21.12.07

hvítt

Tölvan mín er hvít eins og fegurstu jólin. Ég sá MacBook kallaða púðurdós sem skammaryrði í athugasemdum einhvers staðar. Mér finnst það ekkert skammaryrði. Ég á stóra fallega púðurdós.

Ég man eftir gömlu stóru hringlaga pappapúðurdósunum sem maður fékk frá ömmu þegar púðrið var úr henni (dósinni). Með risastórum púða. Gellupúðurdós.

Drengurinn minn er hvítur eins og tölvan en það er ekki eins fallegt. Hiti, nefrennsli, hósti, lystarleysi, almennur slappleiki en samt ofboðsleg stjórnsemi, hann biður um eitthvað í eymingjalegum vælutóni og svo þegar ég sprett ekki upp til að þóknast honum segir hann styrkum skipunarrómi: "tout de suite" og slær með hnefanum á sófann, gólfið, hægindastólinn. Þá verð ég að vera uppalandi og segi að svona tali maður ekki við mömmu sína en auðvitað neyðist ég til að gefa honum allt sem hann vill borða og drekka því ekki er mikið sem fer inn fyrir hans varir.

Það stefnir í óefni.

Læknisstefnumót í kvöld þó ég viti alveg hvernig það verður: læknirinn fær barnið til að hlæja, enda skemmtilegur kall, spyr svo hvað mamma sé að hafa áhyggjur og segir mér að gefa honum áfram hitalækkandi þegar mér þyki þurfa, þvo nefið með saltvatni, og halda áfram sírópinu. Sem sagt engin breyting, engin töfralausn.
En ég þori samt ekki öðru en að fara með hann, vinkonur mínar eru hneykslaðar á mér og svo eru jólin að koma og ekki nenni ég að vera með hann fárveikan uppi á slysó eftir tvo daga...
Ég er þó heppin að þau eru sjaldan veik, börnin.

Búin að finna Office-diskinn en á eftir að setja hann upp, ein spurning til gúrúanna: Í tölvu Arnaud náði ég aldrei að fá bókstafinn Ðð til að virka inni í Word. Það virkaði í Excel og í "find and replace" og þannig reddaði ég því, skrifaði z og skipti svo út fyrir ð. Ég man að maður fékk alls konar spurningar um kóða eða annað þarna í uppsetningunni, vildi maður allt klabbið eða smærri útgáfu og eitthvað svoleiðis. Á ég að varast eitthvað sérstaklega?

Lifið í friði.