22.3.06

varnarmat og annað röfl

Ég bara verð að benda ykkur á varnarþarfamat Hreins Hjartahlýs.

Svo er ég með einhverja fréttasíðukomplexa og finnst ég tilneyðast til að segja ykkur frá breytingum á mótmælafundinum. Stóri fundurinn hefur verið færður fram á þriðjudag í næstu viku. Þá verð ég alein með hvolpana og öruggt að ég kemst hvorki lönd né strönd með þau. Og mun eyða deginum í að vera áhyggjufull yfir manninum mínum sem vinnur utandyra við bóksölu við Signubakka. Það eru nefninlega helvítis læti í hluta mótmælenda. Samkvæmt fréttum eru það aðallega menntaskólakrakkar sem virðast heldur líta á þetta sem tækifæri til að skemma skólabyggingar en nokkuð annað. En hver getur tekið mark á fréttum? Ekki ég.
Ég hef alltaf haft blendinn hug gagnvart fólki sem skemmir til að láta í sér heyra. Mitt friðsama eðli segir mér að það sé rangt en reiði engillinn í höfðinu segir mér að kannski sé þetta eina leiðin til að auðvaldið leggi niður ósýnileg en mun ógeðfelldari eyðileggingarvopn sín og hlusti.
Ég held að ég sjálf myndi aldrei skemma neitt en ég get ekki alltaf leyft sjálfri mér að fordæma aðra fyrir það. Ég er jú til dæmis alveg örugg gagnvart þessum nýju lögum, því ég er komin yfir þennan aldursflokk sem verið er að troða á. Og treysti því statt og stöðugt að peningakerfið verði hrunið og horfið áður en börnin mín ljúka háskóla.
Svo mörg voru þau orð. Börnin komin inn svöng og köld. Farin.

Lifið í friði.