nautalifur
Í kvöld eldaði ég nautalifrarpottrétt í fyrsta sinn. Börnin umluðu af ánægju yfir þessu meyra kjöti.Kjötið í pottinum kostaði 3 evrur og var eiginlega helmingi of mikið. Þó að lifur sé góð er bragðið það frekt að ekki þarf mikið af því. Betra að hafa þeim mun meira grænmeti og góð rjómasósa er náttúrulega nauðsyn.
Ég brúnaði sem sagt tæp 600g af lifur í litlum bitum rúlluðum upp úr hveiti, pipar og salti ofan í sama potti og ég var búin að glæra lauk og mýkja gulrætur í sneiðum í. Lét nú bara grænmetið vera áfram í pottinum á meðan. Svo hellti ég tveimur, þremur vatnsglösum yfir, skar smá papriku ofan í og lét malla. Eftir um tíu mínútur bætti ég smá kartöflumjöli og góðri rjómaslettu og raspaði smá múskat yfir. Det var nu det. Gufusoðnar kartöflur með. Mjamm.
Mamma mín eldaði lifrarpottrétti reglulega handa okkur, ég hef alltaf verið hálfhrædd við að prófa. Nú verður þetta gert reglulega hér. Var samt hikandi með græn krydd, allar ábendingar vel þegnar.
Ég fæ mér reyndar alltaf reglulega kálfalifur á veitingahúsum, eiginlega alltaf ef boðið er upp á það í réttum dagsins. Lifur er hnossgæti. Skál fyrir því.
Lifið í friði.
<< Home