1.12.07

varpand

Maður skyldi ætla að ritgerðarsmíðar milli þess sem skottast er um borgina með síðasta ÚRVAL ÚTSÝN hópinn ættu að vera blogghvetjandi. Hér sit ég pikkföst við tölvuna mína og reyni að koma skikki á hugsanir mínar, viskan flæðir um æðar en kemst ekki út nema öfugsnúin og óskiljanleg. Kannski efnisins vegna, þetta er dularfullt efni um kóðað tungumál þar sem öllu er snúið við. Kannski ætti ég að líma skrifborðið og tölvuna upp í loft og athuga hvort mér gangi betur? Kannski er ég bara vonlaus og allt þetta puð ekki til neins?
Ég get a.m.k. huggað mig við að þó að sumir séu þöglir sem gröfin og jafnvel frekar að strika út en annað, fara aðrir á kostum á mínum vel skipulagða og skýra bloggtenglalista sem vitanlega er í stafrófsröð. Ég gæti aldrei haft það öðruvísi, en ég vann líka lengi lengi á skrifstofu símaskrár við skriftir og lestur á þeim góðu bókmenntum. Þá var nú engin skriftarstífla, bara strangar reglur sem fáir komust framhjá. Þýddi lítið að senda okkur eyðublöð með hnyttnum starfsheitum, við ritskoðuðum stíft og tókum hlutverk okkar í að hafa símaskrána virðulega, alvarlega.
En ég get varla verið alvarleg núna, drengurinn minn skríkir og skrækir, hættu hættu, meira meira, kitluleikur við pabba í gangi undir lágværu suðinu í rugby leik. Stöku sinnum brjótast út fagnaðarlæti. Pabbinn býst við einhverjir séu að fara að jafna. Svei mér þá, hann er að smita börnin mín.

Er nema von að ritgerðarsmíðar gangi hægt?

Seinvirk en prúð. Það er ég.

Lifið í friði.