3.12.07

nirfó

Fyrir nokkrum dögum síðan varð ég fyrir undarlegri lífsreynslu. Ég sá sjálfa mig fara út úr bílnum á rauðu ljósi, ganga að bílnum fyrir framan, rífa upp hurðina og lúberja ökumanninn. Ég, sem aldrei geri flugu mein, fann ofbeldislöngunina bókstaflega fara eins og loga um líkamann. Helvítis fíflið sem slapp við að verða fyrir líkamsárás hafði keyrt niður götu í hverfinu mínu, götu þar sem hámarkshraðinn er 50 km/klst. á ofsahraða, tekið fram úr tveimur bílum og næstum lent framan á bíl sem kom á móti, áður en hann þurfti svo að stoppa þarna á rauðu ljósi fyrir framan okkur "hægfara fólkið", mig og bílstjórann sem á eftir mér ók.
Ég hef oft orðið reið, en aldrei fundið (og SÉÐ) svona ofbeldisþörf hjá mér áður. Ofsaakstur í íbúðarhverfum hefur alltaf verið það sem langmest af allri slæmri hegðun í umferðinni, fer í taugarnar á mér. Aðallega vegna þess að í íbúðarhverfunum eru mestar líkur á að börn séu á ferli. Og mér finnst bara að það eigi að gera allar götur sem fólk býr við, kræklóttar og erfiðar til hraðaksturs. Svo eiga að vera gönguljós með reglulegu millibili og vitanlega þarf lýsing að vera góð og henni þurfa að fylgja blikkandi varúðarljós. Það er bara allt í fínu lagi með að það sé hunderfitt að aka í gegnum borgir.
Ég var alveg búin að gleyma þessu atviki um daginn þar til ég fór að lesa mér til um slysið á Íslandi. Og þegar ég sé að íbúar götunnar hafa lengi barist fyrir breytingum til að hægja á umferð er ekki laust við að önnur ólga ofbeldislöngunar brjótist um í mér. Þarf virkilega alltaf hörmungar til að koma stjórnvöldum í skilning um hlutina? Þetta er þá a.m.k. önnur mannfórnin á þessu ári í umferðinni, í sumar lést nefninlega ungur maður á stað sem lengi hafði verið bent á að væri fáránlega hættulegur.

Lifið í friði.