16.1.08

áramótaskaupið 2008

Ég held að RÚV ætti að fá þá félaga Eirík Örn Norðdahl og Ingólf Gíslason til að semja áramótaskaupið 2008. Það yrði kannski til þess að fólk risi úr sóffunum, rifi flatskjána úr innfelldum innstungum og hlypi með þá út á næstu brennu. Upp frá því vaknar þjóðin úr dvala og gerir sér grein fyrir því að hafa verið höfð að fífli (fíflum?) of lengi... eða þá að fólk myndi fussa og sveija og heimta endurgreiðslu.

Annars er ég búin að komast að því hvers vegna ég vissi ekki um Kusturica, hann verður frumsýndur núna í lok janúar hér í París. Svo þið eruð á undan okkur. Það hlýtur að gleðja.

Svo er bara yfrið nóg að gera. Kvennakvöldið framundan, stór hópur með spennandi dagskrá, skólinn byrjaður á fullu, börnin, kallinn, þvotturinn, vinirnir, gítarinn, skíðaferðin, allt að gerast.

Fór í leikfimina í gær, en það var stormur svo við gerðum bara innileikfimi, svona eins og ég hefði viljað í upphafi. Og, undarlegt en satt, ég fékk ekki nærri því eins mikið út úr því og þegar við hlaupum úti. Öðruvísi mér áður brá.

Farin að fá mér hafragraut. Hef ekki einu sinni tíma í blogghringinn minn í dag (né í gær, vá).

Lifið í friði.