17.12.07

líður

Tíminn líður víst og þó ég reyni að láta sem ég hafi allt of mikinn tíma til að gera allt of lítið því ég sé svo kúl og láti ekki narra mig út í hið illræmda jólastress verð ég líklega að horfast í augu við þá staðreynd.
Á laugardaginn bakaði ég piparkökur og bauð svo börnunum í götunni að koma í skreytingar. Sex börn frá 3ja til 5 ára, slatti af bleikum og grænum glassúr, penslar, túbur og perlur. Það var fjör. Ég ákvað strax að þetta yrði ekki endurtekið á næsta ári en er þegar búin að skipta um skoðun. Reyndar voru sumir áhugasamari en aðrir og greinileg kynjaskipting kom í ljós, strákarnir höfðu mun minni þolinmæði en stelpurnar sem sátu með tungu út á kinn við að reyna að raða litlu perlunum í munstur ofan í glassúrinn.
Í gær henti ég svo upp einhverju af skrautinu þegar ég var búin að jafna mig á pirringi morgunsins sem inniheldur fýluferð í IKEA af öllum stöðum. Þar var ég búin að týna ýmsan þarfa í poka en þegar ég komst að því að jólatrésfæturnir sem símadaman fullvissaði mig um að væru til, væru ekki til, henti ég pokanum frá mér og rauk út framhjá kílómetra röðum við kassana. Kjötbollluleysi í matvörudeildinni kórónaði svo allt.
Og nú þarf ég að fara aftur í IKEA því auðvitað ætla ég að kaupa helvítis snagana sem voru til í gær en ekki síðast.

Hvað í déskotanum get ég fundið sniðugt handa manninum mínum? Hann er ekki jólabarn og finnst þetta jólastúss hálfgert rugl, hann segist eiga allt og hann á LÍKA afmæli. Mig langar svo að koma honum á óvart með einhverju virkilega skemmtilegu. Double trouble.

Lifið í friði.