12.3.06

yfir kaffibollanum

Í morgun, yfir kaffinu, ræddum við hjónin frelsi, réttindi og skyldur.

Maðurinn minn sagði mér að Zinoviev, Tarkovski og Soljenitsyne sem allir réðust gegn kommúnismanum í heimalandi sínu, Rússlandi, hefðu viðurkennt að á einhvern undarlegan máta væri fólkið í Rússlandi að vissu leyti frjálsara en fólkið í hinum frjálsa vestræna heimi því hérna megin frelsismúrsins ríkti svo mikil ringulreið og hver træði á öðrum á meðan að í Rússlandi hjálpaðist fólk meira að og höfðu öll sömu hagsmuna að gæta.
Einnig benti Sojenitsyne á að það væri léttir að geta sagt sér að í Rússlandi skrifuðu blaðamenn það sem þeim væri skipað að skrifa ellegar væru staða þeirra og líf í hættu meðan vestrænir blaðamenn gengust sjálfviljugir undir yfirvöld og leptu upp eftir þeim áróðurinn.

Út frá þessu spunnust umræður um að fólk krefst sífellt réttinda sinna en gleymir að öllu frelsi fylgja skyldur og ábyrgð. Þá sagði maðurinn minn mér að Simone Weil (sem ekki má rugla saman við Simone Veil) hefði lagt til að birt yrði yfirlýsing á skyldum mannkynsins við hliðina á mannréttindayfirlýsingunni sem varð til 1789 í frönsku stjórnarbyltingunni.
Hún hafði mikið til síns máls en vitanlega sá enginn ástæðu til að gera neitt úr því. Frumskógarlögmálið fræga hentar nefninlega mun betur en þessi þvæla um skyldur okkar.

Mér fannst ástæða til að deila þessu með ykkur enda örlát með afbrigðum.

Lifið í friði.