6.3.06

svik og morð

Mér finnst það óþægileg tilhugsun að vita að ráðherrar skuli vera opnir fyrir því að taka vinnu út í bæ og yfirgefa ráðuneytið sisona. Mér finnst það hljóti að gera þessa embættismenn veikari fyrir.
Svo finnst mér það líka sýna virðingarleysi að yfirgefa embættið á miðju kjörtímabili, fínt djobb og allt það, en nú býðst mér betra, thank you very much good bye. Er þetta vitleysa í mér? Er ráðherraembætti bara eins og hver önnur stjórnarstaða í hvaða fyrirtæki sem er? Er það bara ég sem er með einhverja væmni gagnvart löggjafarvaldinu og ábyrgðinni sem fylgir því að vera kosinn af þjóðinni og allt það?

Í þættinum mínum, vikuskammti mínum af sjónvarpsefni, Arrêt sur Images, var fjallað um hið viðustyggilega mannrán og morð sem framið var hér í nágrenni Parísar í febrúar. Ungur drengur var í haldi hóps fólks í þrjár vikur á meðan þau reyndu að fá fjölskylduna til að greiða lausnargjald. Á endanum skildu þau hann eftir í blóði sínu á víðavangi og lést hann á leið á sjúkrahús.
Nú er hátt rifist um það hvort glæpurinn sé sprottinn af gyðingahatri eður ei. Málið er að drengurinn var (líklega) valinn vegna þess að aumingjarnir sem rændu honum ákváðu að þar sem hann væri gyðingur, hlyti hann að vera ríkur. Og, eins og kom fram í símtölum þeirra til fjölskyldunnar, ef foreldrar hans ættu ekki pening, gætu aðrir gyðingar borgað fyrir hann því nóg væri af ríkum gyðingum í Frakklandi.
Fjölskyldan og hluti af gyðingasamfélaginu hér í Frakklandi vilja því meina að glæpurinn sé kynþáttaglæpur sem gerir hann í raun verri en ef "eingöngu" um auðgunarbrot er að ræða.
Í þættinum í gær sátu blaðamaður á Le Monde, sagnfræðingur sem er sérhæfð í gyðingdómnum og útvarpsstjóri gyðingaútvarpsstöðvar sem hefur mikið fjallað um málið, var strax í sambandi við fjölskylduna og vill meina að morðið sé sprottið af gyðingahatri. Blaðamaðurinn og sagnfræðingurinn voru ekki sammála honum og miklar og góðar rökræður spunnust þar sem minnt var á að auðvitað er stereótýpan RÍKUR GYÐINGUR ákveðinn rasismi og deilt um hvort mark sé takandi á harmi sleginni fjölskyldunni.
Persónulega held ég að öruggt mál sé að þetta voru heimskir aumingjar sem vita minnst um trúmál og þeirra eina leiðarljós í lífinu er annar guð, almáttugur og stjórnsamur, peningarnir. Ég geng svo langt að segja að það sé skammarlegt fyrir þessa ræfla að þau héldu drengnum í þrjár vikur og misþyrmdu honum reglulega fyrir ekkert annað en peninga. Að það hefði hreinlega verið skárra ef trúarleg sannfæring hefði legið að baki.
Mér finnst þessi skítaheimur stundum svo viðbjóðslegur og hlakka svo til að losna við kapítalismann og péningana. Sá dagur hlýtur að koma. Hlýtur að koma. Þá fyrst kemst friður á í heiminum. Þá fyrst getum við farið að einbeita okkur að því að deila með okkur auðævum jarðarinnar og verið sátt.

En þangað til skulum við hugleiða klisjuna um að flest morð og flest stríð hafi verið framin og háð í nafni trúarinnar. Trúarinnar á hvað? Er ekki hægt að tengja flest morðin og flest stríðin valdabaráttu sem fólst helst í að hafa völdin yfir peningunum og náttúruauðlindum sem gáfu peninga sem gáfu ofurjarðnesk völd yfir fólkinu í heiminum?

Lifið í friði.