í tvírusli
Ég er í rusli yfir því að hafa ekki fengið 29. desember moggann fyrr en í gær. Þar var (og er enn í mínu blaði) greinin 14 skref til fegurðar eða, eins og það var yrt á forsíðu: Léttstíg skref til klassískrar áramótafegurðar fyrir konur á öllum aldri. Ég komst við. Hver þarf ljóð þegar svona er prentað á Moggann?Sem betur fer stendur kvennakvöldið fyrir dyrum, ég get þá notað þessar leiðbeiningar, vonandi. Verst að það virðist heilmikill stofnkostnaður í þessum skrefum, kökufarði, hyljari, fínmalað púður, vatnsheldur kremaugnskuggi... ég á ekkert af þessu.
Svo er ég líka í rusli, en töluvert minna rusli þó, yfir því að geta ekki horft á Útsvar frá því í gær. Mér finnst nefninlega svolítið gaman að horfa á svona spurningaþætti og ákvað að horfa í morgun þar sem Gurrí var nú í þættinum í gær og svona. En, þátturinn hleðst ekki inn hjá mér. Fréttirnar, Kastljós og Fréttir á táknmáli opnast eðlilega en ekki Útsvar.
Lifið í friði.
<< Home