12.12.07

búin

en engin gleði í huga mínum, bara vanmáttartilfinning. Þetta gekk alls ekki nógu vel, alveg hrikalega erfitt að sitja svona heima hjá sér við tölvu og eiga að koma einhverju skikkanlegu á skjáinn á tveimur tímum. Ég held að hér hafi hröðustu tveir tímar í lífi mínu verið að fara hjá.

Nú má aðventan koma til mín í öllu sínu veldi. Ég setti vitanlega upp fallega stjakann minn á réttum tíma en þarf að finna lyng eða eitthvað til að setja í hann.

Ég fór ódýrustu og lélegustu leið sem ég hef nokkurn tímann farið í dagatalamálum fyrir börnin, lét pabbann kaupa súkkulaðidagatal úti í búð. Það vekur slíka lukku að ég hef ekki haft snefil af samviskubiti yfir því. Þau eru andaktug þegar þau sjúga molann sinn á morgnana.

Ég leyfði íslenska jólasveininum ekki að koma í nótt, þeir verða bara að koma tveir á morgun, var ekki vont veður á Íslandi? Örugglega ófært.

Ég mun ekki lenda í jólastressinu svokallaða og skil ekki fólk að leyfa sér það.
Ég er jólabarn í hjarta mínu og ætla sannarlega að undirbúa dýrindis máltíð á aðfangadagskvöld, kaupa bók handa hverjum fjölskyldumeðlimi, langar að finna mér rauðar sokkabuxur (á viðráðanlegu verði) en það er ekki spurning um jól eða ójól, ég ætla kannski að baka nokkur horn, kannski ekki, ég ætla að leggjast í skáldsagnalestur og klára Bréf til Maríu sem ég byrjaði á í haust, búin að gleyma því hvernig maður les bara skólabækur þegar maður er námsmaður, ég ætla að skrifa öll jólakortin á morgun, búin að kaupa þau, skrifa á umslög að hluta og komin með myndina. Þau fara í póst á föstudag. Ekkert stress samt. Stressið er búið. Það tengdist prófum. Jólin eru bara tóm gleði.

Verst að mér líður eins og versta kjána sem uppi hefur verið. En það rjátlast kannski af mér í dag.

Lifið í friði.