17.12.07

gleypt eða smjattað

Síðustu daga hef ég úðað í mig tveimur skáldverkum, Tryggðarpantur hefur oltið um í höfði mínu, truflað mig og hrært í mér á einhvern undarlegan hátt. Ég mæli alveg með henni. Svo las ég nýjustu bók Arnaldar, Harðskafi, sem var hin besta "skemmtun", ég hef sérlega gaman af því að velta mér upp úr mannshvörfum og vil helst að þau haldist óupplýst, það kitlar einhverja ógnarlega löngun í mér, einhvers konar löngun í að hverfa sjálf einn góðan veðurdag, eitthvað sem ég veit þó að ég mun aldrei geta gert. Eða hvað? En djöfull var hún fljótlesin, það eiginlega fer í taugarnar á mér hvað ég var fljót að klára hana.

Þess á milli hef ég gætt mér á Þjónn það er Fönix í öskubakkanum mínum. Ljóðum getur maður (kona) ekki úðað í sig, ekki drukkið í sig, þar þarf að dreypa á hægt og rólega, varlega, smjatta, láta fara upp í góminn og undir tunguna.
Ég er ekki svekkt, ekki frústreruð (nema stundum) og held ég hafi algerlega vanmetið sjálfa mig og skáldin þegar ég sagðist ekki skilja ljóð á dögunum.
Útfærslan, affærslan, yfirfærslan á Tímanum og vatninu er náttúrulega bara nauðsynleg lesning hverjum þeim sem ólst upp við taumlausa dýrkun á Steini Steinarri, eins og ég gerði einmitt. Á mínu heimili var falleg útgáfa af þessu ljóði uppi í hillu og las ég þetta aftur og aftur í gegnum alla mína æsku. Og hef alltaf þráð að kunna þetta utanað en um leið aldrei drattast til þess að láta þann draum rætast. Ég á eftir að prófa að endurlesa þessa tilfærslu með upprunalega ljóðið til hliðar eins og ég sá einhvers staðar að ætti að gera.

Annars var dagurinn alveg í anda konu sem ætlar ekki að gera neitt fyrir jólin og fer því og kaupir enn einn Billy-inn, ber hann alein upp fimm hæðirnar, skrúfar hann upp (með skrúfvélinni að sjálfsögðu) og flytur til hinar ýmsu hillur og skápa til að koma honum fyrir.
Mér er illt nákvæmlega alls staðar.

Og Kári litli kom sjóðheitur og sljór heim úr skólanum, lagðist á gólfið og sofnaði meðan ég raðaði í hillur. Svo var hann fluttur yfir í náttföt og borðaði engan kvöldmat. Kannski ég eigi bara góðan letidag heima með hann á morgun, svona algerlega tilneydd?

Lifið í friði (stundum langar mig ógnarmikið að skrifa rest in peace).