31.12.07

í dag í kvöld

Mér hefur liðið mjög undarlega í dag, blúsuð en samt ekki, eirðarlaus en yfirmáta löt.
Ég er aldeilis óvön því að þurfa ekki fyrir neinu að hafa á þessum degi, kampavínið var löngu komið í hús og hefur kælst í ísskápnum í dag og það er eina verkefnið sem ég fékk fyrir kvöldið. Fer í mat til nágrönnu sem er listakokkur og hef hlakkað til að fá kvöldmatinn síðan ég opnaði augun í morgun.

Um miðjan eftirmiðdaginn ákvað ég nú að drífa okkur börnin aðeins út í bæjarferð, það var dálítið búið að vera að velkjast um í kolli mínum og ég vissi að ef ég reyndi ekki að kanna málið sæi ég hrikalega eftir því í kvöld.
Leiðin lá í hrekkja/búningabúð. Pínulítil þrælskemmtileg troðfull af frekar ódýru búninga og partýdóti. Þetta reyndist ekki hugmynd ársins þar sem biðröðin lá langt út á götu og troðningurinn og lætin voru slík að ég var næstum hætt við. Sérstaklega þegar ég fékk athugasemd frá starfsmanni um að það ætti varla að vera með börn þarna, ég var næstum búin að hreyta í hann að við værum greinilega ekki velkomin og strunsa út en svo náði ég að stilla mig og hélt mínu striki. Við höfðum troðninginn af og mér tókst að kaupa grímur á börnin í kvöld og þrjá pakka af því sem farið var að sækja... stjörnuljós voru það heillin.

Mér finnst gamlárskvöld alltaf frekar skemmtileg kvöld, þ.e.a.s. síðan ég fór á botninn í gamlársdjammi og skellti mér í Hollywood og skemmti mér svo illa að ég fór næstum grátandi heim af frústrasjón. Allt það ár var örugglega ónýtt, ég man það samt ekki.
Síðan þá hef ég alltaf haft vit á því að vera í góðra vina hópi, vernduðu umhverfi og í kvöld er engin undantekning.
Og mér finnst rakettur og brjálæði æðislegt. Og mér er skítsama þó þetta séu milljarðar, ég hef ekki séð þeim neitt betur varið peningunum, get varla ímyndað mér að gaurarnir sem mæta í flugeldasölurnar séu á leið með tékkheftin niður á Barnaspítala Hringsins. Mér finnst ég því eiga nett bágt að missa af því í kvöld.

En, ég segi bara skál og skemmtið ykkur fallega og fjörlega. Ég vona að veðrið leiki við ykkur þvert á hrakspár veðurfræðinga, hvað vita þeir svo sem?

Kærar þakkir fyrir árið sem er að líða. Og ekki segja mér að þessi tímamót hafi engin áhrif á ykkur, ég veit að þetta er kvöld eins og önnur kvöld en það að skipta um ár hefur undarlega mikla þýðingu, hvort sem fólki líkar betur eða verr.

Mig langar ferlega mikið að opna eina kampavín núna strax, fyrir kjólamátun. Á ég?

Lifið í friði.

zapping de l'année

Eftir þrjár klukkustundir af myndbrotum úr sjónvarpinu frá árinu sem er að líða er ég nokkuð sannfærð um að líf mitt er blekking.
Hér er allt í fokki, spilling sem tengist ríkustu köllunum (sem verða stöðugt ríkari og ríkari) og stjórnmálamönnum og felur í sér vopnasölu, olíubrask og annan viðbjóð á meðan ástandið hríðversnar í lægstu stéttunum og allt er að fara í bál og brand.
Fyrir utan pólitíkina er þetta svo afskræmt þotulið með rassa og brjóst út í loftið og plebbar í raunveruleikaþáttum.
Stundum er ég hissa á sjálfri mér fyrir að horfa ekki lengur á sjónvarp, en þegar ég sé þetta svona í einum hrærigraut er ég nokkuð sátt við þá þróun. Miklu betra að vera bara úti í garði með börnunum og finnast allt í lagi. Eða hvað?

Lifið í friði.

30.12.07

ekki læri

Þegar ég var loksins búin að sjúga nægan kraft úr internetinu (nota bene, ég fer ekki inn á síður sem pirra mig, kiki ekki til SFr, ekki á trú eða vantrú og læt fréttir ekki leiða mig inn á bloggsíður) dæsti ég hátt og nokkuð laglega, þó ég segi sjálf frá og tilkynnti manninum mínum þá áætlun að hafa lambalæri í hádegismat. Hann hélt nú ekki, skipaði mér að fara í sturtu og reyna að flikka aðeins upp á útlitið því hann ætlaði að bjóða allri fjölskyldunni út að borða í hádeginu. Þetta gerist sjaldan, svona drifkraftur í að gera sér dagamun hjá honum, yfirleitt er það ég sem rek alla upp og út að gera eitthvað skemmtilegt, svo vitanlega var boðið ekki afþakkað.
Við fengum okkur þistilhjörtu, ágætar pizzur og ís og tiramisu í desert. Mamman og pabbin fengu rauðvín með og allt. Svo var farið í Villette garðinn, Grande Halle nýuppgerð og fín skoðuð, bókabúðin þar reyndist hin skemmtilegasta þrátt fyrir smæð sína, þar skoðaði mamman innréttingarnar frá öllum hliðum, hreint brilljant smíði sem hægt væri að stela og stæla, börnin flettu risaútgáfu af ræningjunum þremur og pabbinn skoðaði lengi myndir af berum kéllingum og kannski eitthvað fleira líka.
Í garðinum fóru börnin tvær bunur í hringekjunni og, alveg satt, þar sem ég horfði á tólf litlar stelpur og einn strák dingla fótunum í róluhringekjunni, helltist yfir mig undarleg kennd um ofdekruð börn og fólk sem lætur eins og allt sé í lagi þegar það er kannski ekkert allt í lagi. Þess vegna fannst mér skrýtið að lesa þetta áðan.
Eftir hringekjuna átti að fara í stóru rennibrautina en hún er lokuð eins og öll leiktæki í París, líklega, þar sem hiti er við frostmark. Það er svo hættulegt að leika sér í frosti, það veit hver heilvita maður. Við gengum því á trumbuhljóðin í staðinn og horfðum á stóran hóp fólks berja misstórar trumbur í flottum takti áður en haldið var af stað heim með rjóðar kinnar og glit í augum. Það er alla vega einhvern veginn allt í allra besta lagi hér. Og fyrr skal ég hundur heita en hafa samviskubit yfir því og dettur ekki í hug að ala börnin mín upp í slíkum ósóma, eða ætti ég að segja hreisu?

Í kvöld hefur enginn áhuga á kjöti, hér er skorið niður grænmeti af fullum krafti undir ljúfum djasstónum, börnin leika sér með riddara og kastala, mamman hangir á netinu. Allt virðist eins og það á að vera. Blekking?

Lifið í friði.

sunnudagsmorgunn í rúminu með tölvuna

Þetta er sérlega skemmtileg, stutt og laggóð greining á Dýrunum í Hálsaskógi.

Í gær lagðist ég yfir myndagátuna. Hafði séð hana og leyst fyrstu setninguna á svekkjandi skömmum tíma en ekki lagst almennilega yfir þetta. Ég man þá góðu tíma er ég, Embla og pabbi þurftum að hringjast á, spá og spekúlera, jafnvel kalla til fjórða aðila. Vorum við heimskari eða voru gáturnar miklu snúnari? Toujours est-il að ég kláraði þessa barnagátu hratt og vel. Reyndar þurfti ég að bíða með síðasta orðið þar til í morgun. Það eiga að vera nokkrar slíkar þúfur í þessu. Og einhvern tímann í svefnrofum í nótt datt mér í hug að þetta gæti verið kannabis en furðaði mig á því um leið að hafa ekkert heyrt um það að kannabis væri að finna á Norðurskautinu. Mig vantaði auðlind, hún kom svo strax og ég leit á þetta í morgun.

Krossgátuna tekur ekki að tala um, fylli hana jafnhratt út og Lesbókargátuna. Komin með eina villu, ég vil ekki samþykkja að HREISA sé ÓSÓMA.

Ég man þau jólin mild og góð er bloggheimar voru morandi í spennandi spurningakeppnum, bókmennta- og myndagetraunum. Sem var eins gott því Mogginn er hættur að sjá okkur fyrir almennilegri heilaleikfimi. Þar vaða nú uppi fréttir af þotuliði, hlutabréfakaupendum og öðru pakki sem kemur mér ekki nokkurn skapaðan hlut við.
Lesbókin stendur alltaf fyrir sínu, þó þar fari sumt dálítið í taugarnar á mér, til dæmis skil ég ekki enn hvað allar þessar stuttu greinar um rokkara þurfa endilega að vera að taka pláss þar.

Eins gott að ég fékk tvö tölublöð af eðaltímaritinu Börn og Menning send til mín fyrir jólin. Greinarnar þar eru skemmtilegar, mátulega langar og fullar af spennandi fróðleik og upplýsingum. Ég sé að barnabókaútgáfa er að taka kipp og ferlega er ég hissa á að hafa hvorki heyrt um né séð nokkurn skapaðan hlut um útgáfu Árnastofnunar og Smekkleysu á gömlum upptökum af vísum, og bók með. Þetta er efni sem ég VERÐ að eignast og það fyrr en síðar.

Bíómyndin um ræningjana þrjá var frábær. Eru bækur Tomi Ungerer til þýddar á íslensku? Fá Íslendingar að sjá þessa yndislega hortugu mynd þó hún sé bara þýsk?

Sunnudagur. Síðasti sunnudagur ársins. Lambalæri í matinn í hádeginu, hér er einhver kjötorgía í gangi, en það er bæði kalt og rakt svo ekki veitir af fitu og járni í okkar viðkvæmu kroppa.

Lifið í friði.

29.12.07

fráskilda blondínan

í húsinu mínu er með singstar partý.

Ég er hins vegar farin að sofa.

Lifið í friði.

nautalifur

Í kvöld eldaði ég nautalifrarpottrétt í fyrsta sinn. Börnin umluðu af ánægju yfir þessu meyra kjöti.

Kjötið í pottinum kostaði 3 evrur og var eiginlega helmingi of mikið. Þó að lifur sé góð er bragðið það frekt að ekki þarf mikið af því. Betra að hafa þeim mun meira grænmeti og góð rjómasósa er náttúrulega nauðsyn.
Ég brúnaði sem sagt tæp 600g af lifur í litlum bitum rúlluðum upp úr hveiti, pipar og salti ofan í sama potti og ég var búin að glæra lauk og mýkja gulrætur í sneiðum í. Lét nú bara grænmetið vera áfram í pottinum á meðan. Svo hellti ég tveimur, þremur vatnsglösum yfir, skar smá papriku ofan í og lét malla. Eftir um tíu mínútur bætti ég smá kartöflumjöli og góðri rjómaslettu og raspaði smá múskat yfir. Det var nu det. Gufusoðnar kartöflur með. Mjamm.

Mamma mín eldaði lifrarpottrétti reglulega handa okkur, ég hef alltaf verið hálfhrædd við að prófa. Nú verður þetta gert reglulega hér. Var samt hikandi með græn krydd, allar ábendingar vel þegnar.

Ég fæ mér reyndar alltaf reglulega kálfalifur á veitingahúsum, eiginlega alltaf ef boðið er upp á það í réttum dagsins. Lifur er hnossgæti. Skál fyrir því.

Lifið í friði.

28.12.07

bestu plöturnar 2007

Við börnin ræddum yfir hádegismatnum í einlægni um álit okkar á plötunum sem hér er hlustað á og höfum komist að niðurstöðu um bestu plötur ársins:

Plata ársins er, þriðja árið í röð, Dýrin í Hálsaskógi. Á eftir koma Contes et Chansons, Silfurkórinn (hefur verið mikið spilaður nú á aðventunni) og Eniga Meniga.

Ef einhverjum finnst klént að hér skuli ekki vera boðið upp á nýtt efni, er viðkomandi bent á að í netheimum er líklega að finna um þrjú þúsund bestu plötur ársins lista nú þegar og ekki líklegt að þeim muni fækka á næstu dögum.

Við erum farin í bíó.

Lifið í friði.

Lost Children e. Maggie Gee

Ég las einhvern tímann bók sem mér fannst ekkert sérstök en samt sat hún alltaf í mér og þá sérstaklega einn kafli. Bókin fjallar um konu sem vaknar upp við það að dóttir hennar er flúin að heiman og hún þarf að fara í gegnum allsherjar uppgjör við sjálfa sig og líf sitt.
Sterkasti kaflinn, þ.e.a.s. kaflinn sem hefur alltaf setið í mér, er samtal hennar við bestu vinkonu sína sem eignaðist aldrei börn. Það kemur í ljós að þær hafa alltaf öfundað hvor aðra, sú barnlausa þráir að eiga mann og barn, gifta móðirin þráir líf hinnar einhleypu. Um leið hafa þær verið tiplandi á tánum í kringum hvor aðra, því einhvers staðar voru þær meðvitaðar um þrá hinnar og ólu með sér einhvers konar samviskubit gagnvart hvor annarri.

Ég er alltaf jafnhissa þegar fólk segir við mig að ég sé heppin að búa í París. Ég tel það ekki vera heppni, ég valdi að koma hingað og hef stundum staðið í ströngu, ég er innflytjandi, útlendingur, gestur, þó ég sé ljóshærð og bláeygð og sleppi þar af leiðandi við ýmsa niðurlægingu sem dekkra fólk þarf að þola hér sem innflytjendur.

En kannski er einhver heppni í þessu, einhvers konar örlög, þráður sem var spunninn á undan vali mínu? Ég veit það ekki, en ég fæ þá tilfinningu alla vega þegar ég horfi á börnin mín hér á gólfinu að tússlita. Valdi ég að eiga þessi börn?
Það má segja að einhverju leyti, ég fann mér mann, vandaði mig mikið við að leita að manni sem ég gæti hugsað mér að eignast börn með, hamraði og nöldraði í honum lengi áður en hann samþykkti að prófa og þar fram eftir götunum. En svo sér maður hjón sem hafa gert allt þetta en eignast samt ekki börn. Hvað með þau? Þau velja en fá samt ekki. Er þá hægt að tala um val? Velja þau að þjást árum saman í miserfiðum tilraunum við að fá óskina uppfyllta?

Lífið er margslungið.

Ég er greinilega komin í áramótablámakast.

Lifið í friði (og látiði mig í friði eins og Grýla sagði).

27.12.07

jólamyndVar hringt í Grýlu?

Lifið í friði.

andvaka

Ég fór líklega of snemma að sofa eftir kampavínsrakan eftirmiðdag. Vaknaði klukkan hálffjögur. Reyni að lesa og þá lokast augun en þegar ég slekk ljósið byrja bylturnar.
Ég verð samt að reyna aftur að sofna, nenni varla að vera eins og zombie á morgun, ein með börnin.
Geisp.
Var ég búin að segja ykkur að ég ELSKA tölvuna mína? Ég elska hana.

Lifið í friði.

26.12.07

annar í jólum er ekki til í Frakklandi

takk fyrir engla

takk fyrir kveðjur

takk fyrir pakka

takk fyrir allt

Jólakaffið hjá tengdaforeldrunum í gær er, eins og öll önnur ár, eins og upp úr bók eftir Nathalie Sarraute.
Ég veit ekki hvort hægt er að lýsa þessu, verandi sjálf ekki af sama kalíber og Sarraute hef ég aldrei náð að lýsa almennilega fyrir fólki franskt búrgeisafjölskyldulíf.
Tengdapabbi og tengdamamma eru skrýtnar skrúfur. Sem betur fer hafa þau ákveðin skemmtileg element í sér, mér þykir mjög vænt um þau og þau eru takmarkalaust góð við okkur. EN þau eru ekki góð hvort við annað alltaf, og spennan á milli þeirra þegar þau taka á móti gestum er slík að þegar ég gekk út frá þeim í gær langaði mig mest af öllu að sparka í bílinn þegar ég opnaði hann. Ég stóðst þó mátið og í staðinn hoppaði ég og hristi mig og sagði OMMMM. Það náði aðeins að losa um streituna.
Á hverju ári er sami sirkúsinn: Hann hefur boðið okkur í drekkutímann, sykurmeti. Hún vill hins vegar að þetta sé "alvöru boð" og hefur því undirbúið nokkrar snittur. Svo keppast þau við að troða að okkur hvort sínum bakka og við eigum að velja lið. Nota bene: Frakkar blanda ALDREI saman sætu og söltu (þó vissulega sé farið að bera á þessu í haute cuisine er það ekki komið inn í fjölskyldurnar, sérstaklega ekki traditional búrgeisafjölskyldur). Þess vegna getur friðelskandi tengdadóttirin ekki gengið í bæði liðin og fengið sér bæði köku og snittu á diskinn.
Í gær bættist heldur betur ofan á hinn venjulega sirkús þegar í ljós kom að kampavínsflaskan hafði sprungið í frystinum. Ég var næstum því búin að sleppa mér þar, fjandakornið, ég stóð í eldhúsinu ALLAN DAGINN á undan að undirbúa fjögurra rétta máltíð, gat kallhelvítið ekki sett flöskuna í ísskápinn deginum áður!? Nei, það gat hann náttúrulega ekki því hann serverar vín með hangandi hendi því hann er svo mikill hófsemismaður að varla er hægt að segja að hann bragði áfengi. Það bitnar á okkur öllum, við þurfum að sitja undir því að um leið og hann býður í glas minnir hann "sætum rómi" á að einnig sé til óáfengt. Óþolandi tvískinnungur sem Sarraute hefur nokkrum sinnum náð að lýsa þannig að kalt vatn rennur milli skinns og hörunds lesanda.
Tengdapabbi var sem sagt í fýlu út af kampavíninu allt boðið og tengdamamman þóttist hughreysta hann við og við með því að segja að þetta væri örugglega lukkumerki, en var vitanlega um leið að snúa hnífnum í sárinu.

Annars: allt í svímandi góðu standi hér. Ekkert ofát, þannig lagað séð, bara mátulegt magn af önd og rauðvíni, súkkulaði og rjóma. Í dag fáum við gesti og vonandi næ ég að draga þau út í göngutúr, þ.e.a.s. nema ég nái að drattast út sjálf núna í hlaupaskónum, sukkjöfnun er vitanlega málið!

Bókin í jólapakkanum: Sumarljós og svo kemur nóttin. Tónlistin: Mugiboogie.

Lifið í friði.

24.12.07

gerið engil fyrir mig

í snjóinn.

Lifið í friði.

23.12.07

mér finnst það verði að koma fram

ég er ekki enn búin að gera ísinn. Reyndar ætla ég ekki að bera hann fram á morgun, heldur á annan í jólum en samt... frekar klént.
Ég er í miklu jólaskapi, annars. Og óska ykkur slíks hins sama. Megi jólin vera gleði, tóm gleði.

Lifið í friði.

ein einkunn komin

Ég er svo hissa að ég veit varla hvernig ég á að snúa mér hérna.

Var að fá þessa líka fínu einkunn.
Ég sem hélt að hægt yrði að fella mig fyrir flaustur og illa uppbyggð svör.
Ég þori ekki einu sinni að segja töluna og skammast mín fyrir að hafa talið mig fallna, eins og það fer í taugarnar á mér lið sem þykist alltaf hafa gengið svo illa en fær svo hrikalega fína útkomu. Nú er ég hrædd um að mistök hafi verið gerð. Þetta hlýtur að vera einkunnin úr hinu faginu.

Mig svimar.

Vá.

Lifið í friði.

gaman

Það var gaman í partý í gær.

Svo var ég búin að skrifa langa færslu um að ég náði að kaupa jólagjafir og að hús sprakk hér í nágrenni við mig í dag en sá að þetta var hundleiðinleg langloka svo ég strikaði hana út. Þið getið litið á þann greiða sem jólagjöf mína til ykkar. Meiri tími í undirbúninginn.

Sem minnir mig á: Talaði við tvær vinkonur í gær og fyrradag sem tilkynntu mér kokhraustar að þær væru búnar að öllu. Hvernig getur nokkur maður nokkurn tímann verið búinn að öllu? Ég spyr eins og fávís kona.

Lifið í friði.

21.12.07

jahá

áttaði mig ekki á því að sólstöður eru í dag fyrr en ég las það hjá Málbeini. Til hamingju með það. Þó margt sé jákvætt við myrkrið finnst mér það alltaf góð tilfinning að vita að nú fara dagarnir að lengjast á ný.
Einhvern tímann hélt ég sangria-partý á þessu kvöldi og bað alla um mæta í suðrænum og sólarlegum fötum. Ég ætlaði mér að gera þetta að hefð, árlegt uppbrot á skammdeginu. En maður er bara svo oft að ferðast milli landa eða í öðrum hamagangi á þessum degi að af því varð ekki.

En ég fer í jólaglögg í kvöld, það er nú aldeilis góð frétt fyrir mig. Að komast út. Einmitt það sem ég þarf. Ég vona bara að ég detti ekki of harkalega ofan í rúsínurnar svona eins og títt er með húsmæður sem komast sjaldan út. Sem er svo sem allt í lagi, bara að ég haldi strápilsinu og kögurbrjóstahaldaranum á réttum stöðum, að það verði enginn flennugangur.

Lifið í friði.

ef þetta er ekki tepoki

ég fæ engar samúðarkveðjur eða neitt svar við einu eða neinu, sit bara hér alein og hlusta á the animals in neck forest og hlýði skipunum sjúka drengsins og hef ekkert samneyti við fullorðna sem eflaust rjúka allir út um borg og bý að redda og stússast og klára og allt það
ég virðist gersamlega hafa tapað niður hæfileikanum til að hanga, rétt að ég setjist niður í bloggrúnt við og við en stuttur er hann, líklega rjúka allir út um borg og bý... og ég næ ekki að sitja og slaka á
þannig er ég í dag búin að setja í og taka úr vél, ganga frá þvottinum sem fór í vél í gær, klára að lesa yfir þýðinguna, senda hana og búa til reikninginn og senda hann, skrifa meil út af hótelpöntun í apríl, panta bílaleigubíl, baka 32 fyllt horn, pakka inn tveimur gjöfum, þrífa tölvu mannsins míns sem var eitthvað svo grá og guggin við hlið minnar, ganga frá greiðslu á skólamyndunum, borða og gefa að borða og örugglega fullt af öðrum litlum hlutum, tína upp úr gólfinu og svoleiðis endalaus húsmóðurverkefni og nú er ég að reyna að gera það upp við mig hvort ég eigi að gera ísinn í dag eða ekki

sem betur fer er partý í kvöld, annars gengi ég líklega af göflunum af dugnaði, heilbrigðu líferni og jólaanda

Lifið í friði

hvítt

Tölvan mín er hvít eins og fegurstu jólin. Ég sá MacBook kallaða púðurdós sem skammaryrði í athugasemdum einhvers staðar. Mér finnst það ekkert skammaryrði. Ég á stóra fallega púðurdós.

Ég man eftir gömlu stóru hringlaga pappapúðurdósunum sem maður fékk frá ömmu þegar púðrið var úr henni (dósinni). Með risastórum púða. Gellupúðurdós.

Drengurinn minn er hvítur eins og tölvan en það er ekki eins fallegt. Hiti, nefrennsli, hósti, lystarleysi, almennur slappleiki en samt ofboðsleg stjórnsemi, hann biður um eitthvað í eymingjalegum vælutóni og svo þegar ég sprett ekki upp til að þóknast honum segir hann styrkum skipunarrómi: "tout de suite" og slær með hnefanum á sófann, gólfið, hægindastólinn. Þá verð ég að vera uppalandi og segi að svona tali maður ekki við mömmu sína en auðvitað neyðist ég til að gefa honum allt sem hann vill borða og drekka því ekki er mikið sem fer inn fyrir hans varir.

Það stefnir í óefni.

Læknisstefnumót í kvöld þó ég viti alveg hvernig það verður: læknirinn fær barnið til að hlæja, enda skemmtilegur kall, spyr svo hvað mamma sé að hafa áhyggjur og segir mér að gefa honum áfram hitalækkandi þegar mér þyki þurfa, þvo nefið með saltvatni, og halda áfram sírópinu. Sem sagt engin breyting, engin töfralausn.
En ég þori samt ekki öðru en að fara með hann, vinkonur mínar eru hneykslaðar á mér og svo eru jólin að koma og ekki nenni ég að vera með hann fárveikan uppi á slysó eftir tvo daga...
Ég er þó heppin að þau eru sjaldan veik, börnin.

Búin að finna Office-diskinn en á eftir að setja hann upp, ein spurning til gúrúanna: Í tölvu Arnaud náði ég aldrei að fá bókstafinn Ðð til að virka inni í Word. Það virkaði í Excel og í "find and replace" og þannig reddaði ég því, skrifaði z og skipti svo út fyrir ð. Ég man að maður fékk alls konar spurningar um kóða eða annað þarna í uppsetningunni, vildi maður allt klabbið eða smærri útgáfu og eitthvað svoleiðis. Á ég að varast eitthvað sérstaklega?

Lifið í friði.

19.12.07

svo björt

Ég þurfti bara aðeins að grafa í heilanum, þar lágu í leyni upplýsingar um stuffit expander og nú er ég að hlusta á fréttir frá því í kvöld. Mér finnst ég persónulega vera snillingur. Alla vega stundum.
Maðurinn minn kom upp í rúm meðan ég var að stússast í stuffitinu. Nú hrýtur hann. Ég get látið duga að taka gleraugun varlega af nefi hans og slökkt ljósið. Losna við að tala. Nú er það bara ég og tölvan mín.

Lifið í friði.

nýtt dót handa mömmunni

Ég er að skrifa á nýju tölvuna mína, ligga ligga lá.

Ég fékk þessa tölvu (MacBook) fyrir rúmri viku síðan. Þá var ég í próflestri og lá hún því óupptekin í kassa fram á miðvikudag. Þá var ég svo niðurdregin eftir slæma prófið að um leið og eitthvað vesen varð með nettenginguna gafst ég upp. Svo hef ég verið að gjóa augum á hana, tekið hana stundum og opnað, fiktað í hinu og þessu tilviljanakennt en einhvern veginn ekki gefið mér tíma í að athuga þetta með netið. Og fyrir mér er netlaus tölva gangslaus tölva. Því miður er ég ekki að skrifa ódauðlegt ritverk eða vinna annað gáfulegt. Ligg bara í misgáfulegum bloggum eða ramba um stórhættulegar vefsíður.

Málið var að ekki var hægt að vera með tvær tölvur í þráðlausri tengingu samtímis. Hefur verið vandamál hér þegar pabbi hefur verið í heimsókn. Og haldiði ekki að maðurinn minn hafi ekki bara eytt þessu vandamáli í dag? Eitt símtal og smá stillingar á netinu og VOILA. Ég ligg því hér í rúminu með mína tölvu meðan hann er frammi með sína tölvu. Alsæl hjón.
Nú þurfum við aldrei aftur að spila yatzy eða tala saman. Kannski eins gott því ég fékk ÞRJÚ yatzy í leik í fyrradag og grunar að maðurinn minn vilji aldrei spila það við mig aftur hvort sem er.

En það er samt annað vandamál. Ég get ekki hlaðið niður windows media player. Það kemur bara eitthvað skjal en ekki innsetningarforrit. Prófaði að hlaða niður Flip4Mac og það gekk en það virðist samt ekki virka fyrir RÚV. Og þá væntanlega ekki heldur fyrir námið eftir jól (og nú geri ég ráð fyrir að Grettir tölvukarl fái ekki að borða jólasteikina fyrr en hann er búinn að laga aftur það sem hann lagaði en aflagaðist svo þegar hann fór til útlanda).

Og svo finn ég ekki Office-diskinn. Það er smá bömmer en hann ER HÉRNA einhvers staðar.

Og ég er með nýja tölvu! Ligga ligga lá!

Lifið í friði.

18.12.07

í dag

rúttaði ég til í herbergi barna minna, þau eru búlímísk í myndaframleiðslu sinni og mamman er of væmin til að henda. Þangað til að einn daginn ofbýður henni bunkinn og þá fer áreiðanlega margt í ruslið sem ætti frekar heima á safni.
Sólrún teiknar mikið af dýrum, hún er t.d. núna á fullu í jólamyndunum sem innihalda alltaf fagurkrýnd stökkvandi hreindýr, en svo segist hún ekki treysta sér til að teikna jólasvein.
Kári teiknar kalla sem eru enn bara haus með útlimi en þeir hafa allir einhvern anguværan svip sem fær hjarta mitt til að slá hraðar.

í fyrra var ég dugleg og lét Sólrúnu teikna á flest jólakortin, því miður náði ég því ekki þetta árið, sé eftir því núna eftir tiltektina.

Svo er það spurningin: Á ég að láta stóru legókubbana? Eru ekki þessir litlu nóg fyrir þau núna? Það myndi skapa töluvert pláss, ansi stór karfa sem gæti farið af gólfinu. Þau leika sér ekki oft í legó, en það kemur samt fyrir. Ég get ekki ákveðið mig og misnota ykkur því enn og aftur.

Jólatréð er komið fast ofan í blessaðan jólatrésfótinn sem á sér skrautlega sögu sem ekki verður sögð hér þar sem bókin kemur að öllum líkindum út fyrir næstu jól. Tréð er dálítið skakkt og greinarnar hafa ekki lagst niður á þessum fimm, sex klukkustundum sem það hefur staðið. Ég þrjóskast við að vera með lifandi tré, var með lánsgervitré eitt árið og það var alls ekki minn tebolli.

Annars er ég farin að finna angurværð, þrá eftir íslenskum jólum, hellast yfir mig. Fór m.a.s. á netið að athuga verð í morgun, mæ ó mæ, ekki spurning um að plönin standa.

Lifið í friði.

17.12.07

gleypt eða smjattað

Síðustu daga hef ég úðað í mig tveimur skáldverkum, Tryggðarpantur hefur oltið um í höfði mínu, truflað mig og hrært í mér á einhvern undarlegan hátt. Ég mæli alveg með henni. Svo las ég nýjustu bók Arnaldar, Harðskafi, sem var hin besta "skemmtun", ég hef sérlega gaman af því að velta mér upp úr mannshvörfum og vil helst að þau haldist óupplýst, það kitlar einhverja ógnarlega löngun í mér, einhvers konar löngun í að hverfa sjálf einn góðan veðurdag, eitthvað sem ég veit þó að ég mun aldrei geta gert. Eða hvað? En djöfull var hún fljótlesin, það eiginlega fer í taugarnar á mér hvað ég var fljót að klára hana.

Þess á milli hef ég gætt mér á Þjónn það er Fönix í öskubakkanum mínum. Ljóðum getur maður (kona) ekki úðað í sig, ekki drukkið í sig, þar þarf að dreypa á hægt og rólega, varlega, smjatta, láta fara upp í góminn og undir tunguna.
Ég er ekki svekkt, ekki frústreruð (nema stundum) og held ég hafi algerlega vanmetið sjálfa mig og skáldin þegar ég sagðist ekki skilja ljóð á dögunum.
Útfærslan, affærslan, yfirfærslan á Tímanum og vatninu er náttúrulega bara nauðsynleg lesning hverjum þeim sem ólst upp við taumlausa dýrkun á Steini Steinarri, eins og ég gerði einmitt. Á mínu heimili var falleg útgáfa af þessu ljóði uppi í hillu og las ég þetta aftur og aftur í gegnum alla mína æsku. Og hef alltaf þráð að kunna þetta utanað en um leið aldrei drattast til þess að láta þann draum rætast. Ég á eftir að prófa að endurlesa þessa tilfærslu með upprunalega ljóðið til hliðar eins og ég sá einhvers staðar að ætti að gera.

Annars var dagurinn alveg í anda konu sem ætlar ekki að gera neitt fyrir jólin og fer því og kaupir enn einn Billy-inn, ber hann alein upp fimm hæðirnar, skrúfar hann upp (með skrúfvélinni að sjálfsögðu) og flytur til hinar ýmsu hillur og skápa til að koma honum fyrir.
Mér er illt nákvæmlega alls staðar.

Og Kári litli kom sjóðheitur og sljór heim úr skólanum, lagðist á gólfið og sofnaði meðan ég raðaði í hillur. Svo var hann fluttur yfir í náttföt og borðaði engan kvöldmat. Kannski ég eigi bara góðan letidag heima með hann á morgun, svona algerlega tilneydd?

Lifið í friði (stundum langar mig ógnarmikið að skrifa rest in peace).

líður

Tíminn líður víst og þó ég reyni að láta sem ég hafi allt of mikinn tíma til að gera allt of lítið því ég sé svo kúl og láti ekki narra mig út í hið illræmda jólastress verð ég líklega að horfast í augu við þá staðreynd.
Á laugardaginn bakaði ég piparkökur og bauð svo börnunum í götunni að koma í skreytingar. Sex börn frá 3ja til 5 ára, slatti af bleikum og grænum glassúr, penslar, túbur og perlur. Það var fjör. Ég ákvað strax að þetta yrði ekki endurtekið á næsta ári en er þegar búin að skipta um skoðun. Reyndar voru sumir áhugasamari en aðrir og greinileg kynjaskipting kom í ljós, strákarnir höfðu mun minni þolinmæði en stelpurnar sem sátu með tungu út á kinn við að reyna að raða litlu perlunum í munstur ofan í glassúrinn.
Í gær henti ég svo upp einhverju af skrautinu þegar ég var búin að jafna mig á pirringi morgunsins sem inniheldur fýluferð í IKEA af öllum stöðum. Þar var ég búin að týna ýmsan þarfa í poka en þegar ég komst að því að jólatrésfæturnir sem símadaman fullvissaði mig um að væru til, væru ekki til, henti ég pokanum frá mér og rauk út framhjá kílómetra röðum við kassana. Kjötbollluleysi í matvörudeildinni kórónaði svo allt.
Og nú þarf ég að fara aftur í IKEA því auðvitað ætla ég að kaupa helvítis snagana sem voru til í gær en ekki síðast.

Hvað í déskotanum get ég fundið sniðugt handa manninum mínum? Hann er ekki jólabarn og finnst þetta jólastúss hálfgert rugl, hann segist eiga allt og hann á LÍKA afmæli. Mig langar svo að koma honum á óvart með einhverju virkilega skemmtilegu. Double trouble.

Lifið í friði.

14.12.07

lappir eru til að standa á

Í sumar ræddi ég við einhverja konu um þetta óhugnalega vald sem ráðamenn eru farnir að taka sér og ég man að konan sagði að henni þætti þetta samt nauðsynlegt, þá vorum við held ég að tala um fangabúðir nútímans í Ameríku og ég spurði hana hvernig henni litist á þá tilhugsun að bróðir hennar lenti í haldi og fjölskyldan gæti ekkert gert og mig minnir að konan hafi farið undan í flæmingi, þótt spurningin hvort sem er svo mikil fásinna að það þyrfti ekki að spekúlera í þessu og nú var þetta að gerast nema það var ekki bróðir heldur systir sem var tekin höndum, ekki systir þessarar konu heldur bara svona systir okkar allra almennt og nú kannski munu Íslendingar skilja að það er ekki að ástæðulausu sem fólk mótmælir harðlega og meira að segja StebbiFr segist stoltur af Ingibjörgu sem heimtar útskýringar og að hún þurfi nú að standa í lappirnar, hann segir það, alveg satt

kannski verður þessi móðgun við íslenska hreinleikann og sakleysið til þess að við rísum upp á lappirnar og förum að vinna að friði á jörð og verndun sjálfsagðra mannréttinda, kannski en kannski týnist þetta í jólalátunum kannski hefði verið betra að hafa þetta í febrúar

Lifið í friði

spurningin er

mega feitu börnin ekki samt fara í skólann?

13.12.07

skriftarvöðvum haldið við

Ég held að ég hafi lokið við öll jólakortin til Íslands. Reynslan sýnir þó að yfirleitt poppa upp einhverjir gleymdir vinir eftir að búið er að senda bunkann. Hann er þykkur, það get ég sagt ykkur. Ég þori varla að nefna tölur, eiginlega hálfskammast mín fyrir hvað ég sendi mikið. Fer þó ekki upp í þriggja stafa tölu.
Mér er illt í bakinu og ég er örþreytt. Það tekur á að senda ástar- og saknaðarkveðjur. En gaman er það nú samt.
Á meðan hlustaði ég á tvær, þrjár Víðsjár og einn Orð skulu standa.
Svo prófaði ég Rás 2 í beinni, lenti beint inn á Jólagjöfin er ég og þú það er sælla að gefa en þiggja, þú vilt mig ég og þú... og fannst það ágætlega fyndið og dillaði mér smá. Svo kom eitthvað annað síbyljulag með hávaða og þá fann ég að þetta var bara ekki að gera sig. Rás 1 er eina útvarpsstöðin sem ég get hlustað á og notið, ég er algerlega komin með ofnæmi fyrir látum og hamagangi og gervigleði.

Svo er ég líka að lesa Tryggðarpant. Hún er sérkennileg, einhvern veginn er stíllinn í takt við aðalpersónuna sem er enn mjög óaðlaðandi. Mig langar að giska á að það sé viljandi og ef svo er, er það vel heppnað. Reyndar eru allar persónurnar óþægilegar, ég finn fyrir einhvers konar innilokunarkennd sem minnir kannski dálítið á tilfinninguna sem ég fékk þegar ég las Stúlkan í skóginum á sínum tíma. Hef aldrei þorað að lesa þá bók aftur. En ég er nú bara tæplega hálfnuð með Auði svo ég veit ekki hvert hún mun fara með mig.

Farin á pósthúsið.

Lifið í friði.

til hamingju

Ég óska Konum með konum innilega til hamingju með nýju vefsíðuna sína.

Bróðir minn hannaði síðuna og systir mín sér um hana. Ég er rík manneskja.

Lifið í friði.

12.12.07

ætlaði að skrifa um allt annað en þetta kom út

í eftirmiðdaginn fór ég í bæjarferð með dóttur mína og ástkonu, nei ég meina vinkonu, hennar. Förinni var fyrst heitið í föndurbúð þar sem ég hafði séð (og ekki keypt á stundinni en ekki hægt að hugsa um síðan) Eiffelturnapiparkökumót. Þegar við komum var fullt af hinum mótunum eftir, hreindýr, hjörtu, jólasveinar og eftir smá panikkennda leit fannst Eiffelturn aftast á einum hankanum. Mikið tók það í nískupúkann að sjá að öll mótin kostuðu 2,5 evrur nema Eiffel sem kostaði 4,5. Túristaníðingsháttur. Smá hik kom á mig enda sparsöm og útsjónarsöm og veit að hjörtun gera í raun sama gagn fyrir börnin (og hvað eru piparkökurnar nema fyrir þau) en túristaheilkenni mitt varð sparsemisþörfinni yfirsterkara.
Svo var gengið í gegnum Mýrina og niður í snobbsaumabúðina sem verður á nördasíðunni minni sem vex og dafnar og mun bráðum komast á netið, hvar litlu stúlkurnar fengu að velja sér borða í hárið. Saumakonunum þótti merkilegt hvað þær voru báðar hrifnar af bláu borðunum. Mér líka. Þarna voru bleikir borðar í runum og þær litu varla við þeim. Ætli þær stefni báðar óafvitandi á að verða alvöru cordons bleus?
Eftir erfiða verslunarferð var nauðsynlegt að kíkja á kaffihús. Þjónninn reyndist svo tryllt hrifinn af stúlkunum að á tímabili varð mér um og ó. Ég er ekki frá því að þær sjálfar voru hálfórólegar yfir óþægilegri ágengni hans. En heitt súkkulaðið rann ljúflega niður og ensku hjónin á næsta borði með koníaksstaupin náðu að rétta stemninguna af.
Þó maður sé lúser og hafi klúðrað einu prófi er nú lífið alltént ansi hreint fallegt.

Lifið í friði.

búin

en engin gleði í huga mínum, bara vanmáttartilfinning. Þetta gekk alls ekki nógu vel, alveg hrikalega erfitt að sitja svona heima hjá sér við tölvu og eiga að koma einhverju skikkanlegu á skjáinn á tveimur tímum. Ég held að hér hafi hröðustu tveir tímar í lífi mínu verið að fara hjá.

Nú má aðventan koma til mín í öllu sínu veldi. Ég setti vitanlega upp fallega stjakann minn á réttum tíma en þarf að finna lyng eða eitthvað til að setja í hann.

Ég fór ódýrustu og lélegustu leið sem ég hef nokkurn tímann farið í dagatalamálum fyrir börnin, lét pabbann kaupa súkkulaðidagatal úti í búð. Það vekur slíka lukku að ég hef ekki haft snefil af samviskubiti yfir því. Þau eru andaktug þegar þau sjúga molann sinn á morgnana.

Ég leyfði íslenska jólasveininum ekki að koma í nótt, þeir verða bara að koma tveir á morgun, var ekki vont veður á Íslandi? Örugglega ófært.

Ég mun ekki lenda í jólastressinu svokallaða og skil ekki fólk að leyfa sér það.
Ég er jólabarn í hjarta mínu og ætla sannarlega að undirbúa dýrindis máltíð á aðfangadagskvöld, kaupa bók handa hverjum fjölskyldumeðlimi, langar að finna mér rauðar sokkabuxur (á viðráðanlegu verði) en það er ekki spurning um jól eða ójól, ég ætla kannski að baka nokkur horn, kannski ekki, ég ætla að leggjast í skáldsagnalestur og klára Bréf til Maríu sem ég byrjaði á í haust, búin að gleyma því hvernig maður les bara skólabækur þegar maður er námsmaður, ég ætla að skrifa öll jólakortin á morgun, búin að kaupa þau, skrifa á umslög að hluta og komin með myndina. Þau fara í póst á föstudag. Ekkert stress samt. Stressið er búið. Það tengdist prófum. Jólin eru bara tóm gleði.

Verst að mér líður eins og versta kjána sem uppi hefur verið. En það rjátlast kannski af mér í dag.

Lifið í friði.

11.12.07

hálfnuð

Eitt búið, eitt eftir. Það er nú ekki auðvelt skal ég segja ykkur börnin góð, að skrifa í næstum þrjá klukkutíma. Vöðvarnir í handleggjum fólks hljóta að hafa breyst töluvert, hefur þetta verið rannsakað? Ég er a.m.k. með mikla skriftarverki í hægri framhandlegg. Og vöðvabólgan er töluvert slæm. Og svo fer ég út að hlaupa og geri æfingar í kvöld og verð eins og hræ í prófinu í fyrramálið.

Eigum við ekki bara að segja að ég hafi rúllað þessu upp í morgun? Ég þori ekki að athuga neitt af svörunum samt, ekki alveg viss á nokkrum (smá)atriðum þarna.

Veðrið hér er hið fallegasta, sól, logn og temmilega kalt. Yndislegt. Oh, hvað ég hlakka til að komast í jólastuð á morgun.

Lifið í friði.

10.12.07

grein á Egginni

Fyrirsögnin er tengill.

Annars bara:

Próf -25 1/2

Það er fáránlegt hvað ég er stressuð.

Lifið í friði.

8.12.07

fínt

Þessi grein er fín.

Já, ég er að lesa fyrir próf og æfa það að finna muninn á framgómmæltu og uppgómmæltu nefhljóði og nei, það gengur ekki vel. En ég er samt það dugleg að inn á milli tek ég mér pásu og lít á netið.

Það má.

Lifið í friði.

7.12.07

nánar um tanntvíframvaramælingar

Tanntvíframvaramælta hljóðið er sérgrein franskra kvenna sem geta sagt alla samhljóða með munninn í ofurkringdum stút. Getið þið þetta núna?

Lifið í friði.

nótt hinnar löngu vöku

Í nótt svaf ég lítið sem ekkert. Kannski svaf ég meira en mér finnst, mér finnst ég hreinlega hafa dottað milli sex og sjö, kannski náði ég lengri svefn en það inn á milli þess sem ég bylti mér, stíf og hrædd, full vanlíðunar.

Prófstressið er komið af fullum krafti.
Svona prófkvíði er sjúkdómur.
Nú verður brunt í parapharmacie og kaupt kalk og magnesíum. Mér er sagt að taka svoleiðis á kvöldin, það hafi sefandi áhrif.

Það versta er, er að ég tók vinnu báða dagana um helgina. Ég bara get ekki sagt nei. Get það ekki, peningagræðgin alveg að fara með mann. Þó ég viti að þeir finni alltaf leið til að ná peningunum af mér aftur, get ég ekki haldið í mér.
En á milli túranna verður lesið af hörku og spáð og spekúlerað, æft sig í hljóðritun, ártöl lögð á minnið og reynt að skilja muninn tanntvíframvaramæltu og uppáskágómskældu hljóði í eitt skipti fyrir öll.

Lifið í friði.

5.12.07

ljós

Ég vígði loksins núna fyrst borvélina mína. Hesú maría hósei hvað það var gaman að dúndra holum í helvítis vegginn sem ég var einu sinni næstum því búin að berja höfði mínu í (og eyðileggja það) eftir að vera búin að gera allt of stóra og allt of grunna holu í hann. Svoleiðis klúður er úr sögunni. Sem og vandræði með dýptarstillingu. Þessi er alvöru og stoppar borinn þegar hann á að stoppa. Eina sem ég þurfti að gera var að raka leggina fyrir myndatökuna, ég bora sko alltaf í bíkíní og vildi náttúrulega mynd af vígslunni. Ferlegt hvað maður er latur við að raka leggina á þessum árstíma. Nú er ég sem sagt komin með þetta fína (og hræódýra, takk IKEA) veggljós í stofuna.

Ég ætla að játa tvennt fyrir ykkur:
1.Mér fannst ég verða að setja það hingað inn að ég hefði fest upp veggljós í stofunni og gæti nú hent út standlampanum sem stóð einmitt í veg fyrir komandi jólatré. En um leið fannst mér alveg hrikalega lamað að skrifa um þetta. Ég er sem sagt í blússandi bloggkrísu þessa dagana, það er alveg greinilegt.
2. Ég rakaði ekki á mér leggina, ég var ekki á bíkíní og það var engin mynd tekin. Svona reddaði ég bara krísunni minni yfir að þurfa (því, já, ég VARÐ!) að skrifa leiðindablogg um ljósauppskrúfanir á bloggið mitt.

Öllum var sama þó ég hefði gleymt lokaorðunum á dögunum. Það eru mér vonbrigði því mér brá ógurlega sjálfri þegar ég tók eftir þessu.

Lifið í friði.

4.12.07

að synda í hafragraut

að vera föst í umferð á hraðbraut

að ganga í vel blautri drullu

að bíða í röð í banka, á pósthúsi, hjá tryggingastofnun

að vera fimm ára og bíða jólanna

allt þetta og miklu verra er að vera að skrifa ritgerð sem þarf að skila í kvöld

ef það gæti rústast út úr mér orðaflóðið eins og stundum hér á blogginu, nei, þetta er setning og svo rembingur, hik, hikst og sviti, setning og svo aftur þjáningin...

af hverju er maður svona óöruggur með sig? kannski vegna þess að maður byrjaði of seint? kannski vegna þess að besti tíminn til að vera námsmaður er um tvítugt þegar manni finnst allar hugmyndir manns svo mikil snilld?

Æ, ég veit að ég ætti ekki að trufla ykkur með þessu rausi, en ég varð að fá nýja færslu efst, sú síðasta var einum of DollýFr eitthvað. DollýFr er þjófstolið beint af síðu Þórdísar múmínmömmu, hún verður bara að fyrirgefa mér eða koma ellegar og skjóta mig.

Hver tók eftir því að um daginn gleymdi ég að setja lokaorðin, möntruna mína, galdurinn minn, í pistil?

Lifið í friði.

3.12.07

nirfó

Fyrir nokkrum dögum síðan varð ég fyrir undarlegri lífsreynslu. Ég sá sjálfa mig fara út úr bílnum á rauðu ljósi, ganga að bílnum fyrir framan, rífa upp hurðina og lúberja ökumanninn. Ég, sem aldrei geri flugu mein, fann ofbeldislöngunina bókstaflega fara eins og loga um líkamann. Helvítis fíflið sem slapp við að verða fyrir líkamsárás hafði keyrt niður götu í hverfinu mínu, götu þar sem hámarkshraðinn er 50 km/klst. á ofsahraða, tekið fram úr tveimur bílum og næstum lent framan á bíl sem kom á móti, áður en hann þurfti svo að stoppa þarna á rauðu ljósi fyrir framan okkur "hægfara fólkið", mig og bílstjórann sem á eftir mér ók.
Ég hef oft orðið reið, en aldrei fundið (og SÉÐ) svona ofbeldisþörf hjá mér áður. Ofsaakstur í íbúðarhverfum hefur alltaf verið það sem langmest af allri slæmri hegðun í umferðinni, fer í taugarnar á mér. Aðallega vegna þess að í íbúðarhverfunum eru mestar líkur á að börn séu á ferli. Og mér finnst bara að það eigi að gera allar götur sem fólk býr við, kræklóttar og erfiðar til hraðaksturs. Svo eiga að vera gönguljós með reglulegu millibili og vitanlega þarf lýsing að vera góð og henni þurfa að fylgja blikkandi varúðarljós. Það er bara allt í fínu lagi með að það sé hunderfitt að aka í gegnum borgir.
Ég var alveg búin að gleyma þessu atviki um daginn þar til ég fór að lesa mér til um slysið á Íslandi. Og þegar ég sé að íbúar götunnar hafa lengi barist fyrir breytingum til að hægja á umferð er ekki laust við að önnur ólga ofbeldislöngunar brjótist um í mér. Þarf virkilega alltaf hörmungar til að koma stjórnvöldum í skilning um hlutina? Þetta er þá a.m.k. önnur mannfórnin á þessu ári í umferðinni, í sumar lést nefninlega ungur maður á stað sem lengi hafði verið bent á að væri fáránlega hættulegur.

Lifið í friði.

1.12.07

varpand

Maður skyldi ætla að ritgerðarsmíðar milli þess sem skottast er um borgina með síðasta ÚRVAL ÚTSÝN hópinn ættu að vera blogghvetjandi. Hér sit ég pikkföst við tölvuna mína og reyni að koma skikki á hugsanir mínar, viskan flæðir um æðar en kemst ekki út nema öfugsnúin og óskiljanleg. Kannski efnisins vegna, þetta er dularfullt efni um kóðað tungumál þar sem öllu er snúið við. Kannski ætti ég að líma skrifborðið og tölvuna upp í loft og athuga hvort mér gangi betur? Kannski er ég bara vonlaus og allt þetta puð ekki til neins?
Ég get a.m.k. huggað mig við að þó að sumir séu þöglir sem gröfin og jafnvel frekar að strika út en annað, fara aðrir á kostum á mínum vel skipulagða og skýra bloggtenglalista sem vitanlega er í stafrófsröð. Ég gæti aldrei haft það öðruvísi, en ég vann líka lengi lengi á skrifstofu símaskrár við skriftir og lestur á þeim góðu bókmenntum. Þá var nú engin skriftarstífla, bara strangar reglur sem fáir komust framhjá. Þýddi lítið að senda okkur eyðublöð með hnyttnum starfsheitum, við ritskoðuðum stíft og tókum hlutverk okkar í að hafa símaskrána virðulega, alvarlega.
En ég get varla verið alvarleg núna, drengurinn minn skríkir og skrækir, hættu hættu, meira meira, kitluleikur við pabba í gangi undir lágværu suðinu í rugby leik. Stöku sinnum brjótast út fagnaðarlæti. Pabbinn býst við einhverjir séu að fara að jafna. Svei mér þá, hann er að smita börnin mín.

Er nema von að ritgerðarsmíðar gangi hægt?

Seinvirk en prúð. Það er ég.

Lifið í friði.