26.3.06

líka stjarna

Ég var í Fréttablaðinu í gær.

Mikið er ég fegin að tæknileg skýring er á ofurnærveru ÁJ hjá Mikka vef á síðunni hennar Hildigunnar. Þetta hefur með fyrirsagnabreytingar að gera. Mjög lógískt og mér er létt. Eftir umhugsun held ég að ég vilji halda honum inni því hann er svo duglegur að skrifa og duglegur að eyða. En ég er búin að átta mig á einni sem má fara út af listanum mínum, það er ég sjálf. Frekar mikill óþarfi að hafa sjálfan sig þar, ekki satt? En ég nenni ekki að breyta neinu núna. Alveg uppgefin eftir flóamarkaðsferð í morgun.

Þetta var meiriháttar markaður, ódýr og troðfullur af skemmtilegu dóti og skemmtilegu fólki. Tannlausum kellingum að selja skítug glös, skítugum köllum að selja safnaradót eins og litlar dollur og smádrasl sem fólk eins og ég getur endalaust skoðað og girnst meðan mínímalistarnir í stílhreinu íbúðunum taka andköf yfir að annað eins skuli vera hægt að reyna að selja. Gaman að þessu. Ákvað að ég yrði að gera markaðssíðu á www.parisardaman.com síðunni minni. Vera með dagatal yfir næstu litlu markaði í nágrenni Parísar sem eru margfalt ódýrari en stóru föstu flóamarkaðirnir.
Enda sér maður kaupmennina þaðan vafra um á þessum mörkuðum. Um daginn keypti ég risastóran spegil á svona litlum markaði og sölumaðurinn var svo ánægður með að selja hann einhverjum sem ætlaði að hengja hann upp heima hjá sér. Benti mér á nokkra hrægamma sem stóðu álengdar og voru búnir að bögga hann allan morguninn að selja sér spegilinn fyrir skít á priki til að geta svo selt hann amerískum túrista á okurverði.
Á litlu mörkuðunum eru engir amerískir túristar. Hins vegar er fullt af arabakerlingum og þær kunna sko að prútta. Ég hálfvorkenndi sölukonunni sem seldi mér litlu hilluna og þvottabalann (sem ég féll fyrir þó ég viti alls ekki til hvers ég mun geta notað hann) sem barðist við tvær slíkar um verð á sófaborði. Þær eru ótrúlega sterkar, dökkar og svipmiklar með fagurlitar slæðurnar og standa bara þegjandi með óræðan svip meðan sölukonan pínist og engist í löngun til að ganga frá sölu. Og verðið sígur neðar og neðar eins og fyrir galdra. Þetta eru áreiðanlega galdranornir. Fallegar og góðar galdranornir. Mig langar stundum svo að vera svona dökk og svipmikil og geta borið svona slæður. Ég er eins og trúður með slæðu.
Hitastigið var 17 gráður í dag. VORIÐ ER KOMIÐ.
Við misstum einmitt eina klukkustund úr lífinu í morgun. Það er þessi óþolandi vorboði, tímabreytingin. Fer alveg hrikalega í taugarnar á mér þó vitanlega sé stundum gaman að græða klukkustund á haustin.

Lifið í friði.