30.12.07

sunnudagsmorgunn í rúminu með tölvuna

Þetta er sérlega skemmtileg, stutt og laggóð greining á Dýrunum í Hálsaskógi.

Í gær lagðist ég yfir myndagátuna. Hafði séð hana og leyst fyrstu setninguna á svekkjandi skömmum tíma en ekki lagst almennilega yfir þetta. Ég man þá góðu tíma er ég, Embla og pabbi þurftum að hringjast á, spá og spekúlera, jafnvel kalla til fjórða aðila. Vorum við heimskari eða voru gáturnar miklu snúnari? Toujours est-il að ég kláraði þessa barnagátu hratt og vel. Reyndar þurfti ég að bíða með síðasta orðið þar til í morgun. Það eiga að vera nokkrar slíkar þúfur í þessu. Og einhvern tímann í svefnrofum í nótt datt mér í hug að þetta gæti verið kannabis en furðaði mig á því um leið að hafa ekkert heyrt um það að kannabis væri að finna á Norðurskautinu. Mig vantaði auðlind, hún kom svo strax og ég leit á þetta í morgun.

Krossgátuna tekur ekki að tala um, fylli hana jafnhratt út og Lesbókargátuna. Komin með eina villu, ég vil ekki samþykkja að HREISA sé ÓSÓMA.

Ég man þau jólin mild og góð er bloggheimar voru morandi í spennandi spurningakeppnum, bókmennta- og myndagetraunum. Sem var eins gott því Mogginn er hættur að sjá okkur fyrir almennilegri heilaleikfimi. Þar vaða nú uppi fréttir af þotuliði, hlutabréfakaupendum og öðru pakki sem kemur mér ekki nokkurn skapaðan hlut við.
Lesbókin stendur alltaf fyrir sínu, þó þar fari sumt dálítið í taugarnar á mér, til dæmis skil ég ekki enn hvað allar þessar stuttu greinar um rokkara þurfa endilega að vera að taka pláss þar.

Eins gott að ég fékk tvö tölublöð af eðaltímaritinu Börn og Menning send til mín fyrir jólin. Greinarnar þar eru skemmtilegar, mátulega langar og fullar af spennandi fróðleik og upplýsingum. Ég sé að barnabókaútgáfa er að taka kipp og ferlega er ég hissa á að hafa hvorki heyrt um né séð nokkurn skapaðan hlut um útgáfu Árnastofnunar og Smekkleysu á gömlum upptökum af vísum, og bók með. Þetta er efni sem ég VERÐ að eignast og það fyrr en síðar.

Bíómyndin um ræningjana þrjá var frábær. Eru bækur Tomi Ungerer til þýddar á íslensku? Fá Íslendingar að sjá þessa yndislega hortugu mynd þó hún sé bara þýsk?

Sunnudagur. Síðasti sunnudagur ársins. Lambalæri í matinn í hádeginu, hér er einhver kjötorgía í gangi, en það er bæði kalt og rakt svo ekki veitir af fitu og járni í okkar viðkvæmu kroppa.

Lifið í friði.