6.3.06

hnifar

Falleg fréttin á mbl.is um hnífaburð manna. Algengt að menn séu með hnífa á sér? Ég hef aldrei vitað til þess að neinn maður sem ég þekki sjái ástæðu til að bera á sér hníf.
Ég þekki nokkra stráka og m.a.s. einhverjar stúlkur sem hafa gaman af hnífum enda eru þetta fyrirtaks verkfæri í t.d. eldhúsinu eða úti í vinnuskúr. En að mæta með hníf á "skemmti"staðina. Ha?
Hvað hefur gerst í lífi fólks sem telur sig ekki öruggt óvopnað úti á götu? Mig hryllir við tilhugsunina.

Líklega er ég alveg ferlega ofvernduð og alin upp af fólki sem sýndi hvert öðru temmilega virðingu um leið og léttur húmor yfir lífinu sveif yfir vötnum æsku minnar. Við vorum einmitt að komast að því, ég og maðurinn minn, að þetta stendur okkur fyrir þrifum í sambandi við að verða fræg fyrir skriftir hér í Frakklandi. Allir ungir rithöfundar hafa verið misnotaðir eða barðir, ein horfði á pabbann skjóta móðurina 8 ára gömul og horfði svo í smástund inn í hlaupið áður en byssunni var snúið að honum sjálfum og hleypt af og alls konar svona hremmingar. Við fengum bara bévítans ástúð og örvun. Til hvers?
Værum kannski meira kúl með hnífa og voða reið.

Lifið í friði.