13.1.08

stundum

Stundum verður mikið úr engu, eins og sannast hér í svarhala við færslunni EKKERT frá föstudeginum. Þegar ég skrifaði þetta var ég í alvöru talað ferlega pirruð og langaði að blaðra eitthvað en ekkert kom og það pirraði mig ennþá meir og mér fannst allt vera í volli og lífið tóm þvæla o.s.frv.
Svarhalinn fylltist af kveðskap, m.a.s. tókst mér sjálfri að klambra einhverju bulli saman þarna. Það var sérdeilis skemmtilegt. Við þetta klastur uppgötvaði ég almennilega Rímorðaleitarvél Elíasar og hún er nú komin hér í tengil til hliðar undir LIST að sjálfsögðu.

En það var ekki eingöngu verið að klastra á eigin síðum heldur bjó ég til litla vísu handa Gísla Málbeini fyrst ég var komin í stuð. Og út frá því er nú verið að keppast við að búa til júllukvæði handa mér. Það þykir mér óendanlega gaman og mæli með að fleiri fari og oti sínum tota þarna hjá Málbeini.

Annars er sunnudagur og ber hann nafn með rentu, 10 stiga hiti og sól. Ekki hægt að kvarta. Þrátt fyrir þetta dýrindis veður vorum við lengi ein úti í garði í morgun.

Lifið í friði.