1.3.06

mars

Helvítis mánaðarmót eina ferðina enn. Og þessum beið ég eftir í einhverri falskri von um að veðrið myndi lagast, að vorið léti á sér kræla eftir að febrúar lyki. Það er sko áreiðanlega ekki tilviljun að febrúar er stystur, þetta hlýtur að vera leiðinlegasti mánuður ársins. Mér er alveg sama þó að dóttir mín sé fædd í febrúar (og fleira gott fólk sem ég þekki) þetta er samt skítamánuður í mínum huga.
Og svo kom mars og í morgun skein sólin inn um gluggann en þegar maður leit út blasti undarleg sjón: Allir bílarnir í götunni voru orðnir hvítir. Og gangstéttarnar líka. Vetur konungur er ekki alveg tilbúinn til að fara og gefa vorinu plássið.
Náði ágætis myndum af börnunum í skemmtilegum göngutúr í morgun. Við gengum um skóglendið hér fyrir ofan sem er lokað með óhrjálegri girðingu og á ólæsanlegu og síopnu hliðinu er skilti sem biður mann vinsamlega um að fara ekki inn á svæðið vegna hættu á jarðsprengjum. Þarna veltum við okkur um í snjónum (eða börnin veltu sér um í blöndu af aur og snjó) og komum heim með alla útlimi. En þegar við gengum niður götuna meðfram þessu óhirta svæði hrundi frekar stórt dautt tré í brekkunni. Þá fór nú dálítið um mig. Ég er hræddari við að slíkt gerist aftur en að mér takist að finna þarna blett sem enginn hundur, köttur eða maður hefur ekki gengið yfir áður og að ég springi í loft upp. Mig langar helst ekki til að dauðdagi minn verði að kremjast undir fúnu tré.

En mikið væri nú ægilega gott ef að æðri máttarvöld gætu fundið hundaflensu og látið hana geisa yfir París fljótlega. Ekki það að ég vilji blessuðum hundspottunum neitt illt, þeir eru bara það sem þeir eru og haga sér samkvæmt því. Það yrði bara góð lexía fyrir eigendur að spá í hvort helvítis skíturinn sem þeir skilja eftir þá út um allar trissur gæti verð lífshættulegur. Myndi kannski kenna þessu óalandi og óferjandi pakki að hirða upp eftir dýrin sín. Þurfti að þvo hundaskít úr úlpu við heimkomu.

Steig ekki á jarðsprengju í dag en nú voru nágrannarnir hér fyrir neðan að koma úr vinnu og byrja strax að öskra og æpa. Vaknaði líka við það í morgun. Ef þau skilja, reyni ég að skrapa saman aur og kaupa íbúðina þeirra.

Lifið í friði.