13.3.06

skipulagsleysi

Það er svo mikið um að vera, margir mismunandi hópar með mismunandi þarfir. Þarf að panta rútur, veitingastaði og fleira fyrir alls konar fólk með alls konar drauma. Einn lítill hópur kemur á föstudaginn og ég ætla ekki að lýsa því hvað ég hlakka til að standa og þylja sögur fyrir framan fólk. Sumir koma ekki fyrr en í júní. Og það er svo flókið að halda utan um þetta. Hvernig GAT ég misst af dagatölum? Ég næ þessu ekki. Hér er lífsins ómögulegt að fá veggdagatal núna, og var m.a.s upp úr miðjum janúar. Eru enn til falleg með Íslandsmyndum heima? Kannski ég ætti að láta senda mér eitt slíkt, er það ekki voða mikið við hæfi fyrir útlaga eins og mig? Ég reddaði þessu reyndar áðan með því að búa til töflur og fylla inn tölur og daga í tölvunni, og er búín að fylla samviskusamlega inn eitthvað af hópunum. En þetta er samt ekki nógu gott, vantar áminningu um frídaga og svoleiðis. Ah, já, þess vegna vildi ég einmitt alltaf frönsk dagatöl. Núna man ég.
Er engin lausn á þessu skemmtilega vandamáli?
Á manneskja eins og ég að kunna að nota einhver ægileg agenduforrit í tölvunni?
Ég er að bilast og væri líklega orðin klikk ef ég hefði ekki drifið mig í leikfimi í morgun. Ferlega er gott að fara í leikfimi. Af hverju hef ég ekki gert það í mörg ár? Ferlega er ég þreytt á að vera svona ein að pillast við tölvuna. Mig vantar að hitta fólk. Fólk? Halló? Eruðiðarna?

Getið hvað er núna eftirlætis sjónvarpsefni barnanna minna? Jú, aukaefnið á hinni bráðskemmtilegu DVD útgáfu á Dýrunum í Hálsaskógi frá Þjóðleikhúsinu. Í aukaefninu er myndbrot frá 1977 uppsetningunni. Þegar ég sá þetta fyrst, fór ég að gráta. Bessi og Árni. Oh. Ég man þegar ég var einu sinni sem oftar að selja rauða kross merki og bankaði upp á í húsi í Neðra Breiðholti (já, ég var úr Efra Breiðholti en ég var ofvirk í merkjasölu, fór um allan bæ og vann Heimsmetabók Guinness einhvern tímann sem söluhæsta barnið í skólanum (ásamt Láru frænku)) og þar kom Bessi Bjarnason til dyra. Ég kiknaði í hnjáliðunum og leyndi því ekki að ég þekkti hann. Hann keypti af mér merki um leið og hann umlaði eitthvað um að þetta væri barnaþrælkun að senda svona lítil börn í sölumennsku. En það má minna á að ég leit alltaf út fyrir að vera nokkrum árum yngri en ég var. Og geri reyndar enn. Bessi var flottur. Og Árni er það líka. Og börnunum mínum finnst þeir æði. Vilja sjá "hvíta og svarta klifurmúúús".
Gaman að því. Allt fer í hringi. Tóma hringi.

Ég mæli með þessum DVD fyrir alla, hvort sem þeir eiga börn eða ekki. Falleg sviðsmynd (Brian Pilkington), góður leikur (ýmsir), fín myndataka (Friðrik Þór) og stórkostleg myndbrot frá 1977. OG AÐALKOSTURINN ER: ENGAR AUGLÝSINGAR. Mér finnst að banna eigi auglýsingar við barnaefni. Sigga Beinteins má nú fara að vara sig, Söngvaborg 3 er líklega fjórfalt meira auglýsingabrall en hinir tveir til samans.

Lifið í friði.