12.12.07

ætlaði að skrifa um allt annað en þetta kom út

í eftirmiðdaginn fór ég í bæjarferð með dóttur mína og ástkonu, nei ég meina vinkonu, hennar. Förinni var fyrst heitið í föndurbúð þar sem ég hafði séð (og ekki keypt á stundinni en ekki hægt að hugsa um síðan) Eiffelturnapiparkökumót. Þegar við komum var fullt af hinum mótunum eftir, hreindýr, hjörtu, jólasveinar og eftir smá panikkennda leit fannst Eiffelturn aftast á einum hankanum. Mikið tók það í nískupúkann að sjá að öll mótin kostuðu 2,5 evrur nema Eiffel sem kostaði 4,5. Túristaníðingsháttur. Smá hik kom á mig enda sparsöm og útsjónarsöm og veit að hjörtun gera í raun sama gagn fyrir börnin (og hvað eru piparkökurnar nema fyrir þau) en túristaheilkenni mitt varð sparsemisþörfinni yfirsterkara.
Svo var gengið í gegnum Mýrina og niður í snobbsaumabúðina sem verður á nördasíðunni minni sem vex og dafnar og mun bráðum komast á netið, hvar litlu stúlkurnar fengu að velja sér borða í hárið. Saumakonunum þótti merkilegt hvað þær voru báðar hrifnar af bláu borðunum. Mér líka. Þarna voru bleikir borðar í runum og þær litu varla við þeim. Ætli þær stefni báðar óafvitandi á að verða alvöru cordons bleus?
Eftir erfiða verslunarferð var nauðsynlegt að kíkja á kaffihús. Þjónninn reyndist svo tryllt hrifinn af stúlkunum að á tímabili varð mér um og ó. Ég er ekki frá því að þær sjálfar voru hálfórólegar yfir óþægilegri ágengni hans. En heitt súkkulaðið rann ljúflega niður og ensku hjónin á næsta borði með koníaksstaupin náðu að rétta stemninguna af.
Þó maður sé lúser og hafi klúðrað einu prófi er nú lífið alltént ansi hreint fallegt.

Lifið í friði.