5.3.06

kvennakvöldið

Já, það gleymist alveg að plögga kvennakvöldið í París hérna. Það verður sem sagt 18. mars nk. Brjáluð stemning. Enda veturinn hreinlega að verða búinn (er það ekki? er hann ekki að verða búinn? HA?).
Ég byrjaði að standa fyrir þessu að gamni mínu fyrir nokkrum árum, þá barnlaus og áhyggjulaus djammari. Síðan hefur alltaf verið til þess ætlast af mér að sjá um þetta. Ég hef hingað til gert það með glöðu geði, m.a.s. árið sem ég var komin á steypirinn þegar að þessu kom. En þetta árið var þetta erfiðara. Ég þurfti að finna nýjan stað, og það óx mér alveg ferlega í augum. Með hjálp frá annari parísardömu, hafðist þetta þó að lokum. Spurning hvort ég heimti að einhver önnur bjóði sig fram í undirbúninginn á næsta ári eða hvort ég treysti á að þá verði ég hressari enda verða þá bæði börnin komin á geymslustofnunina "maternelle". Ef staðurinn er góður núna, verður þetta náttúrulega mun minna mál.

Annars ætla ég að útbúa létt sönghefti og allar tillögur að auðsyngjanlegum lögum fyrir konur sem sumar hafa verið í útlöndum í meira en 20 ár.

Aðalfréttirnar eru náttúrulega þýska sambýliskonan mín fyrrverandi sem fann mig í gegnum þessa bloggsíðu. Það er ánægjulegt, enda hef ég oft reynt að gúggla henni og aldrei fundið neitt af viti. Svo hefur hún gúgglað mér og fundið mig, enda mun sérstakara að heita Kristín Jónsdóttir en Stefanía Símons.

Var á flóamarkaðnum í St. Ouen í kulda og sól. Keypti fallegan tréfisk frá Senegal og ræddi fiskveiðar og fiskveiðiþjóðareinkenni heillengi við sölukarlinn. Svo keypti ég fínt trékoffort sem ég féll fyrir þó ég viti hvorki hvar ég á að koma því fyrir, né hvað ég ætla að geyma í því. Það bara öskraði á mig.
Alveg eins og Nóa kroppið gerir. Það er kannski ekki gert út lífvænum efnum, en lifandi er það. Í hvert skipti sem ég geng inni í eldhús, bankar það á nammiskáphurðina þar til ég opna og fæ mér lúku. Einn daginn lá því svo á að það henti sér út úr skápnum og dreifðist um allt gólf. Sem betur fer er nú stóri pokinn búínn og ég ætla að geyma þennan litla lokaðan og læstan ofan í dollu í a.m.k. tvo næstu daga.

Hvenær kemur blessaður vorhitinn?

Lifið í friði.