15.3.06

stúdentaóeirðir eða mótmæli

Ég hef oft séð eftir því að hafa ekki verið í París í maí 68 þegar stúdentar gerðu uppreisn og tóku Sorbonne háskólabygginguna í Latínuhverfinu í gíslingu. Lögreglan ruddist inn og braut þar með friðhelgi háskólastofnunarinnar og allt varð vitlaust. Göturnar, allar hellulagðar, voru rifnar upp með rótum og steinum hent í höfuð lögreglumanna sem létu kylfurnar hiklaust vaða í alla þá uppreisnarseggi sem þeir náðu í (skv. lýsingum m.a. frá tengdamömmu).

Um helgina ruddist lögreglan aftur inn, barði einhverja krakka og fékk stóla og bekki í hjálmvernduð höfuð sín í staðinn. (Ég er ekki viss hvort rétt sé að tala um óeirðir, máltilfinning mín vill frekar tala um mótmæli, en ég sá að strax á laugardaginn var hafði Fréttablaðið notað óeirðir á forsíðu.)
Og ég var hérna rétt hjá en samt er ég svo langt í burtu. Það verður annars spennandi að sjá hvað verður úr þessu, samkvæmt prófessor í Sorbonne segist hann finna mikla ólgu og hann hefur aldrei séð jafn góða mætingu á fundi sem þýðir að nú hafa námsmenn fengið nóg af heimskum ákvörðunum heimskrar ríkisstjórnar (hvar sá ég þetta nýlega hjá bloggara um íslensku ríkisstjórnina? Er sama helvítis ruglástandið alls staðar? Heimskt fólk að stjórna illa?).
Það eru ekki mörg ár síðan námsmönnum tókst að fá ríkisstjórn til að draga hluta af lagabreytingum um svipað efni til baka. Nú verður spennandi að fylgjast með, verst að þora ekki í kröfugöngu með börnin. En það er áhugavert að spá í það að þrátt fyrir orðið óeirðir á forsíðu a.m.k. eins blaðanna á laugardag, hefur engum í fjölskyldunni minni dottið í hug að athuga hvort ekki sé örugglega allt í lagi með okkur hérna. Doði, ónæmi gagnvart orðum. Hættulegt fyrirbrigði.

Lifið í friði.