15.7.08

af hinu franska "ekki hægt" og hinu íslenska "þetta reddast"

Jæja já, þá er græni bíllinn farinn. Ekta frönsk uppákoma:
Góðan daginn, er þetta bíllinn?
Já.
Og hann fer ekki í gang?
Nei, eini lykillinn sem gat komið honum í gang er týndur og tröllum gefinn.
Og ertu ekki með annan lykil?
Nei, ég var látin senda hann til matsmannsins og var tjáð að hann yrði sendur til ykkar.
Merde, ég held að þetta verði ekki hægt. Nei, þetta er ekki hægt.
[hakan nudduð í smá stund, ekki það að þessum ungling væri farið að vaxa grön, hann bara lærði þetta í dráttarbílaskólanum].

Svo byrjar hann á að koma dráttarbílnum á réttan stað, lætur pallinn síga niður, dregur út krók og festir í bílinn og dregur bílinn hægt og rólega upp á pallinn. Tók enga stund og gekk mjög vel.

Jæja, þetta gekk upp.
Já, svo sannarlega.
Ég hleypi þér þá út.
Já, bless frú. Njótið dagsins.
Takk, sömuleiðis.

Það er einmitt þetta í Frökkum sem getur gert þá dálítið þreytandi. Það er alltaf byrjað á að segja að þetta sé ekki hægt. Stundum er talað um það lengi lengi, stundum bara svona stutt og laggott og svo drifið í málunum eins og hér er lýst. En þetta getur stundum gert mig gráhærða af pirringi.
Má ég þá heldur biðja um "þetta reddast" à la islandaise. Þó það sé í raun öfgarnir í hina áttina og stundum þreytandi líka.

Lifið í friði.