19.12.07

nýtt dót handa mömmunni

Ég er að skrifa á nýju tölvuna mína, ligga ligga lá.

Ég fékk þessa tölvu (MacBook) fyrir rúmri viku síðan. Þá var ég í próflestri og lá hún því óupptekin í kassa fram á miðvikudag. Þá var ég svo niðurdregin eftir slæma prófið að um leið og eitthvað vesen varð með nettenginguna gafst ég upp. Svo hef ég verið að gjóa augum á hana, tekið hana stundum og opnað, fiktað í hinu og þessu tilviljanakennt en einhvern veginn ekki gefið mér tíma í að athuga þetta með netið. Og fyrir mér er netlaus tölva gangslaus tölva. Því miður er ég ekki að skrifa ódauðlegt ritverk eða vinna annað gáfulegt. Ligg bara í misgáfulegum bloggum eða ramba um stórhættulegar vefsíður.

Málið var að ekki var hægt að vera með tvær tölvur í þráðlausri tengingu samtímis. Hefur verið vandamál hér þegar pabbi hefur verið í heimsókn. Og haldiði ekki að maðurinn minn hafi ekki bara eytt þessu vandamáli í dag? Eitt símtal og smá stillingar á netinu og VOILA. Ég ligg því hér í rúminu með mína tölvu meðan hann er frammi með sína tölvu. Alsæl hjón.
Nú þurfum við aldrei aftur að spila yatzy eða tala saman. Kannski eins gott því ég fékk ÞRJÚ yatzy í leik í fyrradag og grunar að maðurinn minn vilji aldrei spila það við mig aftur hvort sem er.

En það er samt annað vandamál. Ég get ekki hlaðið niður windows media player. Það kemur bara eitthvað skjal en ekki innsetningarforrit. Prófaði að hlaða niður Flip4Mac og það gekk en það virðist samt ekki virka fyrir RÚV. Og þá væntanlega ekki heldur fyrir námið eftir jól (og nú geri ég ráð fyrir að Grettir tölvukarl fái ekki að borða jólasteikina fyrr en hann er búinn að laga aftur það sem hann lagaði en aflagaðist svo þegar hann fór til útlanda).

Og svo finn ég ekki Office-diskinn. Það er smá bömmer en hann ER HÉRNA einhvers staðar.

Og ég er með nýja tölvu! Ligga ligga lá!

Lifið í friði.