10.3.06

tékkað inn

Ég er hérna og allt í lagi með mig. Reyndar svo mikið allt í lagi með mig að ég hef bara engan tíma til að sitja í tölvunni og þar af leiðandi engan tíma til að blogga. Ég endurtek nú samt hugmyndir mínar um að fá tölvu sem er beintengd við heilann, því meðan maður er að vinna líkamlega vinnu hugsar maður stundum svo skýrt og ég skal alveg játa það að í gær voru þessar hugsanir (skýrar og gáfulegar) oft í bloggfærslustíl. Þ.e.a.s. jafnóðum og ég hugsaði þær, setti ég þær í "bloggstíl". Get ekki útskýrt þetta nánar, en er nokkuð viss um að flestir bloggarar vita nákvæmlega hvað ég meina. A.m.k. hugsandi bloggarar.

Ég pantaði manninn minn fyrir tæpum mánuði í að vinna með mér hér í íbúðinni. Það gerðum við í gær og tókum niður vannýtta gestaherbergið í innri stofunni, það var forláta tvíbreið koja sem er nú komin í öreindir og niður í geymslu. Stofurnar hafa stækkað um 5 fermetra og nú er ég loksins komin með pláss fyrir nýjan flensted óróa (flensted-mobiles.com). Hef beðið lengi eftir því. Héðan í frá mun einhver falleg abstrakt svífa yfir tölvunni í staðinn fyrir blessaða kojuna sem hálfýtti manni ofan í stólinn.
Hvað gesti varðar, eru þeir ávallt velkomnir, við munum alltaf hafa einhver ráð með að útbúa gott hreiður fyrir þá hérna. Gistinæturnar (er þetta ekki voða flott hagfræðimál?) voru of fáar miðað við plássið sem kojan góða át frá okkur sem lifum hérna. Nú eru komnir krókar til að hengja upp tjald til að loka innri stofunni þegar þess þarf.
Svo er tveimur rússneskum ljósakrónum færra í íbúðinni, komnir þessir fínu ikea kúplar sem kosta minna en ekki neitt í þeirra stað.
Það eina sem ekki gekk upp hjá okkur var ljósið á baðinu sem gerir það að verkum að við þvoum okkur í myrkri fram á sunnudag þegar Bubbi Benoît Byggir kemur okkur til bjargar.

Annars er fín viðbót við fínu greinarnar hér fyrir neðan að Fjallabaki.

Ég er farin í leikfimi og teygjur, veitir ekki af eftir gærdaginn. Úhú, ég er í svo góðu skapi!

Lifið í friði.