og er með þetta Doulos inni í Wordinu á tölvu mannsins míns. En ekki hljóðritunarletrið samt.

En er ég pirruð? Nehei, það er nefninlega svo drullugaman að vera til og ægilega mikið um að vera og veðrið svo fallegt (helber lygi, það er rigning og rok). Ég er glöð á góðum degi sem þessum. Já já sei sei, best að fá sér meiri rjóma.

Lifið í friði.