15.3.06

málgleði á röngum stundum

Maður getur röflað og rausað um eitthvað tilfinningamál, eitthvað sem manni FINNST en hefur kannski ekki nógu mikinn heimspekigrunn eða er nógu vísindalega þenkjandi til að tjá sig um það án þess að vera hjákátlegur.
Svo skrifa ég um París, sem er líklega það sem ég gæti farið að kalla mig "sérfræðing" í, miðað við allar bækurnar sem ég hef þjösnast í gegnum, öll sporin sem ég hef tekið hérna. Sjálflærð, vissulega, hef hvorki tíma til né efni á að taka fína prófið í Louvre skólanum, en helvíti fróð um borgina, sögu hennar og fylgist vel með þróun hennar í dag.
Af hverju dúndraði ég þá ekki fullt af skemmtilegum upplýsingum í kaflann hér á undan um Latínuhverfið? Líklega vegna þess að ég er andlaus og líður eins og ég gæti ímyndað mér að undinni tusku líði.
En hér kemur einn fræðandi punktur fyrir þá sem hafa áhuga (ég vil taka það fram að þetta kemur fram í gönguferð minni um Latínuhverfið sem verður farin á föstudögum í næstum því allt sumar). Latínuhverfið var sem sagt, eins og öll gömul og varðveitt hverfi, með allar götur hellulagðar, litlum kubbslaga hellum sem heita PAVÉ á frönsku. Þessir kubbar voru notaðir sem vopn í námsmannabyltingunni 68. Þegar andófinu lauk og friður komst á sendu borgaryfirvöld stórar malbikunarvélar á svæðið og þess vegna eru flestar göturnar á hæðinni malbikaðar, sem og hið stóra breiðstræti, boulevard Saint Michel, sem liggur frá Signu og upp framhjá Sorbonne og hvar mestu lætin eru í dag.
Enn í dag þykir þó smart að fara á einn af mýmörgum veitingastöðum hverfisins og panta sér "pavé saignant" sem er blóðug nautasteik og minnast hellukubbanna sem ataðir voru blóði lögreglumannanna.

Og talandi um breiðstræti, mig langar ógurlega mikið að eignast gömlu bókina hans Jónasar um París. Ef einhver veit um einmana eintak sem engan langar lengur í en ekki hefur samt verið hent, er ég kaupandi. Ég hef lesið bókina, en mig langar að eiga hana í safninu mínu. Jónas talar alltaf um búluvarða, sem vakti mikla kátínu mína á sínum tíma. Ég nota frekar breiðgata eða breiðstræti en hef alltaf verið í vandræðum með að greina milli avenue og boulevard.

Lifið í friði.