tilgangur lífsins
Ég ætla ekki að þykjast hafa fundið tilgang lífsins fyrir alla, en ég held samt að ég viti nokkurn veginn hverju ég sjálf stefni að í lífinu.Ég vil lifa mátulega þægilegu lífi, ég vil alls ekki vinna of mikið, og ég vil að vinnan mín sé gefandi fyrir mig. Ég vil eiga góðan tíma með börnum, manni og vinum mínum. Mér er skítsama þó ég eigi ekki fínustu græjurnar og flottasta sófann, ég vil samt geta látið mér líða vel heima hjá mér og vinn t.d. stöðugt í að gera það betra.
Hvað heiminn varðar, allt þetta sem snýst ekki um minn litla heim sem enginn annar á en ég sjálf, finnst mér friður og verndun umhverfisins skipta lang lang mestu máli. Mér er alveg sama hvaða land er ríkast í peningum, hvað þá hvaða kall er ríkastur. Ég get ekki skilið vopnakeppni, hernaðarbrölt og valdabaráttuna. Mér er það lífisins ómögulegt að skilja hvers vegna við getum ekki öll lifað saman í sátt og samlyndi. Ég get líklega aldrei komið á heimsfriði, en ég vinn samt á minn oggupínulitla hátt að því að sá fræjum sem ég vona að verði að einhverju meira og stærra seinna meir.
Ég skil ekki vinstristinnaða pólitíkusa á Íslandi sem vilja halda áfram að tilheyra hernaðarbandalögum og eiga "varnar"samninga.
Ég er týnd.
Lifið í friði.
<< Home