rauðvín og söngur í rigningu
Það rigndi hjá sólkonungnum í allan eftirmiðdaginn. En hópur af íslenskum syngjandi víkingum lét það nú ekki á sig fá. Nýttum okkur marmarasúlugöng til að fá okkur rauðvín, osta og hráskinku og kórinn tók nokkur lög. Þangað til að verðinum fannst nóg komið því vitanlega eru öll svona hátíðahöld bönnuð nú á tímum. Það er af sem áður var þegar konungar tóku léttan ballett á góðum stundum og leyfðu Molière að vera með ádeiluleiksýningar sem allt liðið hló að um leið og það hélt áfram að níðast á lýðnum.
En þetta var mjög gaman, engar sektir og allir kvöddust sáttir. Yfirvörðurinn fékk það sem hann vissi um Ísland staðfest hjá okkur: við erum jú trúaðasta þjóð Evrópu og minnsta glæpatíðnin er hjá okkur. Gleymdirðu nokkuð að læsa bílnum elskan?
Ég er ekki enn búin að fá dagatalið, en ég sendi þessum kór geisladisk sem var mánuð á leiðinni heim svo ég örvænti nú ekki.
Lifið í friði.
Veðurspáin í dag: Létt rigning og mikil rigning til skiptis.
Ég: Í pikknikk í Versölum með 73 ferðalanga.
Nú reynir á mitt sérstaka sambandi við Loðvík 14. nefndur Sólkonungurinn.
Lifið í friði.
eyvindur með hor
Á mínu heimili hét kjöt í karrý Eyvindur með hor.
guðbergur og bloggarar í París
Guðbergur er einn af þessum mönnum sem er svo vel úr garði gerður að hann verður fegurri með hverju árinu sem líður. Ég er ekki búin að lesa hann í Blaðinu, en fæ myndina hans upp í hvert skipti sem ég kem að tölvunni. Og fæ verki, hann er svo fallegur.
Annars er ég að stelast, hef sko engan engan tíma til að tala við ykkur núna. 73 manns að koma á morgun og alltaf eitthvað sem þarf að skipuleggja. Og bæði börnin heima því allsherjarverkfallið og stóru mótmælin eru í dag. Og ég föst heima eins og við var að búast. Og ekki hægt að ná í helminginn af fólkinu sem ég þarf að ná í.
Slagorðið er: LA POLICE PARTOUT, LA JUSTICE NULLE PART. Lögreglan er alls staðar, réttlætið er hvergi.
Ef bloggið væri tengt við heilastöðvar mínar mynduð þið vita að ég er á fullu að útbúa prógramm fyrir væntanlega bloggaraferð til Parísar. Það er dálítið flókið, því auðvitað eru bloggarar sérstakt fólk, ofur kúltíverað og næmt fyrir umhverfi sínu. Engar venjulegar túristaleiðir duga fyrir slíkan hóp. Nei, það þarf að koma ykkur á óvart, gleðja fegurðarskyn og örva bragðlauka. Þetta verður gaman. Hvaða mánuður hentar ykkur best?
Lifið í friði.
líka stjarna
Ég var í Fréttablaðinu í gær.
Mikið er ég fegin að tæknileg skýring er á ofurnærveru ÁJ hjá Mikka vef á síðunni hennar Hildigunnar. Þetta hefur með fyrirsagnabreytingar að gera. Mjög lógískt og mér er létt. Eftir umhugsun held ég að ég vilji halda honum inni því hann er svo duglegur að skrifa og duglegur að eyða. En ég er búin að átta mig á einni sem má fara út af listanum mínum, það er ég sjálf. Frekar mikill óþarfi að hafa sjálfan sig þar, ekki satt? En ég nenni ekki að breyta neinu núna. Alveg uppgefin eftir flóamarkaðsferð í morgun.
Þetta var meiriháttar markaður, ódýr og troðfullur af skemmtilegu dóti og skemmtilegu fólki. Tannlausum kellingum að selja skítug glös, skítugum köllum að selja safnaradót eins og litlar dollur og smádrasl sem fólk eins og ég getur endalaust skoðað og girnst meðan mínímalistarnir í stílhreinu íbúðunum taka andköf yfir að annað eins skuli vera hægt að reyna að selja. Gaman að þessu. Ákvað að ég yrði að gera markaðssíðu á www.parisardaman.com síðunni minni. Vera með dagatal yfir næstu litlu markaði í nágrenni Parísar sem eru margfalt ódýrari en stóru föstu flóamarkaðirnir.
Enda sér maður kaupmennina þaðan vafra um á þessum mörkuðum. Um daginn keypti ég risastóran spegil á svona litlum markaði og sölumaðurinn var svo ánægður með að selja hann einhverjum sem ætlaði að hengja hann upp heima hjá sér. Benti mér á nokkra hrægamma sem stóðu álengdar og voru búnir að bögga hann allan morguninn að selja sér spegilinn fyrir skít á priki til að geta svo selt hann amerískum túrista á okurverði.
Á litlu mörkuðunum eru engir amerískir túristar. Hins vegar er fullt af arabakerlingum og þær kunna sko að prútta. Ég hálfvorkenndi sölukonunni sem seldi mér litlu hilluna og þvottabalann (sem ég féll fyrir þó ég viti alls ekki til hvers ég mun geta notað hann) sem barðist við tvær slíkar um verð á sófaborði. Þær eru ótrúlega sterkar, dökkar og svipmiklar með fagurlitar slæðurnar og standa bara þegjandi með óræðan svip meðan sölukonan pínist og engist í löngun til að ganga frá sölu. Og verðið sígur neðar og neðar eins og fyrir galdra. Þetta eru áreiðanlega galdranornir. Fallegar og góðar galdranornir. Mig langar stundum svo að vera svona dökk og svipmikil og geta borið svona slæður. Ég er eins og trúður með slæðu.
Hitastigið var 17 gráður í dag. VORIÐ ER KOMIÐ.
Við misstum einmitt eina klukkustund úr lífinu í morgun. Það er þessi óþolandi vorboði, tímabreytingin. Fer alveg hrikalega í taugarnar á mér þó vitanlega sé stundum gaman að græða klukkustund á haustin.
Lifið í friði.
ritskoðun
Ég ætla að fara eftir ryksjúgandi fótboltamanninum og taka ÁJ einn góðan veðurdag út af Mikkalistanum mínum, því, eins og hann bendir sjálfur á, getur hann ekkert að þessu gert.
Hann gæti náttúrulega, eins og við öll hin, látið bloggfærslurnar sínar í friði. En ég býst við að þetta sé nú samt réttur hans að breyta sínu eigin bloggi eins oft og hann vill.
Ég hef einu sinni breytt færslu. Þá hélt ég um tíma að ég væri að missa góðan vin. Það var hræðilegt.
Annars læt ég allt standa eins og það kemur út úr kúnni. Um daginn las ég fullt af gömlum skrifum í leit að ákveðinni færslu sem ég fann ekki. Annað hvort át einhver ógurlegur ormur þá speki eða ég ruglaðist gersamlega á ártölum eða ég veit ekki hvað. Alla vega varð mér stundum um og ó, hvílíkt rusl sem er að finna þarna.
Munur að vera orðinn reyndur og gamall bloggari núna.
Allt svo fágað, úthugsað og ber merki um andlegt atgervi og þroska.
Færsla númer tæplega fimmhundruð, s'il vous plaît.
Lifið í friði og skál á laugardagskvöldi í boðinu!
Blaðið í París
Einn af fyrrverandi eftirlætis bloggurunum mínum, Uppglenningur, sagði skilið við bloggheima og fór að vinna á Blaði í raunheimum greyið litla (þetta á ekki að vera niðrandi, sagt í fúlustu umhyggju).
Hann var settur í erlendar fréttir, er hægt að ímynda sér nokkuð leiðinlegra, já, líklega, get til dæmis nefnt bókhald og endurskoðun, en nú er hann komin í helgarblaðið sem hlýtur að vera skemmtilegra og í dag er opna eftir hann á bls. 20-21.
Ég þekki þessar myndir og sumt af textanum, en mikið er ég stolt af honum og ánægð með að Terra Nova býður helgartilboð í júlí og ágúst á sömu síðum, skemmtileg tilviljun, ekki satt?
Ég treysti því að ákveðin vinkona mín komi með þetta út til mín, láttu ekki eins og þú sért ekki þarna, ég sé þig vel!
Blaðið er ekki í París, en París er í Blaðinu og er það vel.
Lifið í friði.
Bloggdívan í rauðu kápunni er flott í Blaðinu í dag.
Ég á eftir að lesa Lesbókargreinina hennar því fyrir mistök hætti ég að fá Moggann minn í mars og er nú með þrjú ólesin blöð sem bárust mér í einum búnka og hafa enn varla verið opnuð. Jú, reyndar datt Lifun út úr einu blaðinu og fletti ég því og sá mér til ánægju að gagnrýni mín hefur verið tekin til greina og fólk sem ekki er mínimalískt í lífinu er nú heimsótt. M.a.s. hlustað á vinylplötur í eldhúsinu á einu heimilanna. Sko til!
Og ég á sem sagt alveg eftir að lesa fræðilegar úttektir á Silvíu Nótt og Gilzenegger. Það litla sem ég hef kynnst af Gilzenegger segir mér að rangt sé að bera þau saman. En ég undirstrika það að ég þekki hann mjög lítið.
Í morgun var í fyrsta sinn hægt að fara út án þess að herpast allur saman af kulda. En í staðinn rignir eldi og brennisteini.
Ég keypti mér græna flauelskápu á útsölu útsölunnar, var búin að girnast hana lengi og í dag hafði hún hrunið niður um enn meiri pening og ég nýbúin að fá greidda þýðinguna í janúar svo ég sló til.
Kannski ég fái mér rauða tösku, kallist á við stíl bloggarans?
Kannski.
Ferlega er veðrið óhuggulegt, en þetta er áreiðanlega gott fyrir gróðurinn.
Mér líður svo skringilega. Er örþreytt en samt langar mig til að vera að gera eitthvað og samt eirðarlaus og veit ekki hvað ég á að demba mér í. Kannski tilboðið sem ég lofaði að yrði til í gær? Já, best að skella sér í það. Verðleggingar eru verstar.
Í morgun varð mér hugsað til manns sem sagði einu sinni við mig á Laugaveginum, þegar ég var nýlent og furðaði mig enn og aftur á háu verðlaginu þarna á Fróni: "Bara selja sig dýrt". Ég veit ekki hvað hann er að gera í dag, langar svo sem ekkert mikið að vita það, en væri samt til í að vita hvort hann selur sig.
Lifið í friði.
elegantaður
Það var mér töluvert áfall þegar ég áttaði mig á því að þetta skemmtilega orð var eitthvað allt annað. Elgtanaður?
Lifið í friði.
Púúki
Puuki invit
Originally uploaded by parisardaman.Ein af Parísardömunum, hún Elva klæðskeri, saumar barnaföt og selur.
Hún verður með sölu föstudaginn 24. mars, kl. 17-20 í Aratúni 40 í Garðabæ heima hjá Katrínu systur sinni.
Ég hvet ykkur til að fara að skoða, allir eru velkomnir og engin skylda að kaupa.
Fötin eru saumuð úr japönskum efnum og hafa flest þann yfirnáttúrulega eiginleika að vaxa með börnunum. Þannig verður síðpils smám saman minipils, kjóll breytist í mussu o.s.frv. Strákafötin eru einnig sérlega skemmtileg og frumleg, þægilegar mussur og víðar léttar buxur.
Þessari undursamlegu bómull má svo stinga í vél og hún kemur straujuð út.
Lifið í friði.
varnarmat og annað röfl
Ég bara verð að benda ykkur á varnarþarfamat Hreins Hjartahlýs.
Svo er ég með einhverja fréttasíðukomplexa og finnst ég tilneyðast til að segja ykkur frá breytingum á mótmælafundinum. Stóri fundurinn hefur verið færður fram á þriðjudag í næstu viku. Þá verð ég alein með hvolpana og öruggt að ég kemst hvorki lönd né strönd með þau. Og mun eyða deginum í að vera áhyggjufull yfir manninum mínum sem vinnur utandyra við bóksölu við Signubakka. Það eru nefninlega helvítis læti í hluta mótmælenda. Samkvæmt fréttum eru það aðallega menntaskólakrakkar sem virðast heldur líta á þetta sem tækifæri til að skemma skólabyggingar en nokkuð annað. En hver getur tekið mark á fréttum? Ekki ég.
Ég hef alltaf haft blendinn hug gagnvart fólki sem skemmir til að láta í sér heyra. Mitt friðsama eðli segir mér að það sé rangt en reiði engillinn í höfðinu segir mér að kannski sé þetta eina leiðin til að auðvaldið leggi niður ósýnileg en mun ógeðfelldari eyðileggingarvopn sín og hlusti.
Ég held að ég sjálf myndi aldrei skemma neitt en ég get ekki alltaf leyft sjálfri mér að fordæma aðra fyrir það. Ég er jú til dæmis alveg örugg gagnvart þessum nýju lögum, því ég er komin yfir þennan aldursflokk sem verið er að troða á. Og treysti því statt og stöðugt að peningakerfið verði hrunið og horfið áður en börnin mín ljúka háskóla.
Svo mörg voru þau orð. Börnin komin inn svöng og köld. Farin.
Lifið í friði.
ömurð
Frábær ljóð í frábærum upplestri í Kastljósi síðasta föstudagskvöld.
Og nú hefur sannarlega bæst við kafli í grein sem Davíð nokkur lofaði í Lesbók á dögunum um stöðu ljóðlistar á Íslandi í dag.
Ég á stefnumót við bankakall kl. 10 og tannlækni kl. 16. Ömurlegur dagur.
Það verður allsherjarverkfall á fimmtudag og skóli dóttur minnar hefur tilkynnt þáttöku. Hver vinnustaður kýs innbyrðis hvort það verður lokað eða ekki. Og hver starfsmaður má reyndar fara í verkfall einn og sér líka þannig að sumar skrifstofur þrjóskast við að opna en eru á hálfum hraða.
En það stefnir í góða þáttöku á fimmtudag og það er næstum sama hvert maður fer, í búð eða á bókasafn, maður spyr um verð á peysu eða hvort þessi bók sé til og fær til baka skítkast út í forsætisráðherra. Ég hélt fyrst að fólk gerði sér grein fyrir að ég væri móðir lítilla barna en í gær hljómaði það frekar eins og konan hefði áhyggjur af því að ég sjálf fengi svona samning í hausinn. Eins og þið vitið er þetta fyrir fólk upp að 26 ára og ég er örlítið eldri en það. Örlítið. En alltaf jafnungleg og sæt. Ræð ekkert við þetta.
Ég verð líklega með fimm börn í hádegismat á fimmtudag í staðinn fyrir að standa öskrandi niðri í bæ.
Lifið í friði.
ahbu
Ef eitthvað var eftir af kampavíni í blóði mínu, náði Nicolas, viðurstyggilegi leikfimikennarinn minn því úr í morgun. Verst að hann er mjög sætur og skemmtilegur en í rassæfingunum eyðilagði ég alla drauma um að eiga í leynilegu ástarsambandi við þjálfarann minn með því að slefa hressilega ofan í dýnuna EINMITT þegar hann leit á mig. Mjög smart hjá mér. En að vissu leyti þungu fargi af mér létt. Nú get ég bara mætt með bumbuna út í loftið án eftirsjár og gert æfingarnar eins og mér er tamt, minni stundum á fíl í ballettæfingum...
Ég treysti mér ekki með börnin í stóru mótmælagönguna á laugardaginn. Mig langar til að mótmæla þessum nýju fáránlegu lögum sem rífa öll réttindi af ungu vinnandi fólki enda er ég sannfærð um að þeir ætla að byrja á unga fólkinu og færa sig svo hægt og rólega upp.
Smátt og smátt á að taka frá okkur öll réttindi sem afar okkar og ömmur börðust harkalega fyrir, ekki fyrir svo löngu síðan. Og þið getið alveg haldið að fíflin hér í Frakklandi séu einir um svona aðgerðir, ó nei, ég lofa ykkur því að þetta sama mun verða reynt í öðrum löndum, og eflaust ekki síðast á Íslandi.
Kapítalisminn grefur undan öllu sem heitir mannréttindi, öllu því sem okkur þykir svo sjálfsagt í dag en er svo stutt síðan varð sjálfsagður hlutur, það að geta fengið frí þegar börnin eru veik, það að fá pásu til að teygja úr sér eða reykja við og við, þetta eru allt "týndar krónur" í hugum auðvaldsins og auðvitað vilja þeir taka þetta frá fólkinu. Að hika er sama og að tapa hjá þessum ráðamönnum.
Reyndar skrifaði blaðamaður hjá Fígaró grein þar sem hann útlistar fáránleika þessara laga og segir að eðlilegur stjórnandi sem vilji halda góðum anda hjá starfsfólki sínu geti aldrei boðið svona samning. Þetta sé svo fáránlega út í hött að fólk geti unnið í tvö ár án nokkurs starfsöryggis, að þetta muni ekki verða nýtt nema af fávitum. Hm. Mér finnst allt of mikið af fávitum í heiminum til að treysta því að svona samningar verði einhver undantekning.
En ég treysti mér ekki í mótmælagöngur með börnin, mér finnst reyndar engin ástæða til að vekja börn undir fimm ára aldri til umhugsunar um svona mál, leyfi þeim heldur að njóta saklausrar æsku sinnar dálítið lengur. Ég reyni að útskýra fyrir þeim að auglýsingar séu plat, en það er eina ógnin sem steðjar að þeim núna og það er nóg að mínu mati.
Lifið í friði.
gaman gaman
Ofboðslega var gaman í gær. En mikið er ég þreytt í dag. Enda fór ég seint að sofa.
Það er ekkert smá gaman að hitta svona margar konur og spjalla og ég verð nú bara að segja að konur sem búa í París eru bæði fallegar og skemmtilegar að eðlisfari.
Nú líður mér eins og litlu börnunum. Oh, er þetta búið? Ég vildi að við gætum hist oftar.
Kvöldið hófst með kampavínsglasi í Baccarat, kristalsbúð við Madeleine torgið. Það var mjög gaman að skoða og heyra hvernig glösin eru búin til og tókst konunni sem sagði frá að sannfæra okkur um að ofurhátt verð glasanna er sanngjarnt. Það eru um 60 manns sem vinna við að handgera hvert glas og lýsingarnar eru stórkostlegar, hún notaði orðið ballett, það standa allir í hring og glasið gengur milli manna sem hver um sig hefur ákveðið hlutverk í ferlinu, engar vélar, bara rör, klípur og hnífar til að skera og móta. Það er voða gaman að drekka úr fínu glasi, en ég er þó alls ekki sannfærð um að ég verði að eiga svona glös enda er maðurinn minn glasamorðingi mikill og ég bara hreinlega nenni alls ekki að þurfa að vera svekkt yfir því að glas brotni við og við. Ikea verður áfram okkar glasabirgir.
Og hringarnir og armböndin eru ferlega flott líka, heppin ég að nota aldrei skartgripi.
Veitingastaðurinn, Le Berkeley á avenue Matignon var líka vel þess virði, flottur, góð staðsetning og fín þjónusta. Fer á túristasíðuna innan skamms.
Svo var ég að borða hörpudisk hjá nýja kokknum á Café de la Paix við gömlu óperuna á dögunum. Það var ljúft og mæli alveg með málsverði þar fyrir fólk sem vill gera sér glaðan dag. Íslensk kona sér um hópapantanir hjá Grand Hotel og á Café de la Paix og hægt að fá góð tilboð hjá henni í gegnum mig.
Það er nóg að gera, en ég finn það nú samt að í dag verður hvíldardagurinn haldinn heilagur. Best að skríða aftur undir sæng með kvenspæjaranum í Botsvana og njóta þagnarinnar sem ríkir þar til börnin koma heim með pabbanum.
Mikið er lífið fallegt. Ætli ég sé ennþá í kampavínsrússi? Já, líklega, enda vel veitt í partýinu hjá einni af flottustu parísardömunum sem bauð okkur öllum heim til sín eftir matinn.
Ferlega er ég í góðu skapi. Ég elska ykkur öll (já, það er ljóst að ég er enn með kampavín í blóðinu).
Lifið í friði.
glas af köldu vatni
Mig langar ógurlega mikið í glas af íslköldu íslensku vatni einmitt núna. Og einhvern veginn hefur álfunum á þingi tekist að gera þessa löngun að einhverju stórundarlegu tilfinningamáli.
En ég er langt frá íslensku vatni og mun því ekki ganga í birgðirnar í dag. Í staðinn ætla ég að hita mér vatn í grænt te og sötra það meðan ég færi mig í partýgallann. París verður máluð rauð í kvöld og nótt af hópi íslenskra snóta.
Ef ég væri á Íslandi, myndi ég skutla í mig glasi af vatni og skella mér svo á homma eða lesbíumyn í Regnboganum.
Lifið í friði.
eimskip, búluvarðajónas og getraun
Eimskip er gott fyrirtæki. Það heyrði af vandamálum mínum með dagatal og ætlar að senda mér eitt. Það finnst mér góð þjónusta. Ég er að vísu góður kúnni því ég hef tvisvar flutt yfir hafið, fram og til baka. Og hver veit nema einn góðan veðurdag flytji ég enn og aftur? En ef það á að vera raunhæfur möguleiki verðið þið að kjósa rétt, hvaða sem það nú getur verið og berja hugmyndir um fleiri álver og virkjanir á bak aftur.
Ég kem og tek þátt í stóru mótmælunum í sumar, ef ég mögulega get.
Nú vantar bara fréttir af bókinni hans Jónasar um París. Einhver? Hildigunnur ætlar að athuga hjá Braga, takk fyrir það. En ef einhver hefur aðrar hugmyndir eru þær vel þegnar.
Þetta er fyrsti föstudagurinn í einhvern tíma sem inniheldur ekki kvikmyndagetraun. Það er leitt. Það er líka leitt að við þáttakendurnir í svínslegu getrauninni í síðustu viku höfum ekki enn fengið svörin. Það er næstum jafnsvínslegt og getraunin sjálf.
Lifið í friði og góða helgi.
tilgangur lífsins
Ég ætla ekki að þykjast hafa fundið tilgang lífsins fyrir alla, en ég held samt að ég viti nokkurn veginn hverju ég sjálf stefni að í lífinu.
Ég vil lifa mátulega þægilegu lífi, ég vil alls ekki vinna of mikið, og ég vil að vinnan mín sé gefandi fyrir mig. Ég vil eiga góðan tíma með börnum, manni og vinum mínum. Mér er skítsama þó ég eigi ekki fínustu græjurnar og flottasta sófann, ég vil samt geta látið mér líða vel heima hjá mér og vinn t.d. stöðugt í að gera það betra.
Hvað heiminn varðar, allt þetta sem snýst ekki um minn litla heim sem enginn annar á en ég sjálf, finnst mér friður og verndun umhverfisins skipta lang lang mestu máli. Mér er alveg sama hvaða land er ríkast í peningum, hvað þá hvaða kall er ríkastur. Ég get ekki skilið vopnakeppni, hernaðarbrölt og valdabaráttuna. Mér er það lífisins ómögulegt að skilja hvers vegna við getum ekki öll lifað saman í sátt og samlyndi. Ég get líklega aldrei komið á heimsfriði, en ég vinn samt á minn oggupínulitla hátt að því að sá fræjum sem ég vona að verði að einhverju meira og stærra seinna meir.
Ég skil ekki vinstristinnaða pólitíkusa á Íslandi sem vilja halda áfram að tilheyra hernaðarbandalögum og eiga "varnar"samninga.
Ég er týnd.
Lifið í friði.
til hamingju ísland
Ég óska okkur öllum til hamingju með að herinn ætli að fara. Fín grein á Múrnum sem vekur m.a. athygli á að mikilvægt verður að huga að umhverfismálum þegar þrifið verður upp eftir þá.
Ég hef oft saknað ömmu minnar Helgu, en sjaldan eins mikið og einmitt núna. Ég vildi óska að hún hefði lifað þetta, það var jú hún sem kenndi mér slagorðið ÍSLAND ÚR NATÓ, HERINN BURT. Og lét mig kreppa lítinn hnefann upp í loft um leið.
Lifið í friði.
1954
Árið 1954 kom fyrsta litasjónvarpið á markað. Sama ár kom fyrsta þunglyndislyfið líka á markað. Maðurinn sem ég var að lesa viðtal við spurði sig einhvern tímann hvort tenging væri þarna á milli. Hann minnti einnig á að þetta ár fór fyrsti kjarnorkukafbáturinn á haf út. Sprengjan hafði verið til um tíma, en nú var hún allt í einu orðin hreyfanleg og þá enn meira ógnvekjandi. Eins gott að áhyggjufullar húsmæður gátu fengið uppáskrifað róandi og drukkið vodkatónik með yfir litasjónvarpinu.
Spurning dagsins er: Hver er maðurinn?
Lifið í friði.
málgleði á röngum stundum
Maður getur röflað og rausað um eitthvað tilfinningamál, eitthvað sem manni FINNST en hefur kannski ekki nógu mikinn heimspekigrunn eða er nógu vísindalega þenkjandi til að tjá sig um það án þess að vera hjákátlegur.
Svo skrifa ég um París, sem er líklega það sem ég gæti farið að kalla mig "sérfræðing" í, miðað við allar bækurnar sem ég hef þjösnast í gegnum, öll sporin sem ég hef tekið hérna. Sjálflærð, vissulega, hef hvorki tíma til né efni á að taka fína prófið í Louvre skólanum, en helvíti fróð um borgina, sögu hennar og fylgist vel með þróun hennar í dag.
Af hverju dúndraði ég þá ekki fullt af skemmtilegum upplýsingum í kaflann hér á undan um Latínuhverfið? Líklega vegna þess að ég er andlaus og líður eins og ég gæti ímyndað mér að undinni tusku líði.
En hér kemur einn fræðandi punktur fyrir þá sem hafa áhuga (ég vil taka það fram að þetta kemur fram í gönguferð minni um Latínuhverfið sem verður farin á föstudögum í næstum því allt sumar). Latínuhverfið var sem sagt, eins og öll gömul og varðveitt hverfi, með allar götur hellulagðar, litlum kubbslaga hellum sem heita PAVÉ á frönsku. Þessir kubbar voru notaðir sem vopn í námsmannabyltingunni 68. Þegar andófinu lauk og friður komst á sendu borgaryfirvöld stórar malbikunarvélar á svæðið og þess vegna eru flestar göturnar á hæðinni malbikaðar, sem og hið stóra breiðstræti, boulevard Saint Michel, sem liggur frá Signu og upp framhjá Sorbonne og hvar mestu lætin eru í dag.
Enn í dag þykir þó smart að fara á einn af mýmörgum veitingastöðum hverfisins og panta sér "pavé saignant" sem er blóðug nautasteik og minnast hellukubbanna sem ataðir voru blóði lögreglumannanna.
Og talandi um breiðstræti, mig langar ógurlega mikið að eignast gömlu bókina hans Jónasar um París. Ef einhver veit um einmana eintak sem engan langar lengur í en ekki hefur samt verið hent, er ég kaupandi. Ég hef lesið bókina, en mig langar að eiga hana í safninu mínu. Jónas talar alltaf um búluvarða, sem vakti mikla kátínu mína á sínum tíma. Ég nota frekar breiðgata eða breiðstræti en hef alltaf verið í vandræðum með að greina milli avenue og boulevard.
Lifið í friði.
stúdentaóeirðir eða mótmæli
Ég hef oft séð eftir því að hafa ekki verið í París í maí 68 þegar stúdentar gerðu uppreisn og tóku Sorbonne háskólabygginguna í Latínuhverfinu í gíslingu. Lögreglan ruddist inn og braut þar með friðhelgi háskólastofnunarinnar og allt varð vitlaust. Göturnar, allar hellulagðar, voru rifnar upp með rótum og steinum hent í höfuð lögreglumanna sem létu kylfurnar hiklaust vaða í alla þá uppreisnarseggi sem þeir náðu í (skv. lýsingum m.a. frá tengdamömmu).
Um helgina ruddist lögreglan aftur inn, barði einhverja krakka og fékk stóla og bekki í hjálmvernduð höfuð sín í staðinn. (Ég er ekki viss hvort rétt sé að tala um óeirðir, máltilfinning mín vill frekar tala um mótmæli, en ég sá að strax á laugardaginn var hafði Fréttablaðið notað óeirðir á forsíðu.)
Og ég var hérna rétt hjá en samt er ég svo langt í burtu. Það verður annars spennandi að sjá hvað verður úr þessu, samkvæmt prófessor í Sorbonne segist hann finna mikla ólgu og hann hefur aldrei séð jafn góða mætingu á fundi sem þýðir að nú hafa námsmenn fengið nóg af heimskum ákvörðunum heimskrar ríkisstjórnar (hvar sá ég þetta nýlega hjá bloggara um íslensku ríkisstjórnina? Er sama helvítis ruglástandið alls staðar? Heimskt fólk að stjórna illa?).
Það eru ekki mörg ár síðan námsmönnum tókst að fá ríkisstjórn til að draga hluta af lagabreytingum um svipað efni til baka. Nú verður spennandi að fylgjast með, verst að þora ekki í kröfugöngu með börnin. En það er áhugavert að spá í það að þrátt fyrir orðið óeirðir á forsíðu a.m.k. eins blaðanna á laugardag, hefur engum í fjölskyldunni minni dottið í hug að athuga hvort ekki sé örugglega allt í lagi með okkur hérna. Doði, ónæmi gagnvart orðum. Hættulegt fyrirbrigði.
Lifið í friði.
skipulagsleysi
Það er svo mikið um að vera, margir mismunandi hópar með mismunandi þarfir. Þarf að panta rútur, veitingastaði og fleira fyrir alls konar fólk með alls konar drauma. Einn lítill hópur kemur á föstudaginn og ég ætla ekki að lýsa því hvað ég hlakka til að standa og þylja sögur fyrir framan fólk. Sumir koma ekki fyrr en í júní. Og það er svo flókið að halda utan um þetta. Hvernig GAT ég misst af dagatölum? Ég næ þessu ekki. Hér er lífsins ómögulegt að fá veggdagatal núna, og var m.a.s upp úr miðjum janúar. Eru enn til falleg með Íslandsmyndum heima? Kannski ég ætti að láta senda mér eitt slíkt, er það ekki voða mikið við hæfi fyrir útlaga eins og mig? Ég reddaði þessu reyndar áðan með því að búa til töflur og fylla inn tölur og daga í tölvunni, og er búín að fylla samviskusamlega inn eitthvað af hópunum. En þetta er samt ekki nógu gott, vantar áminningu um frídaga og svoleiðis. Ah, já, þess vegna vildi ég einmitt alltaf frönsk dagatöl. Núna man ég.
Er engin lausn á þessu skemmtilega vandamáli?
Á manneskja eins og ég að kunna að nota einhver ægileg agenduforrit í tölvunni?
Ég er að bilast og væri líklega orðin klikk ef ég hefði ekki drifið mig í leikfimi í morgun. Ferlega er gott að fara í leikfimi. Af hverju hef ég ekki gert það í mörg ár? Ferlega er ég þreytt á að vera svona ein að pillast við tölvuna. Mig vantar að hitta fólk. Fólk? Halló? Eruðiðarna?
Getið hvað er núna eftirlætis sjónvarpsefni barnanna minna? Jú, aukaefnið á hinni bráðskemmtilegu DVD útgáfu á Dýrunum í Hálsaskógi frá Þjóðleikhúsinu. Í aukaefninu er myndbrot frá 1977 uppsetningunni. Þegar ég sá þetta fyrst, fór ég að gráta. Bessi og Árni. Oh. Ég man þegar ég var einu sinni sem oftar að selja rauða kross merki og bankaði upp á í húsi í Neðra Breiðholti (já, ég var úr Efra Breiðholti en ég var ofvirk í merkjasölu, fór um allan bæ og vann Heimsmetabók Guinness einhvern tímann sem söluhæsta barnið í skólanum (ásamt Láru frænku)) og þar kom Bessi Bjarnason til dyra. Ég kiknaði í hnjáliðunum og leyndi því ekki að ég þekkti hann. Hann keypti af mér merki um leið og hann umlaði eitthvað um að þetta væri barnaþrælkun að senda svona lítil börn í sölumennsku. En það má minna á að ég leit alltaf út fyrir að vera nokkrum árum yngri en ég var. Og geri reyndar enn. Bessi var flottur. Og Árni er það líka. Og börnunum mínum finnst þeir æði. Vilja sjá "hvíta og svarta klifurmúúús".
Gaman að því. Allt fer í hringi. Tóma hringi.
Ég mæli með þessum DVD fyrir alla, hvort sem þeir eiga börn eða ekki. Falleg sviðsmynd (Brian Pilkington), góður leikur (ýmsir), fín myndataka (Friðrik Þór) og stórkostleg myndbrot frá 1977. OG AÐALKOSTURINN ER: ENGAR AUGLÝSINGAR. Mér finnst að banna eigi auglýsingar við barnaefni. Sigga Beinteins má nú fara að vara sig, Söngvaborg 3 er líklega fjórfalt meira auglýsingabrall en hinir tveir til samans.
Lifið í friði.
yfir kaffibollanum
Í morgun, yfir kaffinu, ræddum við hjónin frelsi, réttindi og skyldur.
Maðurinn minn sagði mér að Zinoviev, Tarkovski og Soljenitsyne sem allir réðust gegn kommúnismanum í heimalandi sínu, Rússlandi, hefðu viðurkennt að á einhvern undarlegan máta væri fólkið í Rússlandi að vissu leyti frjálsara en fólkið í hinum frjálsa vestræna heimi því hérna megin frelsismúrsins ríkti svo mikil ringulreið og hver træði á öðrum á meðan að í Rússlandi hjálpaðist fólk meira að og höfðu öll sömu hagsmuna að gæta.
Einnig benti Sojenitsyne á að það væri léttir að geta sagt sér að í Rússlandi skrifuðu blaðamenn það sem þeim væri skipað að skrifa ellegar væru staða þeirra og líf í hættu meðan vestrænir blaðamenn gengust sjálfviljugir undir yfirvöld og leptu upp eftir þeim áróðurinn.
Út frá þessu spunnust umræður um að fólk krefst sífellt réttinda sinna en gleymir að öllu frelsi fylgja skyldur og ábyrgð. Þá sagði maðurinn minn mér að Simone Weil (sem ekki má rugla saman við Simone Veil) hefði lagt til að birt yrði yfirlýsing á skyldum mannkynsins við hliðina á mannréttindayfirlýsingunni sem varð til 1789 í frönsku stjórnarbyltingunni.
Hún hafði mikið til síns máls en vitanlega sá enginn ástæðu til að gera neitt úr því. Frumskógarlögmálið fræga hentar nefninlega mun betur en þessi þvæla um skyldur okkar.
Mér fannst ástæða til að deila þessu með ykkur enda örlát með afbrigðum.
Lifið í friði.
illvirkjun
Í sumar verða mótmæli við Kárahnjúka. Mig minnir að áætlað sé að byrja 21. júlí, mér fannst það merkileg dagsetning þar sem ég sendi börnin mín með afa sínum og ömmu til Grikklands í frí þann 20. júlí. Við verðum sem sagt barnlaus hjón í tvær vikur. Ætluðum að vinna eins og svín og græða fullt af péningum en kannski líka leyfa okkur svo sem eins og þriggja daga tjaldferð bara við tvö ein og ástfangin. Nú er ég alvarlega farin að spá í hvort tjaldferðin verði ekki á hálendi Íslands sem er í stórhættu vegna fólksins sem lýðurinn kaus til að stjórna landinu.
Ég þarf aðeins að spá í þetta en í dag virðist flest benda til þess að þið getið hitt mig á Kárahnjúkum í lok júlí. Ég var nefninlega um daginn búin að tengja ál við vopn með hugboði og nú var ég að rekast inn á síðu Sigga Pönk þar sem ég fékk staðfestingu á því.
Ef það er eitthvað sem ég þoli ekki, þá er það uppgjafartónn. Þegar ég heyri fólk segja að Kárahnjúkum verði ekki bjargað úr þessu, fussar litla brjálaða veran í höfði mínu. Það er ALDREI of seint að bæta hlutina. Aldrei. Öllum er viðbjargandi. Öllum.
Nú er spurningin bara hvort ég eigi að draga fleiri með mér héðan. Hópferð til bjargar íslensku hálendi. Ætli maður þurfi ekki að panta flugmiða núna strax? Ég á engan péning í augnablikinu því LÍN (sem, eins og farfuglinn minnti á um daginn rímar við svín) gróf holu í reikninginn minn á dögunum. Greiðsla sem ég borga reyndar alltaf með bros á vör því ég er mjög þakklát fyrir að hafa getað verið hér í Frakklandi á námslánum. Þó að í denn bölvaði ég oft stóra tætaranum sem virtist staðsettur fyrir framan faxtækið þeirra og sé alltaf jafnhissa á "þjónustunni" hjá þessari lánastofnun.
En, ég ætlaði ekki að rausa um Lín hérna. Ætlar þú á Kárahnjúka? Vertu með eða vertu lumma.
Lifið í friði.
tékkað inn
Ég er hérna og allt í lagi með mig. Reyndar svo mikið allt í lagi með mig að ég hef bara engan tíma til að sitja í tölvunni og þar af leiðandi engan tíma til að blogga. Ég endurtek nú samt hugmyndir mínar um að fá tölvu sem er beintengd við heilann, því meðan maður er að vinna líkamlega vinnu hugsar maður stundum svo skýrt og ég skal alveg játa það að í gær voru þessar hugsanir (skýrar og gáfulegar) oft í bloggfærslustíl. Þ.e.a.s. jafnóðum og ég hugsaði þær, setti ég þær í "bloggstíl". Get ekki útskýrt þetta nánar, en er nokkuð viss um að flestir bloggarar vita nákvæmlega hvað ég meina. A.m.k. hugsandi bloggarar.
Ég pantaði manninn minn fyrir tæpum mánuði í að vinna með mér hér í íbúðinni. Það gerðum við í gær og tókum niður vannýtta gestaherbergið í innri stofunni, það var forláta tvíbreið koja sem er nú komin í öreindir og niður í geymslu. Stofurnar hafa stækkað um 5 fermetra og nú er ég loksins komin með pláss fyrir nýjan flensted óróa (flensted-mobiles.com). Hef beðið lengi eftir því. Héðan í frá mun einhver falleg abstrakt svífa yfir tölvunni í staðinn fyrir blessaða kojuna sem hálfýtti manni ofan í stólinn.
Hvað gesti varðar, eru þeir ávallt velkomnir, við munum alltaf hafa einhver ráð með að útbúa gott hreiður fyrir þá hérna. Gistinæturnar (er þetta ekki voða flott hagfræðimál?) voru of fáar miðað við plássið sem kojan góða át frá okkur sem lifum hérna. Nú eru komnir krókar til að hengja upp tjald til að loka innri stofunni þegar þess þarf.
Svo er tveimur rússneskum ljósakrónum færra í íbúðinni, komnir þessir fínu ikea kúplar sem kosta minna en ekki neitt í þeirra stað.
Það eina sem ekki gekk upp hjá okkur var ljósið á baðinu sem gerir það að verkum að við þvoum okkur í myrkri fram á sunnudag þegar Bubbi Benoît Byggir kemur okkur til bjargar.
Annars er fín viðbót við fínu greinarnar hér fyrir neðan að Fjallabaki.
Ég er farin í leikfimi og teygjur, veitir ekki af eftir gærdaginn. Úhú, ég er í svo góðu skapi!
Lifið í friði.
einvígi
Kannski hefur mikið "querelle" eða ritdeila milli hvalsins Hauks og Sigurjóns Sjónar farið framhjá einhverjum.
Ráðlegg ykkur þó að setja ykkur inn í málið, þetta er hin besta skemmtun, eitthvað annað en fruntaleg skrif Sverris Hermannssonar eða vælið sem að jafnaði vellur um síður dagblaðanna.
Þarna eru tveir góðir pennar og hugsandi menn að deila um þetta mikilvæga vafaatriði teiknimyndamálsins ógurlega sem skilur milli þeirra sem líta á málið sem þarft prófmál í málfrelsi og þá sem líta á að ókeypis móðgun við venjulegt fólk sé óþarfa sport og misnotkun á málfrelsi.
Fyrst skrifaði hvalurinn
þessa grein.
Sjón svaraði
með þessum orðum.
Hvalur stökk upp úr flensunni og
ungaði þessu út sér til varnar.
Mér finnst ekki gaman að horfa á hnefaleika, hef ekki sérlega gaman að íþróttum en þetta eru skylmingar að mínu skapi. Áfram Haukur! Komdu nú með svar við þessu Sjón!
Lifið í friði.
konur menningartákn
Það er grein um mig og mína líka á Hugsandi. Er það rétt að fólk sé ekki sátt við að ég endaði með manni af erlendu bergi brotinn?
Ég veit það ekki sjálf. Hef aldrei lent í því að neinn segi það við mig. Ég man að mamma var dálítið svekkt þegar ég var "komin með franskan" en ég taldi það stafa af óskum hennar um að ég settist aftur að á Íslandi.
Hins vegar skil ég afskaplega vel eina konu sem býr hér og á son sem er tvíþjóða sem fór og fann sér íslenska konu.
Ég skil ánægju hennar yfir því að þannig er tryggt að börnin hans fíla sig vel íslensk, ekki bara "frönsk en eiga íslenska ömmu". Kannski er þetta tengt þessari "íslensku þjóðernisvitund" og sannar innbyggðan vilja íslenskra kvenna til að viðhalda íslenskri menningu? Þó við förum burt af landinu og eigum börn með útlendingum?
Lifið í friði.
hnifar
Falleg fréttin á mbl.is um hnífaburð manna. Algengt að menn séu með hnífa á sér? Ég hef aldrei vitað til þess að neinn maður sem ég þekki sjái ástæðu til að bera á sér hníf.
Ég þekki nokkra stráka og m.a.s. einhverjar stúlkur sem hafa gaman af hnífum enda eru þetta fyrirtaks verkfæri í t.d. eldhúsinu eða úti í vinnuskúr. En að mæta með hníf á "skemmti"staðina. Ha?
Hvað hefur gerst í lífi fólks sem telur sig ekki öruggt óvopnað úti á götu? Mig hryllir við tilhugsunina.
Líklega er ég alveg ferlega ofvernduð og alin upp af fólki sem sýndi hvert öðru temmilega virðingu um leið og léttur húmor yfir lífinu sveif yfir vötnum æsku minnar. Við vorum einmitt að komast að því, ég og maðurinn minn, að þetta stendur okkur fyrir þrifum í sambandi við að verða fræg fyrir skriftir hér í Frakklandi. Allir ungir rithöfundar hafa verið misnotaðir eða barðir, ein horfði á pabbann skjóta móðurina 8 ára gömul og horfði svo í smástund inn í hlaupið áður en byssunni var snúið að honum sjálfum og hleypt af og alls konar svona hremmingar. Við fengum bara bévítans ástúð og örvun. Til hvers?
Værum kannski meira kúl með hnífa og voða reið.
Lifið í friði.
svik og morð
Mér finnst það óþægileg tilhugsun að vita að ráðherrar skuli vera opnir fyrir því að taka vinnu út í bæ og yfirgefa ráðuneytið sisona. Mér finnst það hljóti að gera þessa embættismenn veikari fyrir.
Svo finnst mér það líka sýna virðingarleysi að yfirgefa embættið á miðju kjörtímabili, fínt djobb og allt það, en nú býðst mér betra, thank you very much good bye. Er þetta vitleysa í mér? Er ráðherraembætti bara eins og hver önnur stjórnarstaða í hvaða fyrirtæki sem er? Er það bara ég sem er með einhverja væmni gagnvart löggjafarvaldinu og ábyrgðinni sem fylgir því að vera kosinn af þjóðinni og allt það?
Í þættinum mínum, vikuskammti mínum af sjónvarpsefni, Arrêt sur Images, var fjallað um hið viðustyggilega mannrán og morð sem framið var hér í nágrenni Parísar í febrúar. Ungur drengur var í haldi hóps fólks í þrjár vikur á meðan þau reyndu að fá fjölskylduna til að greiða lausnargjald. Á endanum skildu þau hann eftir í blóði sínu á víðavangi og lést hann á leið á sjúkrahús.
Nú er hátt rifist um það hvort glæpurinn sé sprottinn af gyðingahatri eður ei. Málið er að drengurinn var (líklega) valinn vegna þess að aumingjarnir sem rændu honum ákváðu að þar sem hann væri gyðingur, hlyti hann að vera ríkur. Og, eins og kom fram í símtölum þeirra til fjölskyldunnar, ef foreldrar hans ættu ekki pening, gætu aðrir gyðingar borgað fyrir hann því nóg væri af ríkum gyðingum í Frakklandi.
Fjölskyldan og hluti af gyðingasamfélaginu hér í Frakklandi vilja því meina að glæpurinn sé kynþáttaglæpur sem gerir hann í raun verri en ef "eingöngu" um auðgunarbrot er að ræða.
Í þættinum í gær sátu blaðamaður á Le Monde, sagnfræðingur sem er sérhæfð í gyðingdómnum og útvarpsstjóri gyðingaútvarpsstöðvar sem hefur mikið fjallað um málið, var strax í sambandi við fjölskylduna og vill meina að morðið sé sprottið af gyðingahatri. Blaðamaðurinn og sagnfræðingurinn voru ekki sammála honum og miklar og góðar rökræður spunnust þar sem minnt var á að auðvitað er stereótýpan RÍKUR GYÐINGUR ákveðinn rasismi og deilt um hvort mark sé takandi á harmi sleginni fjölskyldunni.
Persónulega held ég að öruggt mál sé að þetta voru heimskir aumingjar sem vita minnst um trúmál og þeirra eina leiðarljós í lífinu er annar guð, almáttugur og stjórnsamur, peningarnir. Ég geng svo langt að segja að það sé skammarlegt fyrir þessa ræfla að þau héldu drengnum í þrjár vikur og misþyrmdu honum reglulega fyrir ekkert annað en peninga. Að það hefði hreinlega verið skárra ef trúarleg sannfæring hefði legið að baki.
Mér finnst þessi skítaheimur stundum svo viðbjóðslegur og hlakka svo til að losna við kapítalismann og péningana. Sá dagur hlýtur að koma. Hlýtur að koma. Þá fyrst kemst friður á í heiminum. Þá fyrst getum við farið að einbeita okkur að því að deila með okkur auðævum jarðarinnar og verið sátt.
En þangað til skulum við hugleiða klisjuna um að flest morð og flest stríð hafi verið framin og háð í nafni trúarinnar. Trúarinnar á hvað? Er ekki hægt að tengja flest morðin og flest stríðin valdabaráttu sem fólst helst í að hafa völdin yfir peningunum og náttúruauðlindum sem gáfu peninga sem gáfu ofurjarðnesk völd yfir fólkinu í heiminum?
Lifið í friði.
kvennakvöldið
Já, það gleymist alveg að plögga kvennakvöldið í París hérna. Það verður sem sagt 18. mars nk. Brjáluð stemning. Enda veturinn hreinlega að verða búinn (er það ekki? er hann ekki að verða búinn? HA?).
Ég byrjaði að standa fyrir þessu að gamni mínu fyrir nokkrum árum, þá barnlaus og áhyggjulaus djammari. Síðan hefur alltaf verið til þess ætlast af mér að sjá um þetta. Ég hef hingað til gert það með glöðu geði, m.a.s. árið sem ég var komin á steypirinn þegar að þessu kom. En þetta árið var þetta erfiðara. Ég þurfti að finna nýjan stað, og það óx mér alveg ferlega í augum. Með hjálp frá annari parísardömu, hafðist þetta þó að lokum. Spurning hvort ég heimti að einhver önnur bjóði sig fram í undirbúninginn á næsta ári eða hvort ég treysti á að þá verði ég hressari enda verða þá bæði börnin komin á geymslustofnunina "maternelle". Ef staðurinn er góður núna, verður þetta náttúrulega mun minna mál.
Annars ætla ég að útbúa létt sönghefti og allar tillögur að auðsyngjanlegum lögum fyrir konur sem sumar hafa verið í útlöndum í meira en 20 ár.
Aðalfréttirnar eru náttúrulega þýska sambýliskonan mín fyrrverandi sem fann mig í gegnum þessa bloggsíðu. Það er ánægjulegt, enda hef ég oft reynt að gúggla henni og aldrei fundið neitt af viti. Svo hefur hún gúgglað mér og fundið mig, enda mun sérstakara að heita Kristín Jónsdóttir en Stefanía Símons.
Var á flóamarkaðnum í St. Ouen í kulda og sól. Keypti fallegan tréfisk frá Senegal og ræddi fiskveiðar og fiskveiðiþjóðareinkenni heillengi við sölukarlinn. Svo keypti ég fínt trékoffort sem ég féll fyrir þó ég viti hvorki hvar ég á að koma því fyrir, né hvað ég ætla að geyma í því. Það bara öskraði á mig.
Alveg eins og Nóa kroppið gerir. Það er kannski ekki gert út lífvænum efnum, en lifandi er það. Í hvert skipti sem ég geng inni í eldhús, bankar það á nammiskáphurðina þar til ég opna og fæ mér lúku. Einn daginn lá því svo á að það henti sér út úr skápnum og dreifðist um allt gólf. Sem betur fer er nú stóri pokinn búínn og ég ætla að geyma þennan litla lokaðan og læstan ofan í dollu í a.m.k. tvo næstu daga.
Hvenær kemur blessaður vorhitinn?
Lifið í friði.
drama
Þar sem ég veit að einhverjir lesendur hafa gaman af fjölskyldusögum, vil ég benda á "einn og átta" tengilinn. Fjölskyldusagan mín mun koma þar fram í einhverjum bútum næstu vikurnar. Einn dramatískasti hluti hennar er þar einmitt núna.
Og svo minni ég á mini-getraun hér fyrir neðan.
Lifið í friði.
spennandi líf húsmóðurinnar
Ég tapaði enn og aftur kvikmyndagetrauninni og viðurkenni að síðasta uppástunga mín var algerlega lömuð eins og unglingar sögðu fyrir nokkrum árum. Ég segi mér það hins vegar til varnar að ég var á kafi í ferlega spennandi norskri mynd. Allt í einu kom smá kafli þar sem andrúmsloftið var létt upp með litlu kómísku atriði og þá setti ég á pásu, hljóp í tölvuna og leit á nýju vísbendinguna. Þessi mynd sem ég hef aldrei séð, Reality bites, var það eina sem skaut upp í kolli mínum.
Svo sökkti ég mér aftur ofan í svartan norskan þrillerinn og fyrsta hugsunin þegar stafirnir runnu yfir skjáinn í lokin var: Ekkert af þessum myndum passar almennilega við allar vísbendingarnar.
Settist aftur við tölvuna og þá var Hanna litla búin að skjóta mér og öllum öðrum þáttakendum ref fyrir rass.
Þannig að nú fáið þið að geta: Hvaða mynd var ég að horfa á? Það eru komnar tvær vísbendingar, norsk, þriller.
Lifið í spennu en samt í friði. (Raddirnar í höfði mínu sögðu mér að ef ég hefði bara spennu myndi öll von um heimsfrið verða að engu).
höfnun
Í gær gerði ég tilboð í lítið verkefni. Ég var búin að setja mér ákveðið verð, en maðurinn minn sannfærði mig um að hækka það. Ég ákvað að fara eftir honum, minnug umræðna sem spruttu upp hér á síðunni fyrir einhverju síðan um verð fyrir þýðingarstörf þar sem í ljós kom að karlar settu upp mun hærra verð en konur.
Ég fékk ekki vinnuna. Ég mun aldrei vita hvort ég hefði fengið hana á mínu verði.
Lífið er stundum hart.
Og ferlega rignir, það er myrkur hér inni, kveikt á lömpum um tvöleytið. Í mars.
Minni á föstudagskvikmyndagetraun Hjartar, það er allt of dræm þáttaka og hann sem byrjaði að semja þessa á þriðjudag, svínslega erfið, lofaði hann.
Lifið í friði.
fegurðarsamkeppni tapar
Ég lýsi yfir ánægju minni og stolti yfir ungum stúlkum á Vestfjörðum sem skráðu sig ekki í fegurðarsamkeppni. Þetta vona ég að sé merki um nýja tíma, að ungum stúlkum finnist þær ekki þurfa að stíga á pall og metast um líkamsburði eða gott hjartalag eins og stjórnendur þessara undarlegu viðburða hamast við að segja mikilvægasta punktinn.
Ég hvet alla lesendur mína til að letja ungar stúlkur í kringum þá til að skrá sig. Þannig gæti þetta barn síns tíma loksins tekið enda, því það er jú víst að meðan auglýsendur halda áfram að styrkja, meðan keppnin malar gull, halda stjórnendur áfram að glepja ungt fólk til þáttöku.
Annars hef ég ekkert til að kveina yfir. Það er rigning, húsið er að gráta. Ekki ég.
Lifið í friði.
mars
Helvítis mánaðarmót eina ferðina enn. Og þessum beið ég eftir í einhverri falskri von um að veðrið myndi lagast, að vorið léti á sér kræla eftir að febrúar lyki. Það er sko áreiðanlega ekki tilviljun að febrúar er stystur, þetta hlýtur að vera leiðinlegasti mánuður ársins. Mér er alveg sama þó að dóttir mín sé fædd í febrúar (og fleira gott fólk sem ég þekki) þetta er samt skítamánuður í mínum huga.
Og svo kom mars og í morgun skein sólin inn um gluggann en þegar maður leit út blasti undarleg sjón: Allir bílarnir í götunni voru orðnir hvítir. Og gangstéttarnar líka. Vetur konungur er ekki alveg tilbúinn til að fara og gefa vorinu plássið.
Náði ágætis myndum af börnunum í skemmtilegum göngutúr í morgun. Við gengum um skóglendið hér fyrir ofan sem er lokað með óhrjálegri girðingu og á ólæsanlegu og síopnu hliðinu er skilti sem biður mann vinsamlega um að fara ekki inn á svæðið vegna hættu á jarðsprengjum. Þarna veltum við okkur um í snjónum (eða börnin veltu sér um í blöndu af aur og snjó) og komum heim með alla útlimi. En þegar við gengum niður götuna meðfram þessu óhirta svæði hrundi frekar stórt dautt tré í brekkunni. Þá fór nú dálítið um mig. Ég er hræddari við að slíkt gerist aftur en að mér takist að finna þarna blett sem enginn hundur, köttur eða maður hefur ekki gengið yfir áður og að ég springi í loft upp. Mig langar helst ekki til að dauðdagi minn verði að kremjast undir fúnu tré.
En mikið væri nú ægilega gott ef að æðri máttarvöld gætu fundið hundaflensu og látið hana geisa yfir París fljótlega. Ekki það að ég vilji blessuðum hundspottunum neitt illt, þeir eru bara það sem þeir eru og haga sér samkvæmt því. Það yrði bara góð lexía fyrir eigendur að spá í hvort helvítis skíturinn sem þeir skilja eftir þá út um allar trissur gæti verð lífshættulegur. Myndi kannski kenna þessu óalandi og óferjandi pakki að hirða upp eftir dýrin sín. Þurfti að þvo hundaskít úr úlpu við heimkomu.
Steig ekki á jarðsprengju í dag en nú voru nágrannarnir hér fyrir neðan að koma úr vinnu og byrja strax að öskra og æpa. Vaknaði líka við það í morgun. Ef þau skilja, reyni ég að skrapa saman aur og kaupa íbúðina þeirra.
Lifið í friði.