23.1.08

sko!

Þar sem ég sat hér í sjálfsvorkunnarkasti yfir því að ég var að bíða eftir símtali frá Microsoft, handviss um að þeir myndu aldrei hringja í mig, hringdi síminn og á hinum enda línunnar var Microsoft sjálfur í líki ungs manns sem var bæði kurteis og þolinmóður. Og ég er komin með Office. Liggaliggalá.

Hins vegar hefur þjónustufulltrúinn í bankanum mínum ekki hringt, en á föstudagsmorgni fyrir einni og hálfri viku síðan sagði símaþjónustufulltrúinn að þjónustufulltrúinn myndi hringja klukkan hálffjögur. Ég tók því þannig að símaþjónustufulltrúinn væri að tala um sama daginn en ég bíð enn. Og nenni varla að tala við hana ef hún lætur einhvern tímann svo lítið að hringja. Skitnar fokking 40 evrur sem rifist er um, hef hvorki tíma né þrek í að pæla í þessu. Það versta er að ég er dálítið mikið í prinsippunum þegar kemur að bankastofnunum og það ALversta er að þó ég lesi næstum aldrei djúpt og vel yfir bankayfirlitin, man ég vel eftir að hafa hnyklað brýrnar þegar ég sá þessar fjörtíu evru færslur í júlí í fyrra. Skildi ekki alveg dæmið, þær fóru út af reikningnum og inn á hann aftur og svo út aftur. En fyrirtækið sem var að láta millifæra segist ekki hafa fengið þær. Svo spurningin er hvert í ósköpunum fóru þær? En ég nenni varla að pæla í því, veit ekki, alla vega ekki í dag. Ég er komin með Office!

Kallinn þurfti að fara að vinna, sólin skín úti en ég efast um að ég muni hafa burði til að fara með börnin út í garð. Og þó, kannski það gerði mér bara gott? Sé til. Í dag er miðvikudagur, enginn skóli. Á morgun er fimmtudagur og verkfall. Svo fara þau á föstudaginn í skólann og þá er vikan búin. Mér finnst ég ansi mikið að í því að "passa börnin mín" þessa dagana og vikurnar. Ferlega væri ég til í svona húshjálp sem byggi til kvöldmatinn. Og tyggði hann fyrir okkur líka. Og sæi um að brydda upp á skemmtilegum umræðuefnum.

Lifið í friði.