í dag í kvöld
Mér hefur liðið mjög undarlega í dag, blúsuð en samt ekki, eirðarlaus en yfirmáta löt.Ég er aldeilis óvön því að þurfa ekki fyrir neinu að hafa á þessum degi, kampavínið var löngu komið í hús og hefur kælst í ísskápnum í dag og það er eina verkefnið sem ég fékk fyrir kvöldið. Fer í mat til nágrönnu sem er listakokkur og hef hlakkað til að fá kvöldmatinn síðan ég opnaði augun í morgun.
Um miðjan eftirmiðdaginn ákvað ég nú að drífa okkur börnin aðeins út í bæjarferð, það var dálítið búið að vera að velkjast um í kolli mínum og ég vissi að ef ég reyndi ekki að kanna málið sæi ég hrikalega eftir því í kvöld.
Leiðin lá í hrekkja/búningabúð. Pínulítil þrælskemmtileg troðfull af frekar ódýru búninga og partýdóti. Þetta reyndist ekki hugmynd ársins þar sem biðröðin lá langt út á götu og troðningurinn og lætin voru slík að ég var næstum hætt við. Sérstaklega þegar ég fékk athugasemd frá starfsmanni um að það ætti varla að vera með börn þarna, ég var næstum búin að hreyta í hann að við værum greinilega ekki velkomin og strunsa út en svo náði ég að stilla mig og hélt mínu striki. Við höfðum troðninginn af og mér tókst að kaupa grímur á börnin í kvöld og þrjá pakka af því sem farið var að sækja... stjörnuljós voru það heillin.
Mér finnst gamlárskvöld alltaf frekar skemmtileg kvöld, þ.e.a.s. síðan ég fór á botninn í gamlársdjammi og skellti mér í Hollywood og skemmti mér svo illa að ég fór næstum grátandi heim af frústrasjón. Allt það ár var örugglega ónýtt, ég man það samt ekki.
Síðan þá hef ég alltaf haft vit á því að vera í góðra vina hópi, vernduðu umhverfi og í kvöld er engin undantekning.
Og mér finnst rakettur og brjálæði æðislegt. Og mér er skítsama þó þetta séu milljarðar, ég hef ekki séð þeim neitt betur varið peningunum, get varla ímyndað mér að gaurarnir sem mæta í flugeldasölurnar séu á leið með tékkheftin niður á Barnaspítala Hringsins. Mér finnst ég því eiga nett bágt að missa af því í kvöld.
En, ég segi bara skál og skemmtið ykkur fallega og fjörlega. Ég vona að veðrið leiki við ykkur þvert á hrakspár veðurfræðinga, hvað vita þeir svo sem?
Kærar þakkir fyrir árið sem er að líða. Og ekki segja mér að þessi tímamót hafi engin áhrif á ykkur, ég veit að þetta er kvöld eins og önnur kvöld en það að skipta um ár hefur undarlega mikla þýðingu, hvort sem fólki líkar betur eða verr.
Mig langar ferlega mikið að opna eina kampavín núna strax, fyrir kjólamátun. Á ég?
Lifið í friði.
<< Home