Lost Children e. Maggie Gee
Ég las einhvern tímann bók sem mér fannst ekkert sérstök en samt sat hún alltaf í mér og þá sérstaklega einn kafli. Bókin fjallar um konu sem vaknar upp við það að dóttir hennar er flúin að heiman og hún þarf að fara í gegnum allsherjar uppgjör við sjálfa sig og líf sitt.Sterkasti kaflinn, þ.e.a.s. kaflinn sem hefur alltaf setið í mér, er samtal hennar við bestu vinkonu sína sem eignaðist aldrei börn. Það kemur í ljós að þær hafa alltaf öfundað hvor aðra, sú barnlausa þráir að eiga mann og barn, gifta móðirin þráir líf hinnar einhleypu. Um leið hafa þær verið tiplandi á tánum í kringum hvor aðra, því einhvers staðar voru þær meðvitaðar um þrá hinnar og ólu með sér einhvers konar samviskubit gagnvart hvor annarri.
Ég er alltaf jafnhissa þegar fólk segir við mig að ég sé heppin að búa í París. Ég tel það ekki vera heppni, ég valdi að koma hingað og hef stundum staðið í ströngu, ég er innflytjandi, útlendingur, gestur, þó ég sé ljóshærð og bláeygð og sleppi þar af leiðandi við ýmsa niðurlægingu sem dekkra fólk þarf að þola hér sem innflytjendur.
En kannski er einhver heppni í þessu, einhvers konar örlög, þráður sem var spunninn á undan vali mínu? Ég veit það ekki, en ég fæ þá tilfinningu alla vega þegar ég horfi á börnin mín hér á gólfinu að tússlita. Valdi ég að eiga þessi börn?
Það má segja að einhverju leyti, ég fann mér mann, vandaði mig mikið við að leita að manni sem ég gæti hugsað mér að eignast börn með, hamraði og nöldraði í honum lengi áður en hann samþykkti að prófa og þar fram eftir götunum. En svo sér maður hjón sem hafa gert allt þetta en eignast samt ekki börn. Hvað með þau? Þau velja en fá samt ekki. Er þá hægt að tala um val? Velja þau að þjást árum saman í miserfiðum tilraunum við að fá óskina uppfyllta?
Lífið er margslungið.
Ég er greinilega komin í áramótablámakast.
Lifið í friði (og látiði mig í friði eins og Grýla sagði).
<< Home