26.12.07

annar í jólum er ekki til í Frakklandi

takk fyrir engla

takk fyrir kveðjur

takk fyrir pakka

takk fyrir allt

Jólakaffið hjá tengdaforeldrunum í gær er, eins og öll önnur ár, eins og upp úr bók eftir Nathalie Sarraute.
Ég veit ekki hvort hægt er að lýsa þessu, verandi sjálf ekki af sama kalíber og Sarraute hef ég aldrei náð að lýsa almennilega fyrir fólki franskt búrgeisafjölskyldulíf.
Tengdapabbi og tengdamamma eru skrýtnar skrúfur. Sem betur fer hafa þau ákveðin skemmtileg element í sér, mér þykir mjög vænt um þau og þau eru takmarkalaust góð við okkur. EN þau eru ekki góð hvort við annað alltaf, og spennan á milli þeirra þegar þau taka á móti gestum er slík að þegar ég gekk út frá þeim í gær langaði mig mest af öllu að sparka í bílinn þegar ég opnaði hann. Ég stóðst þó mátið og í staðinn hoppaði ég og hristi mig og sagði OMMMM. Það náði aðeins að losa um streituna.
Á hverju ári er sami sirkúsinn: Hann hefur boðið okkur í drekkutímann, sykurmeti. Hún vill hins vegar að þetta sé "alvöru boð" og hefur því undirbúið nokkrar snittur. Svo keppast þau við að troða að okkur hvort sínum bakka og við eigum að velja lið. Nota bene: Frakkar blanda ALDREI saman sætu og söltu (þó vissulega sé farið að bera á þessu í haute cuisine er það ekki komið inn í fjölskyldurnar, sérstaklega ekki traditional búrgeisafjölskyldur). Þess vegna getur friðelskandi tengdadóttirin ekki gengið í bæði liðin og fengið sér bæði köku og snittu á diskinn.
Í gær bættist heldur betur ofan á hinn venjulega sirkús þegar í ljós kom að kampavínsflaskan hafði sprungið í frystinum. Ég var næstum því búin að sleppa mér þar, fjandakornið, ég stóð í eldhúsinu ALLAN DAGINN á undan að undirbúa fjögurra rétta máltíð, gat kallhelvítið ekki sett flöskuna í ísskápinn deginum áður!? Nei, það gat hann náttúrulega ekki því hann serverar vín með hangandi hendi því hann er svo mikill hófsemismaður að varla er hægt að segja að hann bragði áfengi. Það bitnar á okkur öllum, við þurfum að sitja undir því að um leið og hann býður í glas minnir hann "sætum rómi" á að einnig sé til óáfengt. Óþolandi tvískinnungur sem Sarraute hefur nokkrum sinnum náð að lýsa þannig að kalt vatn rennur milli skinns og hörunds lesanda.
Tengdapabbi var sem sagt í fýlu út af kampavíninu allt boðið og tengdamamman þóttist hughreysta hann við og við með því að segja að þetta væri örugglega lukkumerki, en var vitanlega um leið að snúa hnífnum í sárinu.

Annars: allt í svímandi góðu standi hér. Ekkert ofát, þannig lagað séð, bara mátulegt magn af önd og rauðvíni, súkkulaði og rjóma. Í dag fáum við gesti og vonandi næ ég að draga þau út í göngutúr, þ.e.a.s. nema ég nái að drattast út sjálf núna í hlaupaskónum, sukkjöfnun er vitanlega málið!

Bókin í jólapakkanum: Sumarljós og svo kemur nóttin. Tónlistin: Mugiboogie.

Lifið í friði.