30.12.07

ekki læri

Þegar ég var loksins búin að sjúga nægan kraft úr internetinu (nota bene, ég fer ekki inn á síður sem pirra mig, kiki ekki til SFr, ekki á trú eða vantrú og læt fréttir ekki leiða mig inn á bloggsíður) dæsti ég hátt og nokkuð laglega, þó ég segi sjálf frá og tilkynnti manninum mínum þá áætlun að hafa lambalæri í hádegismat. Hann hélt nú ekki, skipaði mér að fara í sturtu og reyna að flikka aðeins upp á útlitið því hann ætlaði að bjóða allri fjölskyldunni út að borða í hádeginu. Þetta gerist sjaldan, svona drifkraftur í að gera sér dagamun hjá honum, yfirleitt er það ég sem rek alla upp og út að gera eitthvað skemmtilegt, svo vitanlega var boðið ekki afþakkað.
Við fengum okkur þistilhjörtu, ágætar pizzur og ís og tiramisu í desert. Mamman og pabbin fengu rauðvín með og allt. Svo var farið í Villette garðinn, Grande Halle nýuppgerð og fín skoðuð, bókabúðin þar reyndist hin skemmtilegasta þrátt fyrir smæð sína, þar skoðaði mamman innréttingarnar frá öllum hliðum, hreint brilljant smíði sem hægt væri að stela og stæla, börnin flettu risaútgáfu af ræningjunum þremur og pabbinn skoðaði lengi myndir af berum kéllingum og kannski eitthvað fleira líka.
Í garðinum fóru börnin tvær bunur í hringekjunni og, alveg satt, þar sem ég horfði á tólf litlar stelpur og einn strák dingla fótunum í róluhringekjunni, helltist yfir mig undarleg kennd um ofdekruð börn og fólk sem lætur eins og allt sé í lagi þegar það er kannski ekkert allt í lagi. Þess vegna fannst mér skrýtið að lesa þetta áðan.
Eftir hringekjuna átti að fara í stóru rennibrautina en hún er lokuð eins og öll leiktæki í París, líklega, þar sem hiti er við frostmark. Það er svo hættulegt að leika sér í frosti, það veit hver heilvita maður. Við gengum því á trumbuhljóðin í staðinn og horfðum á stóran hóp fólks berja misstórar trumbur í flottum takti áður en haldið var af stað heim með rjóðar kinnar og glit í augum. Það er alla vega einhvern veginn allt í allra besta lagi hér. Og fyrr skal ég hundur heita en hafa samviskubit yfir því og dettur ekki í hug að ala börnin mín upp í slíkum ósóma, eða ætti ég að segja hreisu?

Í kvöld hefur enginn áhuga á kjöti, hér er skorið niður grænmeti af fullum krafti undir ljúfum djasstónum, börnin leika sér með riddara og kastala, mamman hangir á netinu. Allt virðist eins og það á að vera. Blekking?

Lifið í friði.