illvirkjun
Í sumar verða mótmæli við Kárahnjúka. Mig minnir að áætlað sé að byrja 21. júlí, mér fannst það merkileg dagsetning þar sem ég sendi börnin mín með afa sínum og ömmu til Grikklands í frí þann 20. júlí. Við verðum sem sagt barnlaus hjón í tvær vikur. Ætluðum að vinna eins og svín og græða fullt af péningum en kannski líka leyfa okkur svo sem eins og þriggja daga tjaldferð bara við tvö ein og ástfangin. Nú er ég alvarlega farin að spá í hvort tjaldferðin verði ekki á hálendi Íslands sem er í stórhættu vegna fólksins sem lýðurinn kaus til að stjórna landinu.Ég þarf aðeins að spá í þetta en í dag virðist flest benda til þess að þið getið hitt mig á Kárahnjúkum í lok júlí. Ég var nefninlega um daginn búin að tengja ál við vopn með hugboði og nú var ég að rekast inn á síðu Sigga Pönk þar sem ég fékk staðfestingu á því.
Ef það er eitthvað sem ég þoli ekki, þá er það uppgjafartónn. Þegar ég heyri fólk segja að Kárahnjúkum verði ekki bjargað úr þessu, fussar litla brjálaða veran í höfði mínu. Það er ALDREI of seint að bæta hlutina. Aldrei. Öllum er viðbjargandi. Öllum.
Nú er spurningin bara hvort ég eigi að draga fleiri með mér héðan. Hópferð til bjargar íslensku hálendi. Ætli maður þurfi ekki að panta flugmiða núna strax? Ég á engan péning í augnablikinu því LÍN (sem, eins og farfuglinn minnti á um daginn rímar við svín) gróf holu í reikninginn minn á dögunum. Greiðsla sem ég borga reyndar alltaf með bros á vör því ég er mjög þakklát fyrir að hafa getað verið hér í Frakklandi á námslánum. Þó að í denn bölvaði ég oft stóra tætaranum sem virtist staðsettur fyrir framan faxtækið þeirra og sé alltaf jafnhissa á "þjónustunni" hjá þessari lánastofnun.
En, ég ætlaði ekki að rausa um Lín hérna. Ætlar þú á Kárahnjúka? Vertu með eða vertu lumma.
Lifið í friði.
<< Home