19.3.06

gaman gaman

Ofboðslega var gaman í gær. En mikið er ég þreytt í dag. Enda fór ég seint að sofa.
Það er ekkert smá gaman að hitta svona margar konur og spjalla og ég verð nú bara að segja að konur sem búa í París eru bæði fallegar og skemmtilegar að eðlisfari.
Nú líður mér eins og litlu börnunum. Oh, er þetta búið? Ég vildi að við gætum hist oftar.
Kvöldið hófst með kampavínsglasi í Baccarat, kristalsbúð við Madeleine torgið. Það var mjög gaman að skoða og heyra hvernig glösin eru búin til og tókst konunni sem sagði frá að sannfæra okkur um að ofurhátt verð glasanna er sanngjarnt. Það eru um 60 manns sem vinna við að handgera hvert glas og lýsingarnar eru stórkostlegar, hún notaði orðið ballett, það standa allir í hring og glasið gengur milli manna sem hver um sig hefur ákveðið hlutverk í ferlinu, engar vélar, bara rör, klípur og hnífar til að skera og móta. Það er voða gaman að drekka úr fínu glasi, en ég er þó alls ekki sannfærð um að ég verði að eiga svona glös enda er maðurinn minn glasamorðingi mikill og ég bara hreinlega nenni alls ekki að þurfa að vera svekkt yfir því að glas brotni við og við. Ikea verður áfram okkar glasabirgir.
Og hringarnir og armböndin eru ferlega flott líka, heppin ég að nota aldrei skartgripi.
Veitingastaðurinn, Le Berkeley á avenue Matignon var líka vel þess virði, flottur, góð staðsetning og fín þjónusta. Fer á túristasíðuna innan skamms.
Svo var ég að borða hörpudisk hjá nýja kokknum á Café de la Paix við gömlu óperuna á dögunum. Það var ljúft og mæli alveg með málsverði þar fyrir fólk sem vill gera sér glaðan dag. Íslensk kona sér um hópapantanir hjá Grand Hotel og á Café de la Paix og hægt að fá góð tilboð hjá henni í gegnum mig.
Það er nóg að gera, en ég finn það nú samt að í dag verður hvíldardagurinn haldinn heilagur. Best að skríða aftur undir sæng með kvenspæjaranum í Botsvana og njóta þagnarinnar sem ríkir þar til börnin koma heim með pabbanum.
Mikið er lífið fallegt. Ætli ég sé ennþá í kampavínsrússi? Já, líklega, enda vel veitt í partýinu hjá einni af flottustu parísardömunum sem bauð okkur öllum heim til sín eftir matinn.
Ferlega er ég í góðu skapi. Ég elska ykkur öll (já, það er ljóst að ég er enn með kampavín í blóðinu).

Lifið í friði.