gleðilegtár
gleðilegt ár
gleðileg tár
gleði leg tár
gleði legtár
Ég læt mér ekki detta í hug að gera upp þetta ár sem er að fara og kemur aldrei aftur, vonandi, en ef einhver nennir að lesa upp bloggárið mitt og gera huggulegan úrdrátt er þeim hinum sama það velkomið. Ef margir bregðast við þessari arfalélegu hugmynd getum við haft þetta ritgerðarsamkeppni.
En í huga mínum núna eru stærstu atburðirnir nýja óléttan í fjölskyldunni og hengingin ógurlega enda er ég með gullfiskaminni eins og aðrir landar mínir og meðbræður á jörðunni ef út í það er farið.
Við erum öll hálfslöpp fjölskyldan en ætlum nú samt að drífa okkur í matarboðið í kvöld. Verst þykir mér að karlinn skuli ekki hafa bílpróf (fyrst skrifaði ég bólpróf, Freud? Ertu að horfa?) því kampavín er svo gott og ég er viss um að í boðinu verður nóg af því.
Ég geymi kannski eina flösku í kælinum hér heima og get þá dreypt á henni ef norski sjóarinn í mér verður viðþolslaus í nótt.
Ég geri fastlega ráð fyrir því að sjá ekki flugeldasýninguna, ekkert útsýni þar sem við verðum og þess vegna líkur á því að við gleymum miðnætti eins og gerðist síðast þegar ég hélt upp á áramótin í París. Þá sátum við yfir eftirréttinum, sein að borða því við höfðum farið í Hammam um eftirmiðdaginn og vorum í hálfgerðri leiðslu að búa til matinn, og einhver hrópaði upp yfir sig að áramótin væru löngu liðin, en þau voru þá einmitt að ganga í garð á Íslandi svo við féllumst öll grátandi í faðma og allt fór vel að lokum. Gvuð var klár gella að finna upp á tímamismuninum.
Jú, nú dettur mér einn stórviðburður í hug, er ÁJ hættur að blogga?
Lifið í friði.
oui
Það er víst nú þegar komið í íslenska stjórnarskrá ákvæðið gegn dauðarefsingu. Vera sagði mér það á blogginu hennar Silju.
Sem er gott.
En auðvelt að sýna tvískinnung með því að styðja ríki með aðrar stjórnarskrár og önnur lög. Auðvitað getum við Íslendingar erfiðlega ætlast til að öll önnur ríki séu með nákvæmlega sömu viðmið og við en við getum a.m.k. tjáð andúð okkar á hlutum sem við höfum séð ástæðu til að banna í okkar stjórnarskrá. En líklega er öllum sama. A.m.k. talsmönnum okkar.
Ég held reyndar að Bush sé búinn að fara yfir eitthvað strik, sýna og sanna að það er ekki eðlilegt ástand að forsetaembætti BNA sé valdamesta staðan í heiminum eins og svo margir hafa viljað vera láta undanfarin ár. Mótstaða gegn ríkjandi ástandi verður sterkari út um allan heim. Og er það vel. Kannski er styttra í byltingu og kreppu en okkur grunar?
Lifið í friði.
leið
Um leið og mig langar að skrifa það veit ég að það er alger óþarfi en þörfin er of sterk
ég er alfarið á móti dauðarefsingum
Ég held að íslensk lög kveði á um að slíkt sé ólöglegt og samt var mannfjandi tekinn af lífi með okkar samþykki samþykkið felst í okkar þáttöku í stríðinu er búið að taka það til baka? ég held ekki
Einhverjir valdakarlar hafa viðurkennt mistökin en vandræðin og viðbjóðurinn heldur áfram börn deyja á hverjum degi líka bandarísk börn sem hafa verið nörruð í herinn börn sem jafnvel eiga börn sem munu alast upp föðurlaus með köggul í hjartanu alla ævi
Sumir vilja meina að stríð séu órjúfanlegur hluti af lífinu að þau séu náttúrulögmál nauðsynleg fyrir einhverja dýnamík í efnahagslífinu eða eitthvað svoleiðis ég veit það ekki ég hef bara aldrei aldrei getað samþykkt þetta ekki einu sinni þegar ég var heimsk og ofvernduð táningsstúlka í Breiðholtinu man eftir rifrildum um þetta strax í menntó alltaf fundist inni í mér sem friður ætti að geta ríkt í heiminum
Kannski hef ég aldrei læknast af því að vera heimsk og ofvernduð vanþroska stelpuskjáta?
Franska þingið er á leiðinni að breyta stjórnarskránni ætla að bæta inn ákvæði gegn dauðarefsingum þar hvað segir okkar stjórnarskrá?
Lifið í friði.
bilun
Það er bilun að vera heima hjá sér með börnin í fríi í tvær vikur samfleytt. Og eftir að hafa eytt með þeim mánuði fyrir mánuði í fríi þar að auki. Ég er að verða gráhærð, reyndar í orðsins fyllstu því í gær kippti ég feitu, hörðu snjakahvítu hári af kolli mínum. Þetta er í annað sinn sem ég geri slíkt. Jú, ég veit að það getur verið voða smart að vera gráhærð gella en mér finnst ég samt of barnslega fögur í framan til að það geti farið mér.
Þið verðið að fyrirgefa, ég get ekki notað broskarla, ykkar að átta ykkur á því hvenær ég er að gantast og hvenær mér er svartasta alvara.
Ég ætla að búa mér til hvítlauks-cayenne-engiferseyði og athuga hvort ég hressist.
Þar sem ég gleymdi alveg að plögga Ömmu Ruth fyrir jólin, geri ég það bara núna. Amma Ruth er lítil búð í heimahúsi í Sundunum. Þar fást alls konar bolla- og matarstell, kökudiskar, rjómaskálar og annað sem t.d. ungri konu eins og mig vantar oft sárlega. Allt antík og gott verð. Farið á tengilinn Ester í tenglalistanum mínum og þar finnið þið allt um Ömmu Ruth. Tilvalið í áramótagjafir, eða afmælisgjafir í janúar. Búðin er með þrælfína heimasíðu, fullri af myndum en ég hef ekki tíma til að setja tengilinn inn núna. Hann fer undir Lyst við fyrsta tækifæri.
Ég sendi inn svar við blómamynd Eyju í gær. Var ekki með rétt gisk. Mér er allri lokið og Eyja er komin með viðurnefni í huga mér.
Og lifið svo í friði.
næstu áramót - ekki þessi núna
Ég er með þá hugmynd í kolli mínum fagra að eyða áramótunum 2007-2008 í Pyrennées-fjöllunum. Leigja stórt hús eða margar íbúðir í litlu þorpi og safna með mér góðum hópi fólks. Ef þér líst vel á þetta og langar að vera með, láttu mig þá vita.
Þú heldur kannski að langt sé í næstu áramót, en finnst þér ógurlega langt síðan síðast?
Lifið í friði.
kalt
Það má París eiga, að þegar verður kalt þá er sko kalt. Varla hundi út sigandi, hvað þá börnum. Gvuði sé lof og dýrð fyrir DVD-tæknina og allt nýja dótið og vatnslitina.
Ég hefði líklega getað nýtt inniveruna í skrif og hugmyndavinnu en ligg þess í stað í sófanum með tölvuna og bölva bloggleti annarra. Alveg bakk í letinni.
Ég var að frétta af óléttu, það er gaman.
Ég var að frétta af nýrri vinnu vinkonu. Það er líka gaman.
Ég er ekki enn búin að fá myndagátuna, treysti á að hún hafi birst í laugardagsmogganum sem hefur enn ekki komið. Mér skilst að hún sé létt núna og er það miður, var alveg fáránlega létt í fyrra.
Jæja, best að leggjast aftur í leti, stara upp í loftið, spá í ekkert, spenna greipar, ropa kannski smá.
Lifið í friði.
að handan
Það er einhverra hluta vegna þannig að á jólunum leitar hugurinn oft til þeirra sem ekki eru lengur meðal vor. Nokkrum dögum fyrir jólin hóf ég að lesa Hannes Pétursson, Rauðamyrkur. Hana las ég á sínum tíma, fékk í jólagjöf frá ömmu minni heitinni, Kristínu Grímsdóttur, en ég hafði aldrei lesið þessa bók aftur síðan þá.
Nú las ég hana á nokkrum dögum, þó ekki sé hún löng þá er það nú þannig að tveggja ungra barna móðir les einfaldlega ekki margar blaðsíður á kvöldin, augnalokin bara leggjast yfir augun, bókin sígur niður á brjóst og einhverjum mínútum síðar hrekkur húsmóðirin þreytta upp, lokar bókinni og slekkur ljósið og svífur yfir í draumaheima.
Rauðamyrkur er ágætis lesning en þegar bókinni var alveg að ljúka datt umslag út úr henni, merkt með skrift ömmu minnar til mín og ég beðin um að opna að lestri loknum. Sem ég og gerði. Þar var lítil klausa sem tengir persónurnar í bókinni við forfeður ömmu minnar (og líka mína, því þó að mamma hafi verið ættleidd var þessi amma mín samt skyld mér, langafasystir ef ég man rétt). Klausan var vélrituð á gömlu ritvél ömmu og afa og svo handundirrituð af ömmu. Þetta var mjög skrýtin tilfinning. Ég mundi alls ekki eftir þessu frá upphaflegum lestri bókarinnar og mér leið dálítið á jóladag eins og ég hefði fengið bréf frá ömmu.
Og nú er ég byrjuð að lesa einu íslensku bókina sem ég fékk í jólagjöf. Hún kom frá sjálfri mér til mín og hefur legið í plasti á náttborðinu síðan ég kom frá Íslandi í byrjun desember. Sumarljós og svo kemur nóttin stenst allar væntingar enn sem komið er. Ég veit ekki hvernig hann Jón fer að þessu, en ég leyfi mér að fullyrða að maðurinn býr yfir galdramætti.
Í gær hraðþýddi ég einn millikafla fyrir manninn minn yfir á frönsku. Honum finnst ég eigi að þýða þessa bók en ég er ekki viss um að ég treysti mér í þýðingu í þessa átt, hef nú ekki einu sinni treyst mér almennilega í bókmenntaþýðingar yfir á íslensku þó vitanlega hafi ég spáð mikið og oft í það og jafnvel sent útgefendum bréf en þeim bréfum hefur ekki verið svarað.
Ég er líka alvarlega að spekúlera í að taka einhverja íslenskukúrsa í fjarnámi, einmitt til að geta kannski betur búið mig undir að leggjast í bókmenntaþýðingar einhvern tímann í framtíðinni.
Það var furðulega auðvelt að hraðþýða þennan litla kafla um tímann sem líður og Jónas og Þorgrím og kynlífið í nútímanum og eftir þá tilraun hélt ég svo áfram að lesa og fékk allt í einu á tilfinninguna að kannski væri bókin upprunalega skrifuð á frönsku. Til dæmis er sögumaðurinn mjög oft ekki ÉG heldur VIÐ á frönsku, það er ópersónulegra og vísar kannski að einhverju leyti í þérun. Þetta er nokkuð algilt í ritgerðum, nemandinn er ekki ÉG heldur VIÐ.
Ég fékk aðra bók í jólagjöf, bók sem ég hef einmitt lesið í íslenskri þýðingu, eða a.m.k. að hluta til. Það er Pétur Gunnarsson sem hóf að þýða hið mikla verk Marcel Proust um leitina að glötuðum tíma en hefur líklega ekki tíma eða efni á að halda því áfram. Eða þá að Proust inspíreraði hann of mikið og hann finnur sig knúinn til að koma sínum eigin sögum á blað meðan honum endist tími og aldur til.
Ég hef lengi vitað að ég yrði að lesa Proust á frummálinu og maðurinn minn ákvað sem sagt að hvetja mig til þess með því að gefa mér fyrsta bindið í jólagjöf en hann hefur einmitt verið að endurlesa þetta verk undanfarið sjálfur.
Annars komst ég að því í morgun að ég er sauður, enda hefur mér ekkert gengið með getraun Eyju.
Lifið í friði.
zzzzzz
Aðfangadagskvöld var yndislegt, það er gaman að endurupplifa gamla alvöru kitlið og gleðina í gegnum börnin. Þau stóðu sig eins og hetjur, Sólrún endurtók "on est gâté" sem þýðir "við erum fordekruð" aftur og aftur sem er mun skárra að horfa upp á en græðgissvipur um leið og pakkarnir eru rifnir upp með látum og gjöfinni svo kastað út í horn.
Tengdaforeldrarnir voru hérna ásamt yngri bróður mannsins míns. Hann sagði kærustunni sinni upp á föstudaginn var en var hress og kátur, sem betur fer. Amman át eins og hestur, hef aldrei séð það áður, en afinn fór varlegar í sakirnar, enda er hann ofurhræddur við spik og kólesteról.
Ég fékk fullt af fallegum gjöfum og eins og alltaf fékk ég sting í magann yfir öllu þessu fólki sem þykir vænt um mig og sem mér þykir vænt um og ég skil ekki hvers vegna sumir eiga ekki neitt og ekki neinn og hvers vegna öll þessi fátækt og stríð og... en svo vefur maður um sig nýja ullarsjalinu, setur á sig fínu hanskana og þykist vera búrgeisagella úr 7. hverfi með fínu töskuna úr fínu búðinni á Laugaveginum og alls ekki búa í úthverfi með hinu innflytjendapakkinu og hvað getur maður svo sem gert við fátækt heimsins? Ekki er ég að reka fyrirtæki sem níðist á minni máttar.
Á jóladagsmorgun furðaði ég mig á jólatré sem var komið út á gangstétt, veit ekki hverjum lá svona agalega á að losna við jólin úr stofunni en svo settist ég einbeitt niður og setti saman bílaverkstæði/bílastæði sem Kári fékk frá ömmu sinni. Það er úr tré, enda er amman ekta búrgeisapía úr 7. hverfi og kaupir bara tréleikföng og til að setja herlegheitin saman þurfti að skrúfa 19 skrúfur og ekki mjög stuttar. Ég var afskaplega þakklát fyrir skrúfvélina og fína hólfakassann sem geymir skrúfur í öllum stærðum því skrúfurnar sem fylgdu með leikfanginu voru nú ekki til stórræðanna. Mér varð hugsað til allra vesalings pabbanna í sjálfu 7. hverfi sem geta skrifað greinargerðir og rökstutt mál sitt í þrisvar sinnum þremur liðum án þess að blikna, en vita alls ekki muninn á stjörnuskrúfjárni eða hamri. Það er ansi hætt við að ef mikið seldist af þessu tiltekna verkstæði að nokkrir heimilisfeður hafi rokið út á næsta bar í gær.
Blessaður reiðskólinn sem Sólrún fékk frá þessari sömu ömmu verður að bíða þar til ég er búin að jafna mig andlega og líkamlega, enda nóg af öðru dóti að leika með, og ekki hægt að segja að börnin þjáist.
Svo fórum við í kaffi til tengdó um eftirmiðdaginn, þar var lax og skinka og kökur og rígur milli hjónanna um það hvort hefði þurft bæði salt og sætt og allt eins og vanalega. Fjölskyldulífið er nú alveg indælt, er það ekki?
Lifið í friði.
Gleðilega hátíð
Hvaða orð var aftur mest notað í útvarpinu í dag? Já, hugheilar. Hugheilar óskir. Árs og friðar. Þakkir fyrir hlýhug.
Gott að hlusta á jólakveðjur, áreiðanlega eitthvað jógavænt eða Feng Shui við það.
Ég vona að veðurguðirnir hætti að hrista litlu eyjuna í norðri. Vona að ykkur líði öllum vel, saman eða í sundur, stór, lítil, feit, grönn, rík eða fátæk. Að eitthvað hrærist innan í ykkur á jólanótt, að þið fáið bros og helst koss. Vona að friður ríki í kringum ykkur.
Takk fyrir góðar stundir.
Væmin og ekkert klæmin. Svona er þetta stundum.
Lifið í friði.
snökt
Og nú er ég komin með heimþrá til Íslands. Mig langar miklu frekar að vera þar en hér. En þetta má vitanlega ekki fréttast. Ekki segja neinum. Hver veit nema ég skelli mér uppeftir um áramótin?
Lifið í friði.
pour une fois
Fyrst Eyja spyr skyndilega spurningar sem ég GET svarað, er best að gera það í pistli svo allir lesi það, ekki bara þeir sem nenna að fylgjast með gömlum athugasemdahölum.
Hornin er langsniðugast að baka og frysta og kippa þeim svo út þegar á að borða þá, þ.e.a.s. ef þeir eiga að vera í morgunverð. Allt of mikið vesen að vera að klína eldhúsið út í bakstri og vera dauðuppgefinn að borða þau. Þau eru alveg eins og ný þegar þau fara frosin beint inn í ofn. Koma þaðan út rjúkandi heit og ilmandi.
En þessi horn er að finna í þeirri frábæru matreiðslubók "Áttu von á gestum?", sem er þýdd og staðfærð af Guðrúnu Hrönn Hilmarsdóttur. Ég keypti þessa bók án þess að hika (sem er afar sjaldgæf kaupaðferð hjá mér) á bókamarkaði fyrir nokkrum árum en þessi bók hefur verið notuð árum saman á mínu æskuheimili.
Þau eru úr gerdeigi en í morgun svindlaði ég ógurlega í fyrsta skipti. Ég hljóp út í búð (athugið að nauðsynlegt er að hlaupa út í búð ef nota á sama trix, virkar ekki ef farið er á bílnum) og keypti tilbúið smjördeig og líka tilbúið pædeig sem fást hérna rúlluð út í fulllkomna hringi. Þessa hringi lagði ég sem sagt á eldhúsborðið, skar í átta jafna hluta og síðan skellti ég í skál 150 gr. fínt hakkaðri skinku, 100 gr. rjómaosti og 2 vænum msk. af graslauk (sem ég á alltaf hakkaðan í frysti, hvar væri ég án frystitækninnar?). Þessari blöndu skipti ég svo jafnt á deighlutana, næstum alveg við feitari endann og rúlla þessu svo upp og móta í hálfmána. Inn í ofninn í ca 10 mín á 220 gráðu heitan.
Voilà. Heppnaðist mjög vel. Veit ekki hvort ég á nokkurn tímann eftir að gera þessi horn úr hjemmelavet gerdeigi aftur. En mig langar núna alveg ógurlega mikið að gera kanelsnúðana sem eru að mig minnir í "Nú bökum við" úr sama matreiðslubókaflokki og sú fyrrnefnda. Tívolíísinn sem ég bjó til í morgun er einmitt líka úr einhverri bókanna hennar Guðrúnar. Þær voru alls þrjár, a.m.k. á mínu heimili, en ég get ekki munað hvað sú síðasta heitir.
Ég mæli eindregið með Toscakökunni úr Áttu von á gestum? Alveg skotheld.
Lifið í friði.
sko mig
Fimmtán snúðar eru að kólna í eldhúsinu og ísinn kominn í mót og inn í frysti. Í öllum látunum tókst mér að baka ekki ísinn né hella súkkulaðinu saman við skinku/osta/graslauksblönduna og tel mig hafa staðið mig vel.
Og svo er ég búin að lesa um ýmsa hörkufemínista í tíu mínútur en ekki finn ég þessa mögru síveiku langlífu, né heldur þann sem gerði eitthvað sem ber nafn hans... frekar pirrandi að geta ekki legið og grúskað en ég trúi því staðfastlega að ég eigi enn möguleika á sigri, maður er nú ekki Íslendingur fyrir ekki neitt!
En nú er það sturta, vatnsglas, í fötin og út. Það er ofboðslega kalt og ég er með klink til að gefa betlurum í þessari bæjarferð, klikkaði alveg á því í gær.
Lifið í friði.
piparkökur og úlfakreppa
Piparkökur Framtíðarlandsins seljast grimmt, en þú hefur samt ennþá tíma til að sýna stuðning í verki og splæsa í nokkur stykki.
Kökum hefur verið dreift í nokkrar búðir í miðbænum (þ.á m. Kisuna, 3hæðir, Yggdrasil og Hljómalind) en þær fást sem fyrr á skrifstofu Framtíðarlandsins, Óðinsgötu 7, og í bakaríinu Brauðhúsið í Grímsbæ þar sem þær voru einmitt bakaðar. Opið er í Brauðhúsinu 10-18 virka daga og á skrifstofu Framtíðarlandsins 9-16 virka daga. Hver kaka kostar 500 krónur.
Annars er ég í mikilli úlfakreppu einmitt núna. Sko, klukkan er 09:03, börnin og kallinn farin út og búið að opna matvörubúðina og ég gæti skotist þangað og keypt hráefni í ís og skinkuhorn og bakað og hrært þar til ég þarf að hlaupa út um hádegisbilið, en ég á stefnumót við góða og sjaldséða vinkonu í hádeginu. Fallafel-grænmetisbuffpíta á Rue des Rosiers í Mýrinni (4. hverfi) er langbesti skyndibitinn í París. Og þar í hverfinu ætla ég einmitt líka að kaupa afmælisgjöf mannsins míns. Hann á að fá litla gjöf og skinkuhorn í morgunmat á Þorláksmessu, en móðir hans var svo ósmekkleg að fæða hann á þeim degi. Við myndum sko fara í skötuveislu ef við værum á Íslandi, maðurinn minn fékk margar stjörnur í kladdann hjá pabba mínum fyrir að biðja um meira þegar hann gaf honum skötu í fyrsta skipti, en við látum okkur annað góðgæti duga í þetta sinn.
EN það er bara svo mikið um að vera hjá Eyju, getraunin er nú þríréttuð og skemmtilegar vísbendingar sem vekja vissulega hugrenningatengsl.
Hvað á ég að gera? Sleppa bakstri og stússi og hafa aðkeypt efni í veislunum? Sleppa getrauninni og dekra við manninn minn sem fær svo ódýrar gjafir að mig langaði að bæta það upp með heimabökuðu hornunum sem honum finnst svo góð?
Fylgist með.
Lifið í friði.
ahhhh
Reyndar ekki alveg ah bú, en næstum því. Bæjarferðin var löng og strembin en gekk samt vel, glerkúlan mín hélst heil og inni í henni sönglaði ég blús og var með uppbrettar andans ermar og gekk í málið. Tók m.a.s. ákvarðanir og allt.
Keypti barn handa barninu mínu. Skoðaði fullt af börnum sem segja arrheu eða pissa eða hlæja eða grenja, sum svo ljót að manni er spurn, hver í fjandanum býr þetta til? og önnur svo falleg og í svo fínum fötum að mann langar mest að skipta sínum eigin horlekandi, marblettóttu krógum út fyrir þessi blóð- og hjartalausu undur.
Dóttir mín fær bláeygða (bláeyga?) dóttur, sú eina með brún augu var svertinginn Caramel, ægilega sæt en dýrari en sú með bláu augun! Og mér fannst það eitthvað svo hallærislega gervi open minded að kaupa svart barn.
Drengurinn fær Playmobil og kallinn fær inniskó sem ég kaupi á morgun því ég hikaði eins og bjáni í dag.
En ég er hetja! Og það var nú ekki alveg á búðunum að sjá að dótið væri búið, nóg til í BHV, alla vega.
Ég er í svo miklu jólaskapi að mig langar mest að halda jólin strax í dag.
Lifið í friði.
p.s. ég hélt mér því miður ekki alveg innan eyðslurammans. Er ég þá ekki alveg ekta?
halelúja
Morgninum hef ég eytt í að flakka um veraldarvefinn í heimi leikfanganna. Ég neyðist víst til að fara í dótabúð og kaupa dót fyrir börnin í jólapakkann, það er engin undankomuleið, pakkarnir eru jú áreiðanlega stór ástæða fyrir því að jólabarnið lifir í mér, það væri hræsni að reyna að trúa sjálfri sér um annað.
Og ég verð að rækta upp þetta jólabarn í börnunum því ekki tekur maðurinn minn þátt í þessu standi og fussar helst og sveiar, steinhjartað bærist ekki við fallegar skreytingar eða ilminn af jólatrénu. "Er ekki hægt að slökkva á þessu?" spurði hann, ekki önuglyndur því það er hann sjaldan, þegar við settumst niður að horfa á 24 sama kvöldið og tréð hafði verið sett upp og fagurlega skreytt af mæðgunum, og ég held ég fari ekki með fleipur, það er eina athugasemdin sem tréð fagra hefur fengið frá honum. Ég verð sem sagt að rækta jólabarnið í afkvæmunum því annars verð ég ein á heimilinu gegn þremur púkum og þá verður erfitt að halda helgisvipnum á fésinu, ljósinu í hjartanu logandi og skipuleggja veislur og útbúa góðan mat með skapið í lagi. Nei, það líst mér ekki á.
Ég er því búin að skoða heilan helling af viðbjóði og nokkuð af vel heppnuðu dóti og held ég hafi fundið það sem ég vil gefa þeim. En eftir samtal við tengdamömmu sem vildi fá hugmyndir frá mér líka, enda er hún hálfhrædd við mig og þorir ekki lengur að gefa gjafir sem fara í taugarnar á mér, er ég komin með hjartslátt, hvað er allt er búið?
Hvað ef allt þetta fólk um allan bæ, fólk sem virðist nú bara hafa það ágætt, miðað við pokamagnið og þrátt fyrir hryllingssögur af kreppunni, er búið að kaupa allt dótið? Verður þá kannski ekkert eftir handa okkur? Verð ég eins og persóna í bíómynd sem lifir einhvern hryllingsdag í leit að ákveðnu dóti?
Ég veit að þessa helgi verður dótið rifið úr búðunum. Það er ekki séns að ég fari með börnin með mér í búðir, enda er ég að fara að kaupa fyrir þau svo það er ekki einu sinni hægt. Kannski á morgun. Sunnudagur í búðum finnst mér ein sú mesta viðurstyggð sem núkapítalisminn hefur fundið upp en líklega verð ég að lúffa. Enda verð ég áreiðanlega með smá verk í hárinu svo það verður kannski bara ágæt leið til að eyða annars hvort eð er ónýtum degi. Eða ég tek séns á að eitt dót hafi dottið úr hillu í látunum og rúllað undir og liggi þar í ryki þar til ég skríð um gólfin og finn það á mánudag. Fylgist með.
Lifið í friði.
uppboð og piparkökur
Já, humm, já. Meira plögg, það er ótrúlega erfitt að vera svona góðhjörtuð.
Það er uppboð hjá EOE (sjá tenglalistanum) tilvalið að kaupa jólagjafir sem styrkja gott málefni.
Og auðvitað eiga allir að eignast a.m.k. tvær piparkökur Framtíðarlandsins, eingöngu 500 krónur, eina sem á að geyma alltaf og aðra til að skreyta að vild og borða svo. Það er til dæmis tilvalið að gefa kökuna í fallegu boxi til geymslu.
Fyndið að fyrir jólagjafatillögur passar orðið tilvalið alveg ógurlega vel. Auglýsingamáttur hvað?
Lifið í friði.
Margrét Frímannsdóttir
Ég get óhikað mælt með ævisögunni um Margréti Frímannsdóttur eftir Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur, Tótu pönk.
Stelpan frá Stokkseyri fræddi mig heilmikið um pólitíska sögu sem ég hafði ekki fylgst nógu vel með úr mínum fjarska.
Kaflinn um krabbameinið er líka vel heppnaður, aldrei of væminn. Ég hafði ekki hugmynd um að Margrét hefði komið fram sköllótt, það taldist greinilega ekki fréttnæmt í minni fjölskyldu. Ég er mjög hissa en um leið alveg yfir mig ánægð með hana fyrir þetta.
Ég þarf endilega að finna út meira um húsið sem þau hjónin leigðu sér í Vosges-héraðinu, það hljómar spennandi kostur fyrir ferðalanga.
Í Lesbók síðasta laugardags (9. des) birtist svo grein eftir Jón Baldvin Hannibalsson um bókina. Hann hefur ekkert sérstakt út á bókina að setja fyrir utan það sem Margrét ásakar hann sjálfan um í einum kaflanna. Ég veit allt of lítið um það mál til að skipa mér í lið.
Hins vegar er það góður punktur hjá Jóni Baldvini að benda á ofbeldisþáttinn, eineltið sem Margrét lendir í fyrir kyn sitt og prófskírteinaskort. Vonandi vaknar almennileg umræða um það. Helst vona ég að gerendurnir biðjist afsökunar.
En Jón Baldvin fer út á tún þegar hann hnýtir í höfund fyrir að rukka Margréti ekki um framtíðina. Ég næ því alls ekki að manneskja sem segist vera á förum og ætli nú að fylgjast spennt með á hliðarlínunni eigi að skilja eftir sig einhvers konar fyrirmæli fyrir eftirmenn sína. Margrét er einfaldlega ekki nógu hrokafull til að ætlast til þess að hún hafi áfram einhver tögl og haldir þó hún sé að hætta. Og það er einmitt það sem gerir hana að stórmenni.
Ætli megi ekki segja að Jón Baldvin opinberi eigin hroka með þessari athugasemd?
Lifið í friði.
brotabrot
Mér sýnist samyrkjubú/kommúna í Pyrenées-fjöllunum draga að sér eðalfólk. Hvers vegna ekki að prófa í svo sem eins og eitt, tvö ár? Eftir svo sem eitt, tvö ár? Setjast niður og vinna hugmyndavinnuna, hvað hefur hver fram að færa, hvað vill hann/hún gera. Svo leigir maður bara út íbúðina sína, fyllir bíl af húsgögnum og dóti, hendir slatta eða gefur og heldur á vit fjallaloftsins. Ha? Er eitthvað að því?
Í dag ætla ég sannarlega að liggja í símanum því ég hef hvílíkt verið að ýta undan mér ýmsu nauðsynlegu að gera.
Ég SKAL hringja þau í dag. Ég skal! En fyrst ætla ég að fara og reyna að finna lítið jólatré. Fann bara stór tré niðri í búð í gær. Engir Flugbjörgunarsveitarflokkar að selja tré hér.
Ég er í mikilli fýlu út í sjálfa mig vegna getraunar Eyju. Hvað var ég að pæla að fara að tékka á mynd? Ég sá alveg saffranþræðina og átti bara að treysta á eigið innsæi alveg eins og Gunnlaugur skrifaði í stjörnukortið mitt fyrir tuttugu árum.
Í nótt dreymdi mig furðulega drauma um innréttaða skútu með sjónvarpsherbergi sem var með skökku gólfi svo sjónvarpið væri beint í veltingnum. Skútan var í eigu manns og konu sem nú eru víst skilin. En ekki í draumnum. Svo var líka einhvers konar félagsheimili/gistiheimili og þar var maður á svaðalegum leður-reiðbuxum, snjáðum að framan upp að hnjám. Það reyndist vera Málbeinið á leið út að skokka. Í draumnum horfði ég á hann út um gluggga og byrjaði strax að ímynda mér bloggfærslu um buxurnar og fannst ég ægilega hnyttin. Aðrir í draumnum voru vinkonur sem ekki blogga. Ég skálaði við niðurfallið úr Grafarvogi í göróttan(-um?) drykk, gin í greip eða eitthvað álíka.
Hættið að trufla mig.
Lifið í friði.
vírus í excel
Ég held að excel forritið í heilanum á mér sé með vírus. Mér líður mjög undarlega og næ ekki að gera neitt skipulega. Ekkert. Ég er ekki að tala um að fara fram í eldhús og gleyma hvað mig langaði í standandi gapandi við ísskápinn. Ég er ekki að meina þetta venjulega alzheimer light ástand okkar allra. Nei. Bara allt er í móðu, ég er þreytt og rugluð.
Það var brotist inn hjá vinafólki okkar í húsinu á móti í gær. Hún skrapp að ná í börnin í skólann og var í um 40 mínútur í burtu. Þau tóku tölvuna með öllum gögnum síðastliðins mánaðar, m.a. glósum fyrir risapróf sem hún er að fara í núna 15. janúar og auðvitað öllum myndum o.s.frv. Og allt í rúst náttúrulega. Ömurlegt. 2. skiptið á nokkrum mánuðum og alltaf á þessum sama tíma dagsins. Djöfulsins helvítis þjófapakk sem rænir af fólki sem er ekkert sérstaklega ríkt og vinnur hörðum höndum við að kenna litlum börnum og fær skítalaun fyrir. Djöfulsins skítaríkisstjórn sem ræður ekki neitt við neitt og rekur óhæfa skóla sem mega ekki lengur láta sitja eftir heldur gefa tveggja daga frí sem refsingu og helvítis foreldrar sem hafa gefist upp á uppeldi, alltaf of þreytt, æ, hann má núna. Oh, hann er svo óþekkur. Eh, ég bara meika þetta ekki. Djöfull er ég orðin leið á þessum plebbum út um allt og alls staðar.
Nú er spurning hvort maður eigi bara að láta slag standa og stofna kommúnu í Pyrenées-fjöllunum eins og rætt var lengi um í síma á dögunum. Þar eru kindur og birnir sem éta þær. Þar er gras og þar er snjór. Þar er Lourdes. Þar er stutt í ódýrt bús í Andorra. Þar verð ég kannski bráðum. Ertu með?
Lifið í friði.
prinsessur
Vúúú, eitraður og kaldhæðinn, prinsessupistilinn hjá Ármanni.
Þar sem ég geri ráð fyrir að tilheyra prinsessuhópnum hef ég eftirfarandi að segja:
Undanfarið ár eða svo hef ég átt við flösuvandamál að stríða. Það hefur tekið á sálina (viðkvæm), ég er mikið í svörtu (grennandi) og það er ekki gaman að líta í spegil (sem ég geri vitanlega í hvert skipti sem ég get) og sjá axlirnar alsettar hvítum flögum. Eiginlega alveg óþolandi. Ég hef prófað ýmis sjampó og meðferðir sem færustu sérfræðingar mæla með en þetta hefur verið upp og ofan. Greinilegt samband hefur mér þótt milli álagstíma og flösunnar, ef ég er mjög stressuð klæjar mig meira en þegar allt er í rólegheitum.
Á Íslandi hvarf flasan alveg núna, sem og kláði í hársverði. Ég var að vonum ánægð með það en nú er hún komin aftur með öllum aukaverkununum. Það að ég sé að skrifa jólakortin sjötíu neita ég að sé nógu stressandi til að koma af stað flösunni. Ekki er ég heldur í gjafainnkaupastressi, næstum búin með allt því ég skildi þær eftir á Íslandi og við maðurinn minn ætlum ekki að gefa hvoru öðru gjafir þetta árið. Börnin fá eitthvað smotterí og þá er það upptalið og hef ég litlar áhyggjur af því.
Fjárhagurinn er nokkuð bágur en þar sem ég veit að það lagast eins og alltaf nenni ég varla að stressa mig á því. Mér er alveg sama þó ég fái ekki foie gras þessi jólin og get alveg eins eldað kartöflurétt handa þessu hálfanoreksíska liði sem föðurfjölskydla barnanna er.
Á Íslandi fór ég í sund á hverjum degi, ætti ég kannski að þvo mér upp úr klór? Reyndar var mér sagt um daginn að konur ættu að ganga í ljósum fötum eftir fertugt, það dregur víst úr hrukkunum svo kannski er þetta ekkert vandamál, bara henda fatalagernum eins og hann leggur sig og kaupa nýjan?
Lifið í friði.
boðið skrautið
Jæja, þá hefur boðið verið haldið. Þó að nokkra vantaði vegna veikinda eða þreytu eftir ferðalag var íbúðin vel full af fólki en börnin voru bara fimm. Þegar síðustu gestirnir fóru rúmlega sjö í gær leið okkur hjónum eins og undnum tuskum. Þá þurfti að setja börnin í bað og þvo þau með sérstöku lúsasjampói því tvö af börnunum sem komu hafa verið að berjast við lýsnar í allan vetur og voru með lús aftur í vikunni.
Þegar við ákváðum að láta foreldrana vita að þau væru eiginlega ekki velkomin varð uppi fótur og fit, það hrikti í styrkum stoðunum sem Pauline heitin hafði byggt, fólk var kallað dónar, eiginhagsmunaseggir o.fl. og á endanum varð það ofan á að leyfa þeim að koma, nokkrar lýs ættu ekki að duga til að eyðileggja ágætis samkomulag sem hefur ríkt hingað til hjá þessari fjölskyldu.
Kannski geri ég einhvern tímann portrett af þeim fyrir ykkur, það er óneitanlega kostur að eiga sitt álfamál og geta talað óheft um nána hér á blogginu án þess að þau geti skilið það.
Líður að jólum. Stóru vöruhúsin í París leggja alltaf mikið upp úr skreytingum, fengnir eru frægir hönnuðir og kapp lagt upp úr að láta glitra sem mest, konurnar eiga að dáleiðast og kaupa þannig meira. Hugmyndafræði gömul eins og vöruhúsin sjálf.
Í dag leyfi ég Sólrúnu að skrópa í skólanum og ætlum við, ásamt Lucie vinkonu og mömmu hennar að skreppa í stelpuferð í bæinn að skoða dýrðina. Ekki verða peningar í buddunni og kortin skilin eftir heima svo við getum bara dáleiðst eins og við viljum án þess að stefna fjárlögum fjölskyldunnar í hættu. Ég ætla hins vegar að vera með myndavélina á lofti og næsta ár verður París áreiðanlega markaðssett sem góð aðventuborg á
parisardaman.com. Þið sem ekki viljið dáleiðast og koma í transi til Parísar fyrir jólin, getið þá skoðað síðuna með sólgleraugum, ég skal vara ykkur við.
Ég vona innilega að þið öll eigið sem bestan dag í dag, að veðrið leiki við ykkur, jólin hræði ykkur ekki, borðið nóg af konfekti og smákökum og verið róleg. Farið í sund og liggið í heita pottinum.
Lifið í friði.
mannleg hegðun
Í gær gekk ég niður Rue Saint Honoré með börnin í blíðskaparveðri, mátulega kalt og sól. Ekki að mig langaði að spranga um á þessari dýru verslunargötu í leit að jólagjöfum eða jólafötum heldur átti ég að vera mætt með börnin í Palais Royal í vinnuna hans afa Bruno (hann er ekki konungur og ekki butler þó hann vinni í höll) sem flaggar barnabörnunum á jólaballi vinnustaðarins og þetta var besta leiðin úr íslenska skólanum.
Á leiðinni blótaði ég mannfólki af ákveðinni tegund í sand og ösku. Sérstaklega finnst mér ofskreyttar og aðeins of ríkar tískudrósir þreytandi fyrir augað og þegar pelsklædd kona ruddi Kára um koll, leit niður og sá hann með andlitið ofan í götuna, klofaði hálfvegis yfir hann og hélt leið sinni áfram eins og ekkert hefði í skorist varð ég svo reið og pirruð út í þetta skítapakk að ég er eiginlega ekki enn búin að ná mér.
Ekki það, mér fannst þeir ekkert tilkomumeiri gallabuxnaklæddu strákarnir sem stóðu fyrir utan ZöruHMEdamoghvað þær nú heita ódýrari búðirnar á Rivoli, með aðeins of marga poka í höndum og óhugnalega tóman svip á andlitinu. Það var eiginlega samt dálítið fyndið, allir þessir karlmenn, yfirleitt ungir, líklega eru þeir gömlu búnir að læra að setja mörkin og fara ekki með konunum í búðir, standandi í röð upp við grindverkið sem aðskilur gangstétt frá götu, þekkjast ekki og gátu því ekki rabbað, bíðandi þarna með pokana meðan sú heittelskaða straujaði kortið. Líklega smá snertur af brjóstsviða því unga menn langar heldur að leggja peningana á banka og safna fyrir t.d. húsnæði, er það ekki?
Verslunaræðið er ekki skemmtilegur hluti af jólunum. Á St. Honoré voru mörg svört tré í fínu búðunum, heimsku tískuhálfvitar. Í BHV eru trén hvít með kúlum í öllum litum og svo regnbogar inn á milli enda er BHV að breytast meira og meira í hommabúð, líklega vegna nálægðarinnar við hommahverfið í Mýrinni. Þetta tel ég kost, finnst BHV ennþá langbesta vöruhúsið í bænum enda fann ég fljótt og vel töfraefni til að gera við leka sem hófst hér í síðustu viku á baðherberginu og gat þar að auki keypt litlar gjafir handa tveimur mikilvægum manneskjum. Það kalla ég vel af sér staðið því mannmergðin þarna inni og stöðugt áreiti frá fólki sem tilkynnti tilboð í hátalarakerfinu var á góðri leið að gera út af við mig, það kom áreiðanlega stór sprunga í glerhjúpinn minn fína.
Nú ætla ég að fara að telja og pússa kampavínsglös, raða servíettum fallega, taka fram fínu diskana, baka sætar kartöflur, skera hangikjötið, baka tómatbökur, útbúa ostabakka... föðurfjölskylda barnanna er að koma í kaffi.
Lifið í friði.
p.s. einhver ráð til að koma þriggja ára þrjóskupúka í mjúka og góða skyrtu sem var keypt á hann en hann þvertekur fyrir að fara í?
skítaveður
Rigning og rok.
Lifið í friði.
þýðingar
Það er alveg furðulega leiðinlegt að þýða matseðla. Kokkar eru nefninlega með einhvers konar ljóðskáldakomplexa og vilja því verða dálítið uppskrúfaðir þegar þeir skýra réttina sína.
Lifið í friði.
fyrir hálftíma
Áðan græddi ég hálftíma.
Ég eyddi honum strax.
Lifið í friði.
börn og menning
Og auðvitað eiga allir að hlaupa út í bókabúð og kaupa Börn og menningu, tímarit sem gefið er út af IBBY og er stútfullt af skemmtilegu efni. Þar er t.d. að finna grein um skóla og börn í Frakklandi, eftir mig sjálfa. Þar sem ég hef ekki séð blaðið sjálf þori ég varla að auglýsa þetta, en samt, verð ég ekki að gera það?
Lifið í friði.
jólabónus og jólatré
Af því að ég er svo góð á aðventunni ætla ég að plögga meira. Reyndar er síðan mín lítið lesin miðað við dívur eins og Þórdísi og Tótu pönk sem segir að um daginn hafi verið 800 flettingar á einum degi. Það hlýtur að jafnast á við lestur á dagblaði. Reyndar hafði hún notað orðið frekjutussa stuttu áður og miðað við reynslu Eyju og fleiri eru dónaleg orð vinsæl á gúgglinu. En ég á nú samt einhverja lesendur sem lesa engin önnur blogg svo ég skelli þessu hér inn:
Í kvöld er Hugleikur með jólaskemmtun. Miðað við hvað síðasta skemmtikvöld var skemmtilegt þori ég óhikað að mæla með þessu og mæli einnig með að fólk mæti tímanlega því ég er handviss um að það verði troðfullt hús.
Svona hljómar auglýsingin hjá Gvendarbrunni með smá breytingu af því fyrra kvöldið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka:
Jólabónus, jólaskemmtun Hugleiks, verður í Þjóðleikhúskjallaranum, fimmtudagskvöld kl. 21.00. Umfjöllunarefni sýningarinnar eru m.a.: Kaupæði nútímajóla, hættur og aðgát við laufabrauðsskurð, jólasveinar sem kynverur og mannát á jólum. Auk þess verður flutt létt tónlist og jólaföndur verður í hávegum haft. Be there or be ferkantaður.
Svo minni ég á að jólatré flugbjörgunarsveitarinnar eru langlanggrænust og sölustúlkan þeirra er með fegurri jólatréssölustúlkum sem um getur. Flugbjörgunarsveitin er svona klúbbur fólks sem hefur gaman að því að láta sér verða mjög kalt og prílar kletta og klífur skriður sér til gamans um hverja helgi. Þetta lið er svo hægt að nýta, ég leyfi mér að segja þjóðnýta, þegar plebbar úr Grafarvoginum fara að rífast á tjaldstæðinu í Skaftafelli, kallinn rýkur í burtu á lakkskónum og kellingin fær móral eftir nokkra klukkutíma og þarf aðstoð við að leita að honum hríðskjálfandi og köldum. Þetta er náttúrulega lélegt dæmi í hugum margra því ég veit að sumum þykir landhreinsun í fækkun grafarvogsbúa á lakkskóm en hugsið um börnin sem hefðu misst föður sinn og munið að þó Íslendingar almennt viti ekki hvað sjálfboðaliðsstarf er, vita flubbarnir það sko sannarlega.
Jólatréssalan er þarna á víða og illa nýtta svæðinu vestur af Öskjuhlíðinni, eða var þar a.m.k. í fyrra, einhver bílaleiga og gott ef keilusalurinn er ekki þarna ennþá. Ég hef ekki hugmynd um það hvort hún er byrjuð en það er alla vega fljótlega og ekki kaupa gervijólatré og ekki kaupa tré án þess að styrkja gott málefni (og þetta leyfi ég mér að segja þó ég viti að sumum þyki það mjög gott að þeir ríku verði sífellt ríkari).
p.s. strákar, ef þið viljið vita meira um sölustúlkuna forrkunnarfögru veit ég ýmislegt, tölvupósturinn minn er gefinn upp á þessari síðu sem og á parisardaman.com.
Lifið í friði.
Vínfræðsla á Vínbarnum kl. 18 í dag
Vínskólinn kynnir Norbert Grabensteiner, austurrískan arkitekt og vínáhugamann sem mun fjalla um austurrísk vín á Vínbarnum í dag klukkan 18.
Þriðjudaginn 12. desember í Ostabúðinni Skólavörðustíg: Vín með jólamatnum.
Ekki auglýsing heldur ráðgjöf frá fagmönnum um góðar og betri samsetningar!
Skráning er hjá dominique(hjá)vinskolinn.is (sjá einnig tengil hér til hliðar undir LYST.
Lifið í friði.
getraunirnar
Jæja, þá er aðventan byrjuð með leik og gríni og Málbein og Eyja komin af stað með getraunir. Þær eru svínslegar eins og getraunir eiga að vera fyrir fólk sem hefur aðgang að Google.
Ég held reyndar að Þórdís hafi þó aðgang að betri tólum en Google, ég er farin að hallast á það að hún sé njósnari á vegum CIA og geti rennt myndunum í gegnum svona recognition-forrit. En þetta er nú bara prívat og persónuleg skoðun mín og kemur því alls ekki við að ég sé á nokkurn hátt tapsár. Ó nei.
Ég vann eina svínslega getraun fyrir nokkru síðan og gæði mér á verðlaununum á kvöldin, en ég held að ég geti mælt með bókinni um Margréti Frímanns í pakka handa öllum afturhaldskommatittum sem þið gætuð þekkt og elskað nógu mikið til að splæsa bók á.
Viktor rithöfundur nennir greinilega ekki að vera með sína snarskemmtilegu getraun aftur í ár, og ég skil það svo sem óskaplega vel. Ég komst að því að hann bloggar á síðunni sinni og þarf að tengja hann inn fljótlega. Og fyrst ég er komin út í höfundana get ég líka upplýst ykkur um að Ævar Örn var ekki á Ölstofunni um miðjan nóvember. Það er því eins gott að ég fór ekki að heilsa þessum manni sem var þar staddur í hans gervi, hver veit nema þarna sé raðmorðingi á ferð? Kannski skiptir hann um höfunda, fer í nýtt gervi um hverja helgi og dregur artífartí stúlkur á tálar, svona rithöfundagrúppíur, er það ekki til annars? Svo myrðir hann þær hægt og rólega alla vikuna og byrjar aftur næstu helgi með nýjan höfund og nýtt fórnarlamb. Af hverju skrifa ég ekki sögu? Af því ég nenni því ekki. Sá sem nennir að prjóna út frá þessu má það, en þarf að þakka mér þegar hann tekur við óskarnum/nóbelnum/eddunni/glerlyklinum.
Ég klikkaði gersamlega á því að sækja mér bók til Ævars og bið hann hér form- og opinberlega afsökunar og tel mig eiga kaffibolla og bók inni síðar meir.
Lifið í friði.
Snilld. Tær snilld. Það er fyrirsögninn sem er tengillinn elskan.
Lifið í friði.
Er Indriði mikið erlendis?
Jólaballið á sunnudag tókst príma vel. Enn og aftur fékk ég hrós fyrir túnfisksalatið mitt, ég geri nefninlega eitt af bestu túnfisksalötum í heiminum, held ég. Leyndarmálið er cumin (kúmmín minnir mig á íslensku) og nóg af því. Annars bara salt og pipar og sítrónusafi, nóg af honum líka. Ekki of mikinn lauk og alls alls ekki of mikið majónes en nóg af eggjum og túnfiski. Voilà. Stundum, þegar ég fíla mig villta set ég annað útí, t.d. setti ég cayenne-pipar núna, stundum smá sojasósu, ostrusósu, grænt krydd eða tómatsósuslettu. Ég man ekki eftir að hafa sett kók útí, en ég hef slett því út í hinar ýmsu sósur og fengið lof fyrir þær hinar sömu sósur. Sykurinn væna mín, líklega alveg hægt að nota síróp eða hunang í staðinn.
Ég var að enda við að lesa upp vikuskammt eða svo af Nönnu matargúrú og hef greinilega orðið fyrir áhrifum.
En jólaballið var sem sagt afskaplega skemmtilegt, og teknar voru tvær umferðir af dansi kringum jólatréð. Það er fullt af börnum hérna núna þrátt fyrir eilífu spurninguna á Íslandi um það hvort hægt sé að ala upp börn í París. Auðvitað er það hægt, en vitanlega sagði ég alltaf í denn við sjálfa mig að ég ætlaði að búa hérna þangað til ég eignaðist börn, en kannski var ég að meina inni í miðborginni og nú er ég flutt í úthverfi. Reyndar bara í blokk og vantar eitt til tvö herbergi en samt komin út úr aðalskarkalanum. Og almenningsgarðurinn okkar er alvöru stór með alvöru stórum trjám.
En stundum langar mig samt aftur inn til Parísar, í miðja hringiðuna, alveg eins og ég myndi helst ekki vilja búa annars staðar en í 101, 105 eða 107 í Reykjavík. Ég skil ekki alveg fólk sem leggur ekki í að eiga börn við Njálsgötuna, hitti Njálsgötubörn um daginn og sýnist þau hamingjusöm og dafna vel. Enda er það ekki staðsetningin sem skiptir börn meginmáli, þau myndu þrífast jafnvel í moldarkofa í eyðimörk eða í snjóhúsi á ísjökli svo lengi sem uppeldisaðilar væru í lagi.
Annars á ég alltaf eftir að endurskrifa pistilinn sem aldrei komst innn úr tölvunni á hjara veraldar. Hann var umsögn um myndina BÖRN. Ég var alveg eftir mig eftir þessa mynd, hafði hreinlega ekki búið mig undir að hún væri svona svört og erfið en ég sat stjörf í stólnum frá upphafi til enda. Stórkostlega góð mynd (afsakið lýsingarorðin, en þetta er bara hreina satt).
Aðalplúsinn er náttúrulega tökustaðurinn, Breiðholtið mitt, sem hefur verið laglega dissað af cappuccino sötrandi miðbæjarrottum (þjófstolin staðalmynd úr Fréttablaðinu) hingað til. Flott hverfi og myndrænt og bara frábært að sjá blokkirnar, verslunarmiðstöðina í niðurníðslu þar sem Kron blómstraði áður, vellina og mörkin, hólana sem manni fannst svo stórir og bara allt.
Aðalmínusinn er svarthvítan. Næ því ekki hvaða ástæður liggja að baki hennar og skrifa það því á snobb. Það er enginn sparnaður í því í dag og mér fannst þetta ekki nauðsynlegt. En það þýðir þá bara að einhver kvikmyndagerðarmaður/kona getur enn tekið sig til og notað Breiðholtið í almennilegri stórmynd í lit.
Ef þú ert ekki búin að drífa þig á Börn, gerðu það þá fljótlega. Ég sá alls ekki eftir peningunum og er enn að spá og spekúlera í hlutum úr myndinni.
En ég er samt bara smáborgari ennþá, myndin náði ekki að breyta því:
Nú er jólaskrautið komið upp úr geymslunni en áður en ég fer að hengja upp krossauminn úr barnaskólanum og troða litlum fígúrum hingað og þangað ætla ég að vinna smá. Bara smá.
Veit enginn um fólk á leið til Parísar í desember? Borgin er mjög falleg og veðrið er hreint dásamlegt. Mig langar í göngutúr með fólk. Mér leiðist ógurlega að hafa engin verkefni önnur en í tölvunni, það er nefninlega ótrúlega hressandi og gefandi að fara út og hitta ókunnuga og segja frá því sem fyrir augu ber eða því sem er löngu horfið.
Og svona að gamni í lokin get ég sagt ykkur að mín sterkasta minnig úr Kron í Fellunum er þegar mamma sendi mig þangað að kaupa vítissóda. Ég man hvað dollan var óhugnaleg, með hauskúpunni og þetta ógurlega nafn var svo framandi. Gott ef letrið var ekki gotneskt eða í eldingastíl.
Og konan á kassanum grandskoðaði miðann frá mömmu og spurði mig spjörunum úr, líklega var kallað á verslunarstjórann til að taka ákvörðun um að leyfa mér, smávöxnu krílinu, að fara út með þetta stórhættulega efni í poka.
Síðar sagði verkfræðingurinn frændi minn Torfi mér að helvítis vítissódinn hefði eyðilagt allar fínu pípulagnirnar um allt land, að íslenskar húsmæður væru engu líkar í hreingerningaræði sínu. Ég þorði ekki að segja honum að mamma mín hefði notað hann, og hef reyndar aldrei talið móður mína neitt sérlega brjálaða þegar kemur að hreingerningum, held hún sé bara nokkuð mátuleg.
Önnur mjög sterk minning um sendiferð fyrir mömmu var þegar hún átti pantaða Eldhúsmellur í bókabílnum. Ég var alveg miður mín að þurfa að biðja um bókina, enda einn dyggasti viðskiptavinur bókabílsins, hékk þar yfirleitt allan tímann sem hann stoppaði við Hólagarð (sem var líklega ekki til þegar ég var send niður í Kron). Þennan dag gat ég ekkert hangið, svo yfirkomin var ég af skömminni.
Lifið í friði.
aðventan
Þau sem þekkja mig vita að ég er mikið jólabarn í mér. Ég er búin að vera ómöguleg hérna heima hjá mér, gekk svo langt að vera næstum búin að blanda mér gin og tónikk þarna áðan, nema að ég á auðvitað ekkert tónikk, en allt jólaskrautið mitt, y compris aðventukransinn stóri (allt of stór fyrir íbúðina en mamma bjó hann til sjáiði til og hann er mjög flottur) er niðri í geymslu. Og ég þori ekki að fara ein í geymsluna mína.
Þið megið gera grín að mér, bæði fyrir að vera jólabarn í eðli mínu og fyrir fáránlega myrkfælni mína í eina mínútu.
En áðan mundi ég skyndilega eftir kaupum sem ég hef stundum séð eftir þegar ég tek til í ákveðnum skáp á heimilinu. Þetta er forláta aðventukertasjaki sem ég fékk á slikk hjá fornsala í Óðinsvéum fyrir einhverju síðan. Mér fannst hann svo fallegur að ég bara varð að kaupa hann um leið og ég vissi að það er apalegt að eiga einn of stóran aðventukrans og kaupa samt annan sem ég hef aldrei sett upp því einn of stór og annar minni væri hreinlega of mikið, m.a.s. fyrir mig.
Nú er spurning hvort ég leyfi ekki kransi móður minnar að hvíla sig þessi jólin og noti þennan í ár. Pen aðventa, er það ekki voðalega trendí og smart?
En þó er allt eins líklegt að ég setji samt þennan stóra upp þegar ég byrja að draga jólaskrautið mitt úr kössunum, ég get nefninlega ekki sagt að staðfesta sé mín sterkasta hlið, alla vega ekki þegar kemur að jóladóti. Ég hef þó næstum því haldið loforðið sem ég gaf mér um að kaupa ekkert nýtt skraut í ár, féll bara aðeins pínulítið fyrir einni seríu, en hún er líka sérlega falleg og minnir á seríur sem ég keypti um árið og endaði með að gefa þær allar og hef alltaf séð eftir því og verið sjúklega afbrýðisöm út í þau sem fengu svoleiðis gjöf frá mér.
Áðan kveikti ég á fyrsta kertinu og setti jóladisk Karlakórs Kjalnesinga á fóninn. Það er yndisleg stemning hérna hjá mér, regnið er m.a.s. hætt að lemja rúðurnar. Ég skil ekki þau sem finna ekki jólabarnið í sér, ég á nokkra slíka vini en ég skil ekki þennan kafla hjá þeim.
Lifið í friði.
hvað myndi gerast?
TF1 kl. 14.40:
L'amour en cadeau.
Endursýnd sjónvarpsmynd, leikstjóri Nadia Tass, Kanada-BNA, 2003.
Þjónustustúlkan Brandi býst við að eyða jólunum með fjölskyldu kærasta síns, Scott Shift, ungs milljónamærings. En Scott tilkynnir henni að henni sé ekki boðið. Bálreið gefur Brandi lögreglumanni frá FBI sem stundar barinn þar sem hún vinnur, upplýsingar um fyrirtæki Shift fjölskyldunnar.
Hvað myndi gerast ef ég blandaði mér gin og tónikk eða vodka í appelsínudjús og settist niður fyrir framan sjónvarpið?
Lifið í friði.
heim? út?
Við erum komin til Frakklands aftur, heim í íbúðina okkar sem sýnist svo lítil og slitin og full af óþarfa dóti og samt er voða gott að vera komin en samt erfið tilhugsun að geta ekki spjallað við mömmu yfir kaffibollanum og samt gaman að við erum að fara á jólaball að syngja íslensk jólalög og samt erfitt að vita að við förum ekki aftur í sund á næstunni og samt gott að geta lagt snjógöllunum en samt leiðinlegt að geta ekki hoppað út í garð í snjókast en og samt en þó ekki jú
Lifið í friði
p.s. Ég er ekki með samviskubit yfir þeim sem ég hafði ekki samband við, bara ferlega svekkt út í sjálfa mig. Er það í lagi?