13.12.07

skriftarvöðvum haldið við

Ég held að ég hafi lokið við öll jólakortin til Íslands. Reynslan sýnir þó að yfirleitt poppa upp einhverjir gleymdir vinir eftir að búið er að senda bunkann. Hann er þykkur, það get ég sagt ykkur. Ég þori varla að nefna tölur, eiginlega hálfskammast mín fyrir hvað ég sendi mikið. Fer þó ekki upp í þriggja stafa tölu.
Mér er illt í bakinu og ég er örþreytt. Það tekur á að senda ástar- og saknaðarkveðjur. En gaman er það nú samt.
Á meðan hlustaði ég á tvær, þrjár Víðsjár og einn Orð skulu standa.
Svo prófaði ég Rás 2 í beinni, lenti beint inn á Jólagjöfin er ég og þú það er sælla að gefa en þiggja, þú vilt mig ég og þú... og fannst það ágætlega fyndið og dillaði mér smá. Svo kom eitthvað annað síbyljulag með hávaða og þá fann ég að þetta var bara ekki að gera sig. Rás 1 er eina útvarpsstöðin sem ég get hlustað á og notið, ég er algerlega komin með ofnæmi fyrir látum og hamagangi og gervigleði.

Svo er ég líka að lesa Tryggðarpant. Hún er sérkennileg, einhvern veginn er stíllinn í takt við aðalpersónuna sem er enn mjög óaðlaðandi. Mig langar að giska á að það sé viljandi og ef svo er, er það vel heppnað. Reyndar eru allar persónurnar óþægilegar, ég finn fyrir einhvers konar innilokunarkennd sem minnir kannski dálítið á tilfinninguna sem ég fékk þegar ég las Stúlkan í skóginum á sínum tíma. Hef aldrei þorað að lesa þá bók aftur. En ég er nú bara tæplega hálfnuð með Auði svo ég veit ekki hvert hún mun fara með mig.

Farin á pósthúsið.

Lifið í friði.