20.3.06

ahbu

Ef eitthvað var eftir af kampavíni í blóði mínu, náði Nicolas, viðurstyggilegi leikfimikennarinn minn því úr í morgun. Verst að hann er mjög sætur og skemmtilegur en í rassæfingunum eyðilagði ég alla drauma um að eiga í leynilegu ástarsambandi við þjálfarann minn með því að slefa hressilega ofan í dýnuna EINMITT þegar hann leit á mig. Mjög smart hjá mér. En að vissu leyti þungu fargi af mér létt. Nú get ég bara mætt með bumbuna út í loftið án eftirsjár og gert æfingarnar eins og mér er tamt, minni stundum á fíl í ballettæfingum...

Ég treysti mér ekki með börnin í stóru mótmælagönguna á laugardaginn. Mig langar til að mótmæla þessum nýju fáránlegu lögum sem rífa öll réttindi af ungu vinnandi fólki enda er ég sannfærð um að þeir ætla að byrja á unga fólkinu og færa sig svo hægt og rólega upp.
Smátt og smátt á að taka frá okkur öll réttindi sem afar okkar og ömmur börðust harkalega fyrir, ekki fyrir svo löngu síðan. Og þið getið alveg haldið að fíflin hér í Frakklandi séu einir um svona aðgerðir, ó nei, ég lofa ykkur því að þetta sama mun verða reynt í öðrum löndum, og eflaust ekki síðast á Íslandi.
Kapítalisminn grefur undan öllu sem heitir mannréttindi, öllu því sem okkur þykir svo sjálfsagt í dag en er svo stutt síðan varð sjálfsagður hlutur, það að geta fengið frí þegar börnin eru veik, það að fá pásu til að teygja úr sér eða reykja við og við, þetta eru allt "týndar krónur" í hugum auðvaldsins og auðvitað vilja þeir taka þetta frá fólkinu. Að hika er sama og að tapa hjá þessum ráðamönnum.
Reyndar skrifaði blaðamaður hjá Fígaró grein þar sem hann útlistar fáránleika þessara laga og segir að eðlilegur stjórnandi sem vilji halda góðum anda hjá starfsfólki sínu geti aldrei boðið svona samning. Þetta sé svo fáránlega út í hött að fólk geti unnið í tvö ár án nokkurs starfsöryggis, að þetta muni ekki verða nýtt nema af fávitum. Hm. Mér finnst allt of mikið af fávitum í heiminum til að treysta því að svona samningar verði einhver undantekning.
En ég treysti mér ekki í mótmælagöngur með börnin, mér finnst reyndar engin ástæða til að vekja börn undir fimm ára aldri til umhugsunar um svona mál, leyfi þeim heldur að njóta saklausrar æsku sinnar dálítið lengur. Ég reyni að útskýra fyrir þeim að auglýsingar séu plat, en það er eina ógnin sem steðjar að þeim núna og það er nóg að mínu mati.

Lifið í friði.